Morgunblaðið - 18.02.2021, Síða 58
58 MENNING
MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 18. FEBRÚAR 2021
Útsölustaðir: Öll apótek, heilsuverslanir og heilsuhillur stórmarkaðanna
RAUÐRÓFUDUFT
í hylkjum
Lífrænt
Rauðrófur innihalda nítrat sem er talið geta
haft æðavíkkandi áhrif og aukið blóðflæðið.
• Getur haft jákvæð áhrif á
blóðþrýstinginn
og súrefnisflæði í blóði
getur aukist.
• 100% náttúruleg
innihaldsefni.
„Ég hef lengi þekkt heilsueflandi eiginleika
rauðrófunnar og þegar ég komst að því að hægt væri
að taka duft í stað safans varð ég spennt að geta bætt
þessu inn í mína daglegu bætiefnarútínu. Ég tek tvær
töflur hálftíma fyrir æfingu því ég finn hvað líkaminn
er fljótari að hitna og helst lengur heitur eftir upphitun
ef ég geri það. Ég hef notað Beetroot í hálft ár núna
og tek þau næstum daglega. Ég mæli eindregið
með þessu bætiefni fyrir alla og þá sérstaklega
íþróttafólk.“ segir Sólveig Bergsdóttir Íslandsmeistari
og landsliðskona í fimleikum.
Búið spil?
Útlendingar, flóttafólk og „hvít-
ir“ Íslendingar. Fyrir um áratug
mátti víða heyra umræður um að
fjölmenningarlegt samfélag Evrópu
væri í vanda statt vegna þess að
innflytjendur aðlöguðust ekki evr-
ópsku samfélagi. Sú umræða hefur
vel að merkja spunnist samhliða því
að fólk af erlendum uppruna – og á
margt hvert rætur að rekja til fyrr-
um nýlendna þeirra Evrópulanda
sem það býr í –
hefur þurft að
hlusta á svipaðar
deilur og þær
sem áttu sér stað
hér á landi um
Negrastrákana.
Umræðan um
vanda fjölmenn-
ingarlegs sam-
félags hefur ekki
horfið í samtímanum, heldur breyst
í áhyggjur af ógnum sem taldar eru
steðja að Evrópu og Bandaríkj-
unum vegna flóttafólks og hælisleit-
enda (eða umsækjenda um alþjóð-
lega vernd). Á sama tíma og
umræðan um vanda fjölmenningar
stóð sem hæst mátti einnig heyra
rætt um að hafið væri tímabil eftir-
rasisma þar sem kynþátta-
fordómum væri í raun lokið og að
við ættum að hætta að hafa áhyggj-
ur af þeim. Þetta eru að mörgu
leyti flóknar umræður sem ein-
kennast af upphrópunum og því að
merkja tiltekna hópa sem „góða
fólkið“ annars vegar og „rasista“
hins vegar. Engu að síður er mikil-
vægt að koma inn á þessa umræðu
og hvernig hún lítur út þegar við
höfum í huga það sem hefur verið
haldið fram í fyrri köflum þessarar
bókar. Að mínu mati hefur umræð-
an um vanda fjölmenningarlegs
samfélags verið á villigötum alveg
frá upphafi. Hún gengur út frá
röngum forsendum og felur í sér,
rétt eins og umræðan um norrænu
undantekninguna, minnisleysi sem
er viðhaldið á margvíslegan hátt í
samfélagi okkar og skapar þessa
sakleysiskennd. Hið sama á við um-
ræðuna um fólk á flótta í samtím-
anum; hún hvílir á forsendum sem
eru misvísandi, villandi eða rangar.
Í þessum kafla tek ég fyrir þessa
samtímaumræðu um fjölmenningu
og velti upp þeirri spurningu
hvernig umræðan lítur út ef við
horfumst í augu við að rasismi er
hluti bæði af fortíðinni og samtím-
anum. Samhliða því bendi ég á
hvernig umræðan um „fjölmenn-
ingu í vanda“ og flóttafólk er ná-
tengd viðvarandi hugmyndum um
hvítleika sem á Íslandi hafa líkleg-
ast skerpst frekar en dofnað. Á
sama tíma og flestir eru á einu máli
um að samfélög samtímans ein-
kennist af vaxandi fjölbreytileika
undir hatti þess sem er oftast kall-
að fjölmenning, virðist jafnframt
gengið út frá sífellt „hvítari“ fortíð
Evrópu.
Fjölmenningarhugtakið
Þegar ég var krakki las ég af
mikilli áfergju bækur Hals Foster
frá miðri 20. öld um Prins Valíant,
sem átti að vera uppi á tímum
Artúrs konungs í Englandi. Þegar
ég spyr nemendur mína hvort þeir
þekki þessar bækur eru reyndar
alltaf færri og færri sem þekkja
þær, en fyrr á tímum lásu þær
margar kynslóðir. Ég minnist að
auki stundum á sakamálasögur
Agöthu Christie sem einhverjir
nemendur þekkja. Þær segja einnig
frá fólki í Bretlandi og eiga flestar
að gerast í samtíma Agöthu Chris-
tie sjálfrar, á fyrri hluta 20. aldar.
Hvað eiga þessar bækur eftir þessa
ólíku höfunda þá sameiginlegt? Í
bókum þeirra beggja eru fólks-
flutningar undirliggjandi þráður
sem kemur alltaf reglulega upp á
yfirborðið. Í sögunum um Prins
Valíant, riddara hringborðsins, er
hann á stöðugum ferðalögum út og
suður. Hann er skáldsagnapersóna
en ferðir hans byggðust á sögum
sem Foster las um ferðir annarra
og því sem hann taldi að hefði
mögulega getað gerst á þessum
tíma, auk þess sem í sögunum
koma fyrir ýmsir viðburðir sem
áttu sér stað í Evrópu um þetta
leyti. Að sama skapi sjáum við
einnig að það er ekki bara Prins
Valíant sem fer á milli staða heldur
er sú Evrópa sem þá var til staðar
Evrópa alls konar fólks, og allur
bókaflokkurinn snýst um flutninga
fólks á milli ólíkra heimsálfa. Í bók-
um Agöthu Christie er þessi hreyf-
anleiki fólks kannski ekki jafn mik-
ið í forgrunni, en ef ólíkar bækur
hennar eru skoðaðar frá sjónar-
horni fólksflutninga áttar maður sig
á að fólkið í bókunum fer fram og
til baka á milli Bretlands og ann-
arra landa eða svæða, einkum
þeirra sem sem Bretar höfðu lagt
undir sig. Þannig fer ofursti til
Egyptalands, kennslukona kemur
heim frá trúboði í Indlandi og þessi
hópurinn eða hinn fer til Austur-
landa í frí eða vegna vinnu. Árið
1871 er áætlað að um 750 þúsund
breskir karlar væru við störf í þeim
nýlendum sem Bretar réðu á þeim
tíma.
Ef þetta er haft í huga verður
umræðan um fjölmenningu sem
eitthvað nýtt bæði furðuleg og vill-
andi. Hugtakið fjölmenning er oft-
ast notað til að vísa til aukins fjöl-
breytileika þjóðríkjanna og þeirrar
staðreyndar að þau eru í auknum
mæli samansett af fólki sem á ræt-
ur sínar að rekja til ólíkra heims-
hluta og hefur ólíkan menningar-
legan bakgrunn og jafnvel litarhátt.
Fjölmenningarhugtakið hefur þó
ekki alltaf sömu merkingu, sem
ræðst að einhverju leyti af því í
hvaða landfræðilega samhengi það
er notað. Í Kanada hefur fjölmenn-
ing til dæmis lengi verið stefna
stjórnvalda og hluti af þjóðarímynd
Kanadabúa. Í Bandaríkjunum er
fjölmenning aftur á móti oft tengd-
ari baráttu minnihlutahópa fyrir
réttindum og viðurkenningu sem
gildir þátttakendur í samfélaginu,
til dæmis með því að setja spurn-
ingarmerki við fjölda bókmennta-
verka hvítra karlmanna á leslistum
í skólakerfinu, á meðan verk
kvenna og fólks af öðrum uppruna
en breskum hafa verið útilokuð. Í
slíku samhengi snýst baráttan um
að undirstrika að bandarískt sam-
félag sé samansett af fleirum en
eingöngu þessum forfeðrum. Í þjóð-
ríkjum Evrópu er hugtakið oftast
notað til þess að vísa til aukins
fjölda innflytjenda sem eru taldir
eiga sér annan menningar- eða
trúarlegan bakgrunn. Hér virðist
umræðan um fjölmenningarlegt
samfélag oft ganga út frá því vísu
að fjölbreyttur uppruni ein-
staklinga sé nýr í samhengi þjóð-
ríkjanna og að þess vegna þurfi að
„aðlaga“ minnihlutahópa að ráðandi
samfélagi. Rannsóknir hafa sýnt að
tengsl við heimaland og samlanda á
nýjum stað eru þvert á móti mikil-
væg fyrir virkni í nýju samfélagi,
eins og rannsóknir Unnar Dísar
Skaptadóttur meðal Filippseyinga á
Íslandi bera vott um. Enda þótt
notkun hugtaksins fjölmenning feli
oft í sér þá undirliggjandi forsendu
að fjölbreytni sé ný dregur hug-
takið engu að síður á mikilvægan
hátt fram að fjölbreytileiki þjóð-
ríkja er veruleiki. Þetta getur verið
mikilvægt í stefnumótun hvað varð-
ar ýmsa málaflokka í samfélaginu,
til dæmis menntun.
Í byrjun 21. aldar mátti víða í
ríkjum Evrópu heyra því fleygt að
nú væri komið „nóg“ af fjölmenn-
ingarlegu samfélagi. Þær má meðal
annars merkja í vexti stjórnmála-
flokka og hreyfinga sem vilja berj-
ast gegn fjölmenningu. Umræður
um þessi mál stilla upp tveimur
andstæðum fylkingum „heima-
manna“ og „innflytjenda“. Oftast
nær þó áherslan á „heimamenn“
einnig yfir einstaklinga sem eiga
innflytjendabakgrunn en eru ljósir
á hörund og eins getur merkimið-
inn „innflytjendur“ vísað til fólks
sem hefur búið í landinu í nokkrar
kynslóðir. Breski félagsfræðing-
urinn Gurminder Bhambra bendir
til dæmis á þetta hvað varðar um-
ræður um kosningahegðun í Bret-
landi í tengslum við Brexit og kosn-
ingu Trumps til forseta
Bandaríkjanna árið 2016. Hún
minnir á að í útskýringum sem
byggjast á því að fólk hafi kosið
Trump og útgöngu úr Evrópusam-
bandinu vegna ótta við innflytj-
endur gleymist oft að minnihlutar í
þessum löndum hafa búið þar í
margar kynslóðir.
(Tilvísunum er sleppt.)
Fjölbreytileiki þjóðríkja er veruleiki
Bókarkafli | Í bókinni Kynþáttafordómar – í stuttu máli tekur Kristín Loftsdóttir kynþáttahugmyndir til skoðunar. Markmið
bókarinnar er tvíþætt. Annars vegar að gefa greinargóða skýringu á kynþáttafordómum í ljósi nýlegrar fræðilegrar umræðu
og hins vegar að sýna hvernig kynþáttahugmyndir hafa birst í íslenskri umræðu í ýmsum myndum, bæði í fortíð og samtíma.
Ljósmynd/Kristinn Ingvarsson
Fjölmenning Kristín Loftsdóttir er prófessor í mannfræði við Háskólann og hefur meðal annars unnið að rann-
sóknum á fordómum, nýlenduhyggju, hvítleika-hugmyndum og aðstæðum vegabréfslausra farandverkamanna.