Fréttablaðið - 11.05.2021, Page 18

Fréttablaðið - 11.05.2021, Page 18
Kæru Valsmenn. Í dag erum við léttir í lund og fögnum 110 ára afmæli Knatt- spyrnufélagsins Vals. Upp- hafið má rekja til þess að nokkrir piltar stofnuðu fótboltafélag þann 11. maí 1911, dyggilega hvattir áfram af séra Friðriki Friðrikssyni. Saga Vals er ævintýri líkust og samofin íþróttasögu landsins. Okkar mesta gæfa var að festa kaup á jörðinni Hlíðarenda við Öskjuhlíð árið 1939. Þannig eignaðist Valur sitt eigið land og hefur byggt upp sína starfsemi lið fyrir lið. Þökk sé dugnaði og hug- sjónum forystumanna félagsins sem höfðu háleitar hugmyndir um uppbyggingu að Hlíðarenda. Þeir lögðu traustan grunn. Grunn sem við byggjum á enn þann dag í dag og ekki sér fyrir endann á. Á tímamótum sem þessum er ánægjulegt að líta um öxl, rifja upp góðar stundir, sigrana og ekki síst; minnast fallinna félaga. En það er ekki síður mikilvægt að horfa fram á veginn og reyna að spá fyrir um framtíðina vegna þess að á hverjum degi erum við öll að skrifa sögu félagsins. Í dag, rúmri öld frá stofnun Vals, erum við enn að vinna að uppbyggingu á svæðinu okkar, Hlíðarenda, til hagsbóta fyrir iðkendur félagsins. Mörg stór mál brenna á okkur varðandi þá aðstöðu sem við viljum búa þeim sem iðka íþróttir sínar hjá Val. Þar best hæst byggingu knatthúss sem mörgum hefur verið tíðrætt um. Viðræður hafa staðið yfir við Reykjavíkurborg í allnokkurn tíma og við trúum því að það hilli undir lausn á því máli. Saga okkar sýnir að þegar við höfum náð fram úrbótum á aðstæðum iðkenda okkar, s.s. íþróttahúsið 1958 eða grasvöllurinn 1971, þá hefur það verið mikil lyftistöng fyrir íþrótta- starf Valsmanna. Við erum komin að þeim tímamótum að þörf er á aukinni aðstöðu. Fjölgun yngri iðkenda í fótbolta, handbolta og körfubolta er slík að til þess að geta sinnt þessari miklu ásókn verðum við að bæta aðstöðuna. Á hverjum einasta degi er eitt- hvað spennandi og skemmtilegt að gerast að Hlíðarenda og oftar en ekki er sjón sögu ríkari. Mikið líf og fjör er innan húss og utan þegar ólíkir aldurshópar mæta á svæðið. Gleðin og eftirvæntingin endur- speglast í andlitum krakkanna. Einvalalið stýrir æfingum, starfs- fólk félagsins er sífellt á tánum og fjöldi sjálfboðaliða leggur nótt við dag til að halda íþróttastarfinu í réttum skorðum. Við hjá Val höfum orðið þeirrar gæfu aðnjótandi að vera sigursælt íþróttafélag en meira þykir mér vert um þá áherslu sem félag- ið leggur á; að heilbrigð sál búi í hraustum líkama. Íþróttaiðkun er besti undirbúningurinn til árang- urs í lífinu, ekki síst vegna þess að mótlætið er þroskandi; að þurfa að hafa fyrir hlutunum. Við upp- skerum eins og við sáum. Agi og ánægja eru lykilorð í velgengni, því þeir sem leggja sig fram ná góðum árangri. Við leggjum áherslu á að allir séu jafnir og njóti virðingar að Hlíðarenda, líka mótherjar okkar. Valur er metnaðarfullt íþrótta- félag sem hefur það að markmiði að vera í fremstu röð í fótbolta, handbolta og körfubolta, karla og kvenna og gefa öllum jöfn tæki- færi. Árið 2019 uppskárum við ríkulega þegar meistaraflokkar kvenna urðu Íslandsmeistarar í handbolta, fótbolta og körfubolta. Og enn fremur bikarmeistarar í handbolta og körfubolta. Ólíklegt er að þetta verði endurtekið í bráð. Það að standa uppi sem Íslands- meistari er mikilvægt fyrir kom- andi kynslóðir en við leggjum enn meiri áherslu á að öllum líði vel að Hlíðarenda, fái útrás. Við erum öll að glíma við eitthvað og besta leiðin til að takast á við sjálfan sig er að stunda íþróttir, fá útrás, sýna félagsþroska og vera hluti af öflugri liðsheild. Þá skapast gott jafnvægi til að takast á við verkefni hvers dags. Við fögnum hverjum einasta iðkanda og þeim fer fjölgandi dag frá degi. Hverfið okkar er í hraðri uppbyggingu, íbúum fjölgar hratt og það setur aukna pressu á okkur Valsmenn. Við viljum fá allar fjöl- skyldur að Hlíðarenda. Einkunnarorð Vals, orð séra Friðriks, verða ætíð í hávegum höfð meðal Valsmanna: „Látið aldrei kappið bera fegurðina ofur- liði.“ Færa má sterk rök fyrir því að þau eigi jafnvel meira erindi til okkar í dag en áður fyrr, nú þegar hraðinn og kappið í þjóðfélaginu er orðið þannig að fegurðin fer stundum halloka. Það er fátt meira gefandi en að sjá sanna vináttu hjá ungum iðkendur sem hlaupa um glaðlegir og kappsamir. Framtíðin er þeirra og ábyrgðin er að hluta til okkar í Val. Við þurfum öll að hjálpast að. Sökum þess ástands sem nú ríkir í þjóðfélaginu, tengt þeirri óværu sem hefur raskað svo mörgu hjá okkur, þá erum við tilneydd til þess að fresta hátíðarhöldum okkar. Við stefnum hins vegar að því að slá upp veglegri afmælis- veislu með haustinu. Nánar verður greint frá því þegar línur fara að skýrast. En í dag, 11. maí, er afmælis- dagurinn og við kætumst yfir því. Kæru Valsmenn – innilega til hamingju með afmælið. Árni Pétur Jónsson, formaður Knattspyrnufélagsins Vals Viljum fá allar fjölskyldur að Hlíðarenda Árni Pétur Jónsson er formaður Knattspyrnufélagsins Vals og forstjóri Skeljungs. FRÉTTABLAÐIÐ/ERNIR Hver var þessi maður? Hvaðan kom hann? Hvert var markmið hans í lífinu? Á lífsgöngunni er okkur hollt að staldra við um stund, horfa til baka, rifja upp sögu og minn- ingar. Góðar minningar geyma í sér töframátt. Þær hlýja okkur um hjartarætur og kalla fram jákvæða hormóna í heilanum. Minningar virka eins og keðja sem tengir saman nútíð og fortíð, tengir saman kynslóðir. Hverfum í huganum til aldamót- anna 1900 í Reykjavík sem var að breytast úr sveit í bæ. Íbúafjöldinn var um 6.000 og æska Reykjavíkur átti sér ekki fjölbreyttar tóm- stundir. Beljur baula við nokkur hús, kindur jarma, vagnskrölt í fjarska og hlátrasköll leikandi barna. Hænsnakofar standa hér og þar, hundar gelta og kettir mjálma og á götum bæjarins má sjá ungan mann ganga hressilega og heilsa öllum drengjum sem hann hittir á leið sinni. Hann er léttur í spori, glað- legur og hlýlegur með alskegg. Hann býður þeim að koma á fund þar sem margir strákar safnast saman. Hann segir þeim að hann hafi stofnað Kristilegt félag ungra manna og að allir drengir séu vel- komnir. Þar sé sungið við raust, sögur sagðar og hlustað á Guðs orð. Margir drengjanna eru stilltir og prúðir en einstaka óróaseggir og uppivöðslusamir. Hver er hann, þessi einkennilegi maður? spurði fólk. Hvaðan kemur hann? Hvað vill hann? Hann var ungur stúdent sem hafði stundað háskólanám í Kaup- mannahöfn en var nú í guðfræði- námi við Prestaskólann í Reykja- vík. Friðrik Friðriksson hét hann og var ættaður úr Svarfaðardal. Hann var hugsjónamaður og trú- maður. Hann var hugdjarfur með óvenju ríkt ímyndunarafl. Hann var menntaður vel og hafði sér- staklega góða nærveru. Hlýlegur og alúðlegur. Hann átti sér marga drauma, meðal annars að íslensk æska gæti sungið við raust í trú, von og kærleika: „Áfram, Krists- menn, krossmenn.“ Og honum tókst að fá drengina til að syngja svo sterkt, að rúðurnar titruðu í samkomusalnum. Hann gekk með þeim í skrúðgöngu um bæinn og söngurinn ómaði um götur borgar- innar. Hann var mikill hlustari, var hljóður meðan strákarnir sögðu honum frá áhugamálum sínum. Hann las andlit þeirra og tjáningar og geymdi þá sér í minni. Skapandi, hvetjandi, brosmildur frumkvöðull og húmoristi. Hann tók mark á æskunni og stofnaði með þeim Knattspyrnufélagið Val 1911 þó að hann hefði aldrei leikið knattspyrnu sjálfur og kynni ekki reglurnar. Hann skrifaði fyrstu skáldsöguna á Íslandi um knatt- spyrnu árið 1931 til styrktar Val, Keppinauta, sem gerist vestan hafs í borginni Watertown (sem minnir á Vatna-skóg) – þar segir m.a.: „Þegar þú nærð knettinum, þá vertu fljótur að hugsa þig um, hvað þú ætlar að gera við hann. Haltu knettinum aldrei mjög lengi sjálf- ur, en vertu snar að skjóta honum til þess af samherja þínum sem hefur besta afstöðu til að koma honum áleiðis. Vertu djarfur að skjóta á mark, þegar þú ert í færi … Æfðu þig vel í að stökkva til hliðar og skjótast útundan þér; vertu snar eins og elding að snúa þér á hæli og æfðu þig vel í krókahlaupi … Hreyfingar hans voru svo fagrar og mjúkar, allar stellingar eitthvað hnitmiðaðar, vöðvar og limir í svo miklu samræmi, að það var sem einhver yndisþokki hvíldi yfir hverri hreyfingu.“ Markmið hans með leikjunum var að efla félagsþroska, sjálfsvit- und og einingu félagsliða, vera með einum huga, einlægir og áhuga- samir, en láta samt aldrei „kappið bera fegurðina ofurliði“. Hann lagði áherslu á vináttu og samhug, að í allri keppni værum við keppi- nautar en aldrei óvinir. Reykjavík hefur þróast úr bæ í borg. Dirrindí lóunnar ómar í fegurð sköpunarverksins. Kyn- slóðir koma og fara. Árið 2021, vor í lofti og Valur á 110 ára afmæli. Keppinautar komu út fyrir 95 árum og Haukar eiga 95 ára afmæli í ár (til hamingju, Haukar) og í sumar verða 70 ár síðan Þróttur vann fyrsta Haustmót Reykjavíkur í 4. f lokki í knattspyrnu í úrslita- leik við Val. (Þróttur var þá tveggja ára gamalt félag.) Í mars voru liðin 60 ár frá andláti sr. Friðriks, sem hafði áhuga á öllum krossgátum lífsins. Sumar voru honum spennandi og skemmtilegar, aðrar erfiðar og jafnvel sárar og sorglegar, en allar áhugaverðar. Andblær hans fylgir okkur á lífsgöngunni. Fyrir fáeinum vikum var ég staddur á yndislegri samverustund við skírn í sr. Friðriks kapellu og innan tíðar munu svellandi æskulýðssöngvar hljóma í sumarbúðum KFUM og K í Vatnaskógi, Vindáshlíð, Ölveri, Kaldárseli og Hólavatni – og Valur heldur áfram á vegferð sinni. Við kveðjum minningu um þennan einstaka hugsjóna- og trúarleiðtoga með dulmagnaða lífsgleði, manneskjulega innsýn og hlýju með orðum hans sjálfs: Fram á lýsandi leið skal þér litið í trú þar sem ljómandi takmark þér skín. Þórir S. Guðbergsson Hugsjónamaður og trúmaður Séra Friðrik með knött 1947 en myndina tók Óskar Thorberg Traustason í sumarbúðum KFUM í Vatna- skógi. Þúsundir drengja hafa dvalist þar við íþróttir, söng og leiki. „Ljómandi Lindarrjóður, liggur í fjalladal … Minningar hlýjar, hugur nú sér.“ Séra Friðrik Friðriksson vígir Valsvöllinn 3. september 1949. Með honum á myndinni er Úlfar Þórðarson læknir, for- maður Vals. Árið 1949 var Þórir, höfundur greinarinnar, leikmaður 4. flokks Vals. Myndina tók Pétur Thomsen. 2 11. maí 2021 ÞRIÐJUDAGURVALUR 110 ÁR A

x

Fréttablaðið

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Fréttablaðið
https://timarit.is/publication/108

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.