Morgunblaðið - 13.02.2021, Page 18
Ágúst Ingi Jónsson
aij@mbl.is
Smátt og smátt er 24 metra trefja-
plastbátur að taka á sig mynd í Þor-
lákshöfn. Trúlega er um stærsta
trefjaplastbát að ræða sem smíðaður
hefur verið á Íslandi og líklega
stærsta fiskibát sem smíðaður hefur
verið hérlendis síðustu þrjá áratugi
eða svo. Á margan hátt er horft til
framtíðar við hönnun og smíði báts-
ins.
Ingimundur Árnason og fyrirtæki
hans, Ausus ehf., standa að smíði
bátsins, en fyrirtækið Dug og Ómar
Níelsson annast verkefnastjórn og
smíði sem undirverktaki. Báturinn
er smíðaður fyrir Manus útgerð,
sem Ingimundur á ásamt félögum
sínum, og gerir fyrirtækið bátinn
Regin ÁR-228 út frá Þorlákshöfn.
Ingimundur segir að stefnt sé að
því að sjósetja bátinn í ágústmánuði
og setja niður vélar og gera hann
kláran fyrir lok ársins. Hann hyggst
sjálfur gera bátinn út ásamt félögum
sínum, en segist vona að fleiri sýni
bátum sem þessum áhuga og að
fleiri bátar verði byggðir í skemm-
unni stóru í Þorlákshöfn. Nokkrir
útgerðarmenn hafi litið þar inn og
spurst fyrir um smíðina. Ingimund-
ur telur líklegt að fullbúinn kosti
báturinn um eða yfir 400 milljónir
króna.
Stend og fell með þessu
Hann segir að með nýja bátnum
sé stigið stórt skref inn í framtíðina,
en báturinn verði umhverfisvænn,
ódýr í rekstri og viðhaldsléttur. Mik-
il breyting verði á þessum báti og
gamla Regin, sem smíðaður var á
Ísafirði fyrir hálfri öld og er 17
metra stálbátur. Kvótinn á honum er
um 400 þorskígildistonn og segir
Ingimundur að nýi báturinn geti afl-
að mun meira en sem því nemur.
„Ég stend og fell með þessu,“ segir
Ingimundur, sem er 75 ára gamall.
Báturinn verður að mestu rafdrif-
inn og er framdrifsbúnaðurinn 400
kw rafmótor og rafgeymar sem
hægt verður að hlaða í landi. Einnig
verða ljósavélar um borð sem hægt
er að nota til að hlaða inn á raf-
geyma.
Báturinn er hannaður af Skipasýn
ehf. og er fjölnota skip fyrir ýmis
veiðarfæri og einnig fyrir farþega ef
því er að skipta. Fljótlegt og auðvelt
verður að skipta um veiðarfæri þar
sem þau verða í sérstökum einingum
sem hægt verður að hífa í heilu lagi
til og frá borði.
Nýsköpun í skipasmíðum
Ómar Níelsson hjá Dug hf. segir
að um mikla nýsköpun í skipa-
smíðum hér á landi sé að ræða.
Skrokkurinn og allt burðarvirki sé
steypt úr tvöföldu plasti með kjarna
á milli. Kjarninn sé notaður til að
forma skipið og síðan steypt á hann
sitt hvorum megin með trefjaplasti.
Kjarninn verði bæði einangrun og
hluti af burðarvirki skipsins. Efnið í
kjarnanum kemur frá Infuse ehf. og
segir Ómar að 83% af burðarefni og
einangrun skipsins séu endurunnið
plast úr gosflöskum. Í skipið fari efni
sem samsvari um 360 þúsund flösk-
um.
Báturinn verður 23,9 metra lang-
ur og átta metra breiður. Þvermál
skrúfu 2,5 metrar og djúprista 3,5
metrar. Lestin tekur 55-60 tonn af
fiski. Um 55% af steypuvinnu er lok-
ið og þá tekur við frágangur á vélum
og búnaði. Með Ómari við skipa-
smíðina starfa fjórir pólskir iðn-
aðarmenn, sem Ómar segir að hafi
mikla reynslu af plastsmíði.
Þess má geta að í byrjun síðasta
árs hóf nýr Bárður SH 81 róðra frá
Ólafsvík. Hann var smíðaður í
Rødby í Danmörku 2019 og er
stærsti trefjaplastbátur sem smíð-
aður hefur verið fyrir Íslendinga,
tæplega 27 metra langur og sjö
metra breiður.
Tölvumynd/Skipasýn
Fjölnota Í skut bátsins verður á fljótlegan hátt hægt að skipta um einingar fyrir ólík veiðarfæri.
Ljósmynd/Ómar Níelsson
Mörg handtök Fyrir nokkru var steypt utan á kjöl og neðsta hluta bátsins.
Stórt skref inn
í framtíðina
Stór umhverfisvænn plastbátur í smíðum í Þorlákshöfn
Að mestu rafdrifinn Plast úr 360 þúsund gosflöskum
Skipasmíðar Ingimundur Árnason og Ómar Níelsson við nýja bátinn. Stefnt
er að því að hann verði sjósettur í ágústmánuði og verði tilbúinn í lok ársins.
18 FRÉTTIRInnlent
MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 13. FEBRÚAR 2021
Kleppsmýrarvegur 8 | 104 Reykjavík | 581 4000 | solarehf.is | solarehf@solarehf.is
Faglegar heildarlausnir – allt á einum stað.
Samkeppnishæf verð.
Fáðu tilboð án allra skuldbindinga.
Starfsfólk með áratuga reynslu og þekkingu,
góð eftirfylgni og verkstjórn.
IÐNAÐAR- OG
NÝBYGGINGAÞRIF