Hinsegin dagar í Reykjavík - Aug 2018, Page 45

Hinsegin dagar í Reykjavík - Aug 2018, Page 45
hvað er í gangi og opni augun meira. Það er hollt fyrir bæði börn og foreldra,“ segir Georg. Einnig varð drag sýnilegra á götum úti: „Árið 1997 var Menningarnótt í Reykjavík líka að hefjast, þannig að margt spennandi gerðist í einu. Allt í einu birtist fullt af fólki sem hafði ekki verið sýnilegt út á við áður, fólk var úti á götu í fullu dragi, svipað og er að gerast í dag.“ Skemmtistaðurinn 22 var að sögn Georgs eins og félagsheimili á þessum tíma og allt þar til staðurinn lokaði – þar hittist ungt hinsegin fólk og myndaði samfélag. Á Spotlight voru sömuleiðis haldnir ýmiskonar viðburðir og þemakvöld þar sem fólk klæddi sig upp; afskaplega lífleg hinsegin sena var þar til staðar um tíma: „Þar var hálfgerð Studio 54-stemming.“ Georg segir umræðuna hafa opnast mikið og smám saman hafi almenningur tekið við sér og fengið aukinn skilning á eðli drags. „Við þurftum að kynna okkur og svara sömu spurningunum aftur og aftur, til dæmis í fjölmiðlum,“ útskýrir hann. „Þróunin hefur verið mikil síðan og fólk hefur smám saman áttað sig betur á hvernig hlutirnir virka. Draggkeppnin hefur vakið mikla athygli og verið góður stökkpallur fyrir ansi marga, titillinn er ákveðinn stimpill sem hægt er að nota til að vekja athygli á sér og fá viðurkenningu.“ Aukinn fjölbreytileiki á sviðinu Fyrstu árin sem keppnin var haldin voru það eingöngu drottningar sem tóku þátt. Einn titill var í boði, Draggdrottning Íslands. Árið 2005 voru síðan dragkóngar einnig boðnir velkomnir í keppnina og Draggkóngur Íslands krýndur í fyrsta sinn. Skipulaginu var í kjölfarið breytt og tveir titlar hafðir í boði, Draggdrottning Íslands og Draggkóngur Íslands, þannig að ekki þyrfti að velja á milli. „Það voru ekki allir hrifnir af því að kóngar væru orðnir áberandi,“ segir Georg „en mér var alveg sama um það, þeir voru komnir til að vera. Þeir komu inn með drag af nýju tagi og voru margir mjög frumlegir.“ Kvenkyns drottningar (stundum kallaðar bio-drottningar), sem spilað hafa stórt hlutverk í dragsenu Íslands seinustu 2–3 ár, komu aldrei við sögu sem keppendur í Draggkeppninni. Þær tóku þó þátt í skemmtiatriðum og sem aukaleikarar eða dansarar í atriðum keppenda. „Það var helst um 2015 sem ég fékk á tilfinninguna að fólk gæti verið móttækilegt fyrir kvenkyns drottningum,“ segir Georg en þar sem hann flutti frá Íslandi skömmu síðar varð ekki úr því að keppnin væri haldin á ný með kvenkyns drottningar meðal keppenda. „Það var aldrei sértitill fyrir þær og það var raunar ákveðið skipulagsatriði því það er ekki gott að hafa of marga titla. Ég hefði líklega leyst það með því að hafa áfram tvo titla, keppt væri í að vera kóngur eða drottning og kyn keppandans væri algjört aukaatriði. Ef kvenkyns drottning hefði unnið hefði það bara verið skemmtileg fjölmiðlaumræða. Drag hefur í mínum huga ekki eitt einasta boundary.“ Drag, hefðir og pólitík Georg segist álíta draghugtakið afar víðtækt. „Þú ert að skapa aðra útgáfu af sjálfum þér, framlengingu eða alter-egó. Það eru margar leiðir til að skilgreina hvað er rétt eða gott í þessu og hægt að fara í hvaða átt sem er, fólk er að læra á sjálft sig og fólkið í kringum sig, það er að tjá sig.“ Hann segir jafnframt að svið sé ekki alltaf nauðsynlegt, þótt drag sé í eðli sínu sviðslistaform. „Þú getur labbað niður götuna eða hreinlega sest inn á kaffihús og fengið þér kaffi og skapað ákveðna yfirlýsingu með því.“ Georg var meðlimur í Hommaleikhúsinu Hégóma, sem var með reglulegar sýningar á árunum 2004–5, m.a. dragkabarett á hverju laugardagskvöldi í rúma fjóra mánuði sumarið 2004, með ný atriði í hvert sinn. Hópurinn gaf auk þess út plötu með eigin sönglögum og Georg telur víst að nálgun þeirra myndi mæta mikilli mótspyrnu í dag: „Við gengum fram af fólki og ýttum á mörkin alls staðar.“ Tíðarandinn hafi breyst síðan og nú séu mun skýrari mörk milli þess sem er í lagi og þess sem er það ekki. Með draginu sé hins vegar hægt að fá fólk til að hugsa og hlæja: „Drag er til þess að sparka í andlitið á fólki, það fær fólk til að hlæja, það er hægt að gera grín að öllu.“ Drag getur líka verið pólitískt og Georg segir frá áhrifamiklu atriði hans og Skjaldar Eyfjörð á stóra sviðinu á Hinsegin dögum árið 2004. Þá höfðu samkynja hjónabönd ekki enn verið leyfð á Íslandi og atriðið snerist um að benda á þetta misrétti. Þeir gengu inn á sviðið hönd í hönd, Skjöldur í fullu dragi og Georg í jakkafötum, „Broadway-style“, syngjandi: „Ef ég mætti giftast þér“. Þeir voru svo gefnir saman á sviðinu á meðan dragdrottningar fleygðu glitrandi konfetti út um allt. „Þetta var mjög fallegt,“ segir Georg en þess má geta að samkynja hjónabönd voru ekki leyfð í íslenskum lögum fyrr en 27. júní 2010. M yndir úr D raggkep p ni Íslands. Ljósm yndarar: Brjánn Baldursson og G ísli Friðrik Sigurðsson 45

x

Hinsegin dagar í Reykjavík

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Hinsegin dagar í Reykjavík
https://timarit.is/publication/1512

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.