Hinsegin dagar í Reykjavík - Aug 2018, Page 10

Hinsegin dagar í Reykjavík - Aug 2018, Page 10
„Upp í hugann kemur maður sem hét Jóhann Gestsson. Sá kunni illa að leynast fyrir heiminum. Hann var það sem sumir kölluðu flamboyant því það var sterk sveifla í honum enda stundum kallaður Malla milljón í hópi félaganna. Hann féll engan veginn að þeim einsleita anda sem ríkti í henni Reykjavík á sjötta áratug aldarinnar og varð iðulega fyrir barsmíðum og misþyrmingum, oftast í skjóli nætur. Af þeim sökum kvaddi hann Ísland, hélt til New York og starfaði lengstum sem rakari á Manhattan, naut ásta annars manns og lifði í þokkalegri sátt við sjálfan sig. Þó segir það sína sögu að hann innréttaði íbúð sína í Hell’s Kitchen upp á íslenskan máta, lét flytja íslensk húsgögn yfir hafið, eldaði íslenska kjötsúpu í hverri viku, í sófanum voru útsaumaðir púðar að íslenskum hætti og á veggjunum íslensk málverk. Hann þráði Ísland á sinn hátt en að lifa þar var honum óbærilegt og í hans augum óhugsandi að búa hér á landi. Til marks um heimþrána má nefna að aldraður maður og farinn að heilsu kom hann heim til að deyja.“ Úr sagnasafni Þorvaldar. „Eitt sinn var mér sögð saga manns sem kvaddi Ísland ungur á þriðja áratug aldarinnar og hélt til náms í Kaupmannahöfn. Hann menntaðist vel og hlaut góðan starfa, hafði svo sem aldrei hátt um kynhneigð sína að þeirra tíðar hætti en leyndi henni þó ekki fyrir vinum og kunningjum. Einhverja reynslu átti hann svo sára frá Íslandi að hann afbar ekki að vitja sinna gömlu heimkynna og stíga þar á land. Sigldi þó einu sinni með Gullfossi til Reykjavíkur, munstraði sig yfir á næsta strandferðaskip í Reykjavík og sigldi kringum landið til þess svo að stíga aftur um borð í Gullfoss og halda til baka til Kaupmannahafnar. Að sögn þeirra sem til þekktu steig hann aldrei fæti á Ísland nema til að munstra sig milli skipa, svo sárar voru minningarnar um upprunann. Hverjar þær voru veit víst enginn lengur. En eitthvað kallaði, eitthvað togaði.“ Úr sagnasafni Þorvaldar. „Hann var strákur úr sveit á Suðurlandi og stakk af á skipi til Kaupmannahafnar sautján ára haustið 1937 án þess að láta nokkurn vita af þeim áformum nema mágkonu sína kvöldið sem hann hvarf. Fjölskyldan vissi ekkert um afdrif hans fyrr en eftir heimsstyrjöldina að hann skrifaði heim eftir ótrúlega lífsreynslu. Lengst af þessum árum hafði hann starfað með sirkusfólki og ferðast um álfuna. Um tíma hafði hann lent í einangrunarbúðum nasista, sennilega í Hollandi, eins og títt var um þá sem ekki gátu sannað fasta búsetu á þeim árum. Birtist svo í Kaupmannahöfn eftir stríð, eignaðist heimili á Vesturbrú, stundaði þá skemmtistaði sem hommar sóttu og var langan hluta úr ári háseti á fraktskipum um víða veröld. Hann tók smám saman upp bréfasamband við ættingja sína og reyndist þeim góður gestgjafi í Kaupmannahöfn en kom aldrei til Íslands og dó í Kaupmannahöfn. Eitt sinn tyllti hann niður tánum í flugstöðinni í Keflavík á leið milli heimsálfa eftir að hafa munstrað sig af fraktskipi í Bandaríkjunum en gerði ekki vart við sig hér á landi, gat ekki hugsað sér það. Varðveist hafa bréf frá honum sem lýsa sársauka og biturð, bréf manns sem þekkti tilfinningar sínar en fann þeim ekki stað á Íslandi og sá þann kost einan – að hverfa.“ Úr sagnasafni Þorvaldar ommar flóttaáH OFF-VENUE DAGSKRÁ OFF-VENUE PROGRAMME hinsegindagar.is/offvenue reykjavikpride.is/off-venue Off-venue dagskrá hvers árs er í vinnslu allt fram að hátíð og hægt er fylgjast með henni breytast og þróast á vefsíðu Hinsegin daga. Vilt þú halda off-venue viðburð á meðan hátíðinni stendur? Fylltu þá út skráningarformið á vefsíðu Hinsegin daga og segðu okkur frá þinni hugmynd. Hinsegin dagar áskilja sér rétt til að hafna umsóknum sem ekki falla að markmiðum hátíðarinnar. Several off-venue events are happening during Pride Week – the full schedule can be found on the Reykjavik Pride website. Do you want to host your own event during Pride week? Fill out a registration form on the website and tell us about your idea. Reykjavik Pride reserves the right to reject applications that do not conform to our policy. Lag Hinsegin daga 2018: „Loksins“ The song of Reykjavik Pride 2018: “Finally” Flytjendur / Performers: Andrea Gylfa og/and Hinsegin kórinn/The Reykjavik Queer Choir Hljóðfæraleikarar / Instruments: Ásmundur Jóhannsson, Jóhann Ásmundsson, Steinþór Guðjónsson og/and Halldór Smárason Höfundur lags og texta / Music and lyrics: Helga Margrét Marzellíusardóttir Lagið verður aðgengilegt á / The song will be available at hinsegindagar.is/lag 10

x

Hinsegin dagar í Reykjavík

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Hinsegin dagar í Reykjavík
https://timarit.is/publication/1512

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.