Fréttabréf Ættfræðifélagsins - apr. 2020, Blaðsíða 19

Fréttabréf Ættfræðifélagsins - apr. 2020, Blaðsíða 19
Fréttabréf Ættfræðifélagsins í apríl 2020 http://www.ætt.is aett@aett.is19 drukknaði, og hlaut nafnið hans. Ég man að ég horfði rannsakandi á hann, gamlan mann úti í Bergen, og hugsaði, skyldir þú vera líkur honum föður þínum, honum langafa mínum, sem þú aldrei fékkst að sjá. Engin mynd er til af langafa og Björn í Noregi, eins og við alltaf kölluðum hann, var eini sonur langafa sem ég hitti. Mér fannst líka svo fallegt að hann skírði börnin sín tvö Björn og Agnesi. Vatnshrædd Já, ég ólst svo sannarlega upp með reynslu kynslóð- anna í eyrunum, hvort sem hún er nú líka í genunum. Mamma mín og móðursystkin voru sagnabrunnar og ég varð alltaf ein eyru þegar þau fóru að segja frá. Að þessar reynslusögur, um alla sem drukknuðu, hafi haft áhrif á líf mitt gegnum hlustunina, er ekki nokk- ur vafi, því ég er með eindæmum vatnshrædd og afar illa synd og fer helst ekki út á sjó, og aldrei í litlum bátum, þótt ég léti mig nú hafa það á námsárunum að sigla sjö sinnum með Gullfossi yfir Atlantshafið, til og frá Kaupmannahöfn, og verða þannig hálfdrætt- ingur á við Skúla fógeta sbr kvæði Gríms Thomsen, þar sem segir Hann Skúli fógeti á farinu var ferðunum Hafnar vanur; í fjórtánda sinni frægan bar festar um hafið svanur. Og þótt ég lenti í tólf vindstigum, eins og Skúli, þá fór allt vel, eins og hjá honum, sbr vísuna: Slotaði rokinu og stilltist dröfn, stormurinn var á enda, og Víkur að endingu heilum í höfn heppnaðist þeim að lenda. Genareynsla? Ef til vill hef ég lagt allar þessar sjóferðir á mig með þá genavitneskju að allt mitt fólk reri, oftast áfallalaust, yfir Hvammsfjörðinn öldum saman, þeg- ar það fór í Hólminn, Stykkishólm, til þess að sækja vistir. Þangað lá alltaf leiðin, hvort sem það var að sækja mat eða læknishjálp, og mömmu og systkinum hennar í Litla-Galtardal, þótti það heimsins eðlileg- asti hlutur að það væri alltaf sól í Hólminum, þaðan sem kaffið og kandísinn kom, þótt það væri í reynd ljósgrýtið í Drápuhlíðarfjallinu sem brá birtu yfir Hólminn. Þá gilti að vera veðurglöggur, rata milli skerja og boða og kunna á röstina sem steymdi fram eins og stórfljót með sjávaraföllunum. Engu er ég nú nær um reynslu og erfðir, enda erfitt að sanna slíkt, en auðvitað hefur öll lífsreynsla, bæði eigin og annarra sem við kynnumst, áhrif á líf okkar, samanber málsháttinn Brennt barn forðast eldinn. Sú reynsla sem við söfnum á lífsleiðinni, hvort sem hún kemur úr genunum eða á langri leið, held ég að hljóti oftast að verða okkur til góðs. Þó vitum við að erf- ið reynsla á ungum aldri getur haft mjög slæmar og afdrifaríkar afleiðingar fyrir börn. Á sama hátt getur góð reynsla á fyrstu árum ævinnar líka lagt grunninn að góðu lífi. Móðir mín ólst upp á þrem heimilum, í allsnægtum, ást og umhyggju til fimm ára aldurs, við mjög misjafnan aðbúnað og harðneskju næstu sex árin, og síðan við mikla fátækt og allsleysi, en hlýju, menningu og samheldni til fullorðins ára. Hún sagði mér oft að ástin og umhyggjan sem hún naut í bernsk- unni hefði fleytt sér yfir alla erfiðleika síðar á ævinni, meðal annars barninginn í kreppunni, því hún vissi alltaf að það var til betra líf. Mamma var að mínu mati afar heilsteypt, yfirveguð og sterk manneskja sem kunni að meta og njóta þess góða í lífinu. Þessi litla samantekt færir okkur víst ekki svör við tilgátu Kára Stefánssonar um að reynsla kynslóðanna erfist til afkomendanna, - og þó - en alla vega vildi ég ekki vera án allra þeirra reynslusagna og fróðleiks sem mér hafa áskotnast í lífi mínu og ég mun leitast við að koma reynslusögunum áfram til komandi kyn- slóða, líkt og mitt fólk hefur gert við mig. Genin sjá um sig sjálf, hvað sem í þeim felst, þeim verður ekki breytt! Hvað fá afkomendurnir frá okkur? Útlit, skap, gáfur og gjörvileika, veikleika, styrk… Við höf- um lengi trúað því að allt slíkt berist með gen- unum. En hvernig er með reynslu forfeðranna, berst hún sömu leið?

x

Fréttabréf Ættfræðifélagsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Fréttabréf Ættfræðifélagsins
https://timarit.is/publication/885

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.