Fréttabréf Ættfræðifélagsins - apr. 2020, Blaðsíða 11

Fréttabréf Ættfræðifélagsins - apr. 2020, Blaðsíða 11
Fréttabréf Ættfræðifélagsins í apríl 2020 http://www.ætt.is aett@aett.is11 Í þessari grein Tryggva Gíslasonar um lang- ömmu sína Jóhönnu Sveinsdóttur, sem lengi bjó á Brekku í Mjóafirði, er lýst hjátrú, hindurvitn- um, barnadauða, æðruleysi, fötlun, hugsýki, mis- rétti – og stöðu kvenna á 19du öld. Jóhanna Sveinsdóttir fæddist á Krossi í Mjóafirði 26. desember 1833. Foreldrar hennar voru Ragnhildur Konráðsdóttir, fædd í Vík í Lóni 1808, og Sveinn Hermannsson, fæddur á Rima í Mjóafirði 1801. Ragnhildur og Sveinn bjuggu í Mjóafirði alla sína tíð, fyrst á Dalaborg, síðan á Krossi og síðast á Steinsnesi. Árið 1841 týndist Sveinn Hermannsson með norska hákarlaskipinu Lærken úti fyrir Austfjörðum. Lét hann eftir sig sjö börn á aldrinum þriggja til níu ára. Jóhanna var á níunda ári er faðir hennar hvarf, þriðja í röð systkinanna. Eftir hvarf manns síns bjó Ragnhildur Konráðsdóttir á Steinsnesi, en síðan á Eldleysu. Um 1850 brá hún búi. Fóru þær mæðg- ur að Reykjum í Mjóafirði. Þar bjuggu Hjálmar Hermannsson, hálfbróðir Hermanns, afa Jóhönnu Sveinsdóttur samfeðra, og kona hans, María Jónsdóttir. Þegar Jóhanna Sveinsdóttir var tuttugu og þriggja ára, vinnukona á heimili Hjálmars og Maríu, eign- aðist hún dreng, Jóhann, sem dó tæpra þriggja vikna gamall. Drengurinn var kenndur Sveini Einarssyni, 18 ára bóndasyni á Krossi, næsta bæ við Reyki. Hins vegar benda líkur til, að Jóhann litli hafi verið son- ur Hjálmars Hermannssonar, en Sveinn á Krossi hafi verið fenginn til þess að gangast við barninu. María Jónsdóttir Í kirkjubók Fjarðarsóknar segir: „19. júní 1843 voru saman vígð í Fjarðarkirkju Hjálmar Hermannsson, bóndi í Firði, 24 ára, og María Jónsdóttir, bú- stýra hans, sama stað, 20 ára“.1 María og Hjálmar bjuggu í tvíbýli í Firði til vors 1847 þegar þau flutt- ust að Reykjum. Búnaðist þeim vel og eignuðust sex börn sem öll komust til fullorðinsára. Vilhjálmur Hjálmarsson, bóndi, alþingismaður og ráðherra á Brekku í Mjóafirði, sem átti Maríu Jónsdóttur að langömmu, segir í Mjófirðingasögum: Árið 1856 gerðist María [Jónsdóttir] hugsjúk að því marki, að hún nærðist ekki og hætti að tala við heimilisfólkið. Yngsta barn hennar, Margrét, var Tryggvi Gíslason: Jóhanna Sveinsdóttir kona á 19du öld þá aðeins á 4. ári. Um haustið eða veturinn næsta var henni komið til dvalar hjá vinafólki í Firði. En það kom að engu haldi. Í maí um vorið var hún flutt dauðvona til Gísla læknis Hjálmarssonar á Höfða á Völlum, þar sem hún andaðist litlu síð- ar. Þegar Hjálmar spurði lát konu sinnar er sagt, að hann hafi farið til Héraðs að annast útför henn- ar. Er María jörðuð í Vallanesi. „Sagt var að Gísli læknir hefði leitt Hjálmar að líkbörunum, mælt til hans þungum orðum, og sakað hann um að hafa valdið veikindum konunnar.“ „Það var mál manna, að Hjálmar hefði á þessum misserum lagt hug á vinnukonu sína, Jóhönnu Sveinsdóttur sem varð seinni kona hans – og María þá bugast.“ 2 Hjónaband Jóhönnu Sveinsdóttur og Hjálmars Hermannssonar Hinn 18. apríl 1858 gekk Jóhanna að eiga hálfbróð- ur afa síns, Hjálmar Hermannsson, sem fæddur var 19. ágúst 1819 og var því fjórtán árum eldri en hún. Þá var liðinn hálfur ellefti mánuður frá andláti Maríu Jónsdóttur. Hjálmar var hins vegar ekki alleinasta afa- bróðir Jóhönnu, heldur voru þau af öðrum og þriðja, því að móðir Hjálmars, Sigríður Salómonsdóttir, var Jóhanna Sveinsdóttir fæddist á Krossi í Mjóafirði 1833. 1858 gekk hún að eiga hálfbróður afa síns, Hjálmar Hermannsson, og átti með honum tólf eða þrettán börn. Ljósmynd Eyjólfur Jónsson

x

Fréttabréf Ættfræðifélagsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Fréttabréf Ættfræðifélagsins
https://timarit.is/publication/885

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.