Fréttablaðið - 03.06.2021, Blaðsíða 44

Fréttablaðið - 03.06.2021, Blaðsíða 44
stod2.is Þriðja myndin í The Conjur- ing hrollvekjuröðinni vekur upp siðferðislegar spurningar. arnartomas@frettabladid.is The Conjuring-serían hefur verið fyrirferðarmikil á undanförnum árum enda einhver arðbærasta hryllingsmyndasería allra tíma. Myndirnar byggja á sögum af raun- verulegu fólki, þeim Ed og Lorraine Warren, sem unnu sér helst til frægðar að vera sjálfskipaðir sér- fræðingar í draugum, djöflum og öðru yfirnáttúrulegu kukli. Þótt margir líti á Ed og Lorraine heitin sem svikahrappa og loddara þá hafa The Conjuring-hrollvekjurnar vakið mikla lukku en þar byggir sögu- þráðurinn á því að Warren-hjónin hafi verið í raunverulegum tengsl- um við handan- og undirheima. Þessi frjálslega túlkun seríunnar á atburðum hefur áður vakið umtal, en aldrei jafnmikið og í kringum þriðju myndina, sem kemur í kvik- myndahús á Íslandi á morgun. Hvur andskotinn The Conjuring 3: The Devil Made Me Do It dregur nafn sitt af alræmdu máli sem átti sér stað í bænum Bro- okfield í Connecticut árið 1981. Þar var Arne nokkur Cheyenne Johnson sakaður um að hafa myrt leigusala sinn, Alan Bono. Í aðdraganda máls- ins hafði hinn 11 ára gamli David Glatzel að sögn fjölskyldu sinnar verið andsetinn af einhvers konar púka og var því meðal annars haldið fram að pilturinn hefði séð alls kyns sýnir og kyrjað upp úr Biblíunni og Paradísarmissi Johns Milton. Arne var á þessum tíma trúlofaður Debbie Glatzel, eldri systur David. Eftir að meintur djöfulgangur færðist í aukana hafði Glatzel- fjölskyldan samband við Warren hjónin, sem höfðu komist á kortið í Bandaríkjunum fyrir meint afskipti sín af hinu yfirnáttúrulega. Í kjöl- farið voru prestar kallaðir út í von um að þeir gætu sært burt púkann. Þegar særingin fór fram segja við- staddir að Arne hafi ögrað púk- anum sem að sögn flúði úr líkama David og tók sér bólfestu í Arne. Nokkrum mánuðum síðar varð Arne leigusala sínum Alan Bono að bana. Lögfræðingur Arne hélt því fram að hann væri andsetinn, en dómarinn úrskurðaði að slíkt yrði aldrei sannað. Arne var því dæmdur í tíu til tuttugu ára fangelsi fyrir manndráp, en var sleppt eftir aðeins fimm ár fyrir góða hegðun. Hvítþvottur og arfleifð Bono Þrátt fyrir að söguþráður fyrri myndanna tveggja haf i einn- ig gengið út frá því að vafasamar frásagnir Warren-hjónanna væru sannar, voru þar engin dauðsföll og því auðskilið hvers vegna sagan í þeirri þriðju stuðar suma. Ef fyrri myndirnar tvær eru einhver vís- bending þá er líklegt að Arne verði andsetinn í myndinni þegar að morðinu kemur, þótt ekki verði svo langt gengið að fórnarlambið verði Alan Bono. Það eru ekki liðin fjörutíu ár síðan að Alan Bono var myrtur og ekki ólíklegt að hann eigi eftirlifandi vandamenn sem eru líklega ekki par sáttir við að morðingi hans fái slíkan djöfullegan hvítþvott. Ef aðdáendur The Conjuring- seríunnar eiga erfitt með að réttlæta fyrir sjálfum sér að horfa á jafn sið- ferðislega vafasama mynd, geta þeir þó alltaf borið því við að djöfullinn sjálfur hafi fengið þá til þess arna. n Handbendi andskotans Davíð minn, þetta er ekki í boði núna! Notaðu innri röddina! Hvað hefur hlaupið í blessað barnið? MYND/SKJÁSKOT KVIKMYNDIR Cruella Leikstjórn: Craig Gillespie Aðalhlutverk: Emma Stone, Emma Thompson, Joel Fry, Mark Strong Þórarinn Þórarinsson Dalmatíuhundahatarinn alræmdi Grimmhildur Grámann, Cruella De Vil, er einn allra eftirminnilegasti og skæðasti Disney-skúrkurinn og því ekki ráðist á garðinn þar sem hann er lægstur þegar uppruna- saga hennar er rakin í leikinni mynd, sem skýrir hvers vegna Cruella er eins og hún er í teiknimyndinni sígildu One Hundred and One Dalmatians frá 1961. Leikstjóranum Craig Gillespie tekst þó alveg merkilega vel upp og Cruella kemur vægast sagt skemmtilega á óvart. Myndin er ferlega smart og stíliseruð þannig að drungalegt töffið lekur af titilpersónunni, hverrar hugur er jafn klofinn í svart og hvítt og goð- sagnakennt hár hennar. Brjálað séní Tilraunir Disney til þess að f leyta dáðustu teiknimyndapersónum sínum á fornri frægð yfir í raun- heima í leiknum kvikmyndum hafa gengið misvel upp, en Cruella hlýtur að teljast með þeim bestu. Sjálfsagt munar þar mest um að í stað þess að ljósrita frummyndina með leik- urum af holdi og blóði er hún mátu- lega laustengd teiknimyndinni, með áherslu á sköpunarsögu aðal- persónunnar. Undrabarnið Estelle fæðist með vandlega litaskipt hár í miðju, sem er vægast sagt táknrænt þar sem í barninu bærist fól, hliðarsjálfið Cruella. Estelle er náttúrutalent þegar fatahönnun er annars vegar en ekki síður efnilegt glæpakvendi og eftir að hafa munaðarlaus dregið fram lífið í London í slagtogi við nokkuð kunnuglega smákrimma, Jasper og Horace, fær hún óvænt tækifæri til þess að láta stílistaljós sitt skína. Tískueinvaldurinn f láráði sem kallar sig Barónessuna ræður Estelle til starfa, eftir að hafa áttað sig á að í skapandi huga stúlkunnar leyn- ast fjaðrir sem hún getur stolið og skreytt sig með. Barónessan reyn- ist síðan meiriháttar áhrifavaldur í lífi Estellu og d r e g u r f r a m það versta í henni, þar sem hún þarf á allri sinni Cruellu að halda til þess að hafa betur í þeim hrá- skinnaleik sem tískustríð við Bar- ónessuna er. Tvær Emmur Örlagasögu Estellu vindur fram á öndverðum áttunda áratugnum og tíðarandinn er geirnegldur með frábæru lagavali sem keyrir upp stemningu og stuð, í takt við ferlega skemmtilegar og töff senur þar sem brjálaðir búningar og klikkuð uppá- tæki Cruellu eru iðulega geggjaðir hápunktar. Atburðarásin tekur alls konar heljarstökk og kollhnísa við undir- leik The Clash, Blondie, ELO, Ninu Simone og þótt það ætti vitaskuld að vera illmögulegt að klúðra kvik- mynd sem skartar Five to One með The Doors, þá hefði þetta samt svo auðveldlega getað farið í hundana. Hér gengur hins vegar f lest upp og munar þar mestu að vaktina standa Emmur tvær í aldeilis fanta- formi. Emma Stone hefur tröllatak á báðum persónuleikum Estellu/ Cruellu og skautar hárfínt milli ógnvekjandi skuggahliðarinnar og skrúfar þess á milli frá botnlausum sjarma sínum þegar sá gállinn er á dömunni. Þungavigtarleikkonan Emma Thompson á síðan hvert bein í hinni rotnu Barónessu og nýtur þess greinilega í botn að túlka þá skelfilegu manneskju og stelur öllum sínum senum fyrirhafnar- laust og hefði auðveldlega rænt allri myndinni ef nafna hennar væri ekki jafn öflug og raun ber vitni. Í hund og kött Talsvert hefur verið látið með líkindi Cruellu og Joker, þar sem sviðsljósinu er beint að rótgrónum skúrkum úr dægurmenningarsög- unni um leið og illvirki þeirra eru undirbyggð og réttlætt að hluta á sálfræðilegum forsendum. Þetta er svo sem ekki úr lausu lofti gripið, þótt Cruella minni í raun miklu frekar á aðra andhetju frá Gotham- borg og er nokkuð markvisst og mjög greinilega spegluð í Kattar- konunni, Selina Kyle, úr Batman Returns eftir Tim Burton. Ekki nóg með að sterkur svipur sé með þeim Michelle Pfeiffer og Emmu Stone, þá leika þær báðar hæfileikaríkar en hlédrægar konur sem sauma sér kúl búninga og sleppa villidýrinu í sér lausu þegar þeim er nóg boðið. Þótt þessi teng- ing sé sterk eru öll tvímæli tekin af í lokin, þegar hún er hömruð inn í hástöfum með vægast sagt gegn- særri vísun í Catwoman. n NIÐURSTAÐA: Ferlega góð Emma Stone og gersamlega frábær Emma Thompson lyfta þokkalegri upp- runasögu langt yfir meðallag og gera Cruella að bráðskemmtilegri og smart mynd sem sýnir einu þekktasta og besta illmenni Dis- ney fullan sóma, þótt holdi klædd Grimmhildur sé ekki alveg jafn gegnsýrð af illsku og sú teiknaða. Góðir dagar Grimmhildar „Grimmhildur Grámann, ef hún þig ei hryllir; neitt hrylla þig kann.“ MYND/DISNEY LÍFIÐ 3. júní 2021 FIMMTUDAGUR

x

Fréttablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Fréttablaðið
https://timarit.is/publication/108

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.