Fréttablaðið - 25.08.2021, Síða 21

Fréttablaðið - 25.08.2021, Síða 21
Enn tengja eflaust margir andlit Guðrúnar Agnars- dóttur við Krabbameinsfé- lagið og það er engin furða. Alls var hún forstjóri félags- ins í 18 ár, eða frá 1992 til 2010. Á þeim tíma breyttist starf- semin umtalsvert. Þar má nefna að heimahlynning byrjaði sem sprotaverkefni og sannaði gildi sitt. Guðrún hafði frumkvæði að stofnun Ráðgjafarþjónustu Krabbameinsfélagsins sem er einn af hornsteinum félagsins í dag og þá tókst henni að endurnýja allan brjóstaskoðunartækjabúnað félagsins. Bleiku boðin hófu göngu sína sem fjáröflunar-og árveknis- átak og það sama má segja um Mottumars. Listinn er langur og ferillinn farsæll. Guðrún fagnaði 80 ára afmæli fyrr í sumar. Hún fylgist vel með heilbrigðismálum sem læknir og fyrrverandi þing- kona. Hún heimsótti Krabba- meinsfélagið og leit yfir farinn veg og velti fyrir sér framtíð félagsins á 70 ára afmælisárinu. Guðrún heilsar starfsfólki með virktum á leið um gamla vinnu- staðinn sem henni er svo kær. „Ég hafði verið hér í stjórn áður en ég hóf fullt starf en svo eru tengslin alltaf mikil. Maður lætur sjá sig á aðalfundum og svo er sæti í heiðursráði, svona ef maður hefur ekki klúðrað neinu stórkostlegu,“ segir Guðrún og brosir við. „Þannig að þau eru úti um allt, tengslin við fólkið sem hér starfar og hefur hingað leitað. Milli allra þessara ólíku sviða og skilgreindu deilda var mikill samgangur, í matsalnum hittist starfsfólkið á jöfnum grundvelli, brosti og spjallaði og mér leið alltaf eins og hér væri saman komin ein stór fjölskylda. Ég hugsa til hennar með miklum hlýhug.“ Skilgreinum þörfina og svörum kallinu Breytingar hafa orðið á starfi félags- ins undanfarin ár. Sú veigamesta er líklega sú að Leitarstöð Krabba- meinsfélagsins hætti störfum um síðustu áramót eftir að hafa starfað óslitið frá árinu 1964. „Það hafa orðið miklar breyt- ingar en mikilvægast fyrir félag á borð við Krabbameinsfélagið er að aðlaga sig nýjum tíma og nýjum aðstæðum. Við vorum eina félagið á Norðurlöndum sem stundaði leitarstarf með þessum líka góða árangri sem hér náðist. Ástæðan var sú að læknar höfðu mikinn vísindalegan metnað til að hefja skipulagt leitarstarf í forvarnar- skyni og má segja að Krabba- meinsfélagið hafi verið langt á undan stjórnsýslunni í heilbrigðis- málum. Þarna var þörf sem þurfti að sinna og félagið gat sinnt henni. Félagið er stofnað af áhugafólki í heilbrigðisstétt sem eygði mögu- leika á að gera eitthvað sem skipti máli því þarna er til fagleg þekking og mikill hugur meðal fólks að nýta hana til góðs.“ Má segja að byltingar í heil- brigðissögu Íslendinga komi frá grasrótinni, þar sé bent á þörfina og henni svarað uns heilbrigðis- kerfið hefur burði til að taka við? „Já, en þarna er einmitt faglegt frumkvæði sem er tekið af mennt- uðu fólki jafnvel þótt það sé innan áhugasamtaka. Þar má benda á fjölmargt sem hefur litið dagsins ljós, fyrst hjá Krabbameinsfélag- inu, hvort sem það er leitarstarf, frumurannsóknir eða krabba- meinsskráin sem er auðvitað ótrúlegt afrek. Svo má minnast á forvarnarstarf gegn reykingum sem var einstaklega árangursríkt og hlutfall Íslendinga sem reykti hríðféll. Skólabörn höfðu séð alls konar myndir og upplýsingar um skaðsemi reykinga og fóru að beita foreldra sína, afa og ömmur þrýst- ingi um að hætta. Með þátttöku stjórnvalda síðar meir tókst okkur næstum að útrýma reykingum sem okkar helstu heilsuvá.“ Traustið mun endurvinnast „Ég minnist þess að þegar ég var erlendis á fundum, bæði vegna norræna samstarfsins sem og evrópska samstarfsins sem við vorum aðilar að, þá vakti árangur okkar í skipulögðu leitarstarfi mikla aðdáun. Þátttaka var ávallt með besta móti og kollegum okkar erlendis þótti sérstaklega merki- legt hvernig okkur tókst að ná til heillar þjóðar. Því eru það auðvitað vonbrigði að hafa horft upp á þetta klúður sem hefur fylgt skimunar- starfi á þessu ári eftir að starf- semin var flutt til Heilsugæslunnar og Landspítala,“ segir Guðrún. Eins og flestir vita var skim- unarstarf fyrir bæði brjósta- og leghálskrabbameinum flutt frá Krabbameinsfélaginu um síðustu áramót og við tóku aðilar heil- brigðiskerfisins. Fyrirkomulagið hefur hlotið talsverða gagnrýni og þá sérstaklega að leghálssýni voru flutt úr landi á danska rann- sóknarstofu. Þeirri ákvörðun hefur nú verið snúið við. Hvernig er hægt að fá konur til að öðlast traust á kerfið eftir allt sem á undan er gengið? „Þátttakan var auðvitað alltaf með besta móti en á síðasta áratug veit ég að eitthvað var farið að fækka. Ástæður fyrir því geta verið margar. Kostnaður er sjálfsagt ástæða, sérstaklega fyrir ungar konur sem hafa ef til vill ekki mikið milli handanna. Að sama skapi hugsum við oft að við séum ósigrandi og ódauðleg þegar við erum á þrítugs- og fertugsaldri og því ekki fyrsta hugsun að fara í skimun. Þátttakan skiptir höfuð- máli til að skimun sem forvörn virki sem skyldi. Skiljanlega hefur traustið á þjónustuna minnkað en ég er þess fullviss að traustið mun endurvinnast fljótt þegar konur sjá að metnaður er fyrir starfinu og greitt verður úr þeim flækjum sem mynduðust í upphafi árs.“ Það eru fyrst og fremst konur sem nota heilbrigðiskerfið Í kjölfar alls sem á undan er gengið heyrast raddir sem telja að það halli á konur í heilbrigðiskerfinu. Svo kæruleysislega yrði til dæmis ekki farið með heilbrigðismál sem sneri einungis að körlum. Einnig mætti benda á að það hallar augljóslega á konur þegar kemur að starfsfólki heilbrigðisstétta, í öllu falli þegar kemur að launamálum. „Ég get sagt frá því að þegar ég var í sérnámi í Lundúnum stofnuðum við Félag íslenskra lækna í Bretlandi árið 1972. Við fengum heimsókn frá Magnúsi Kjartanssyni, þáverandi heilbrigðisráðherra, og héldum fyrir hann nokkrar kynningar. Ég hafði ekki hugsað sérstaklega um það þá, en í mínu ávarpi prófaði ég að kyngreina starfsfólk heilbrigðis- kerfisins á Íslandi. Í ljós kom að um 80% þeirra sem þar störfuðu voru konur. Mig grunar að hlutfallið sé svipað í dag, þótt konur séu nú mun fleiri í læknastétt en var þá. Þessir ungu menn á þeim tíma höfðu aldrei hugsað út í þetta, „já, þú segir það já,“ var viðkvæðið. En þetta þurfum við að hafa á hreinu. Konur eru í miklum meirihluta starfs- fólks innan heilbrigðiskerfisins og beinlínis bera uppi allt kerfið. Ég er alveg handviss um að launahluti kvenna sé ekki alveg í samræmi við það. Konur eiga skilið að fá mun meiri virðingu fyrir sín störf í heil- brigðiskerfinu.“ Guðrún hugsar sig um og bætir við að konur haldi ekki aðeins uppi kerfinu með sínum störfum, þær séu líka öflugri sem notendur. „Flestar kannanir sýna að konur eru almennt miklu duglegri við að vitja heilbrigðiskerfisins heldur en karlar. Og þetta á til að gleymast. Ekki endilega fyrir sína hönd. Konur vitja einnig heilbrigðis- kerfisins fyrir hönd barna sinna, fyrir hönd eiginmanna eða foreldra og láta sig heilsu flestra varða í sínu nærumhverfi. Konur eru því stærri „kúnnahópur“ ef svo má að orði komast. Því er enn mikilvægara að greiða úr skimunarmálum og endurbyggja traust, því það er undirstaða heilbrigðiskerfis sem virkar.“ Ráðgjafarþjónustan var bylting Nú er kannski ástæða til að spyrja Guðrúnu um hvað henni þótti mikil- vægasta framlag sitt á starfstíma sínum hjá Krabbameinsfélaginu, sem var langur og farsæll. Getur hún gert upp á milli barna sinna? „Við héldum stóra landssöfnun árið 2001 sem gekk líka svo vel að loks fengum við nægilega fjármuni til að hefja skipulagða ráðgjafar- þjónustu hjá félaginu. Það hafði verið boðið upp á takmarkaða þjónustu, til dæmis hjá aðildar- félögunum, en ekki í líkingu það sem okkur tókst að setja á lagg- irnar. Þetta er einn af hornsteinum félagsins í dag og ég er afskaplega stolt yfir því að hafa tekið þátt í því að koma því á laggirnar. Þjónustan er ókeypis og ég er þess fullviss um að hún skipti fólk raunverulegu máli, bæði krabbameinsgreinda og aðstandendur þeirra.“ Og framtíðin? Hvert verður hlutverk Krabbameinsfélagsins á næstu 70 árum? „Næg eru verkefnin! Félagið hefur barist fyrir skimun fyrir ristilkrabbameini, sem er aug- ljóst mál að gera. Það er einmitt verkefni sem Krabbameinsfé- lagið knýr áfram og lætur verða að veruleika. Forvarnir verða mikilvægar og fræðsla um heil- brigðari lífshætti sem eru fyrir- byggjandi gegn krabbameinum. Eitt allra mikilvægasta er svo að búa til betri aðstæður fyrir krabba- meinssjúklinga á Landspítalanum með byggingu nýrrar dagdeildar. Krabbameinsskráin er og verður ótrúlega mikilvægt tæki í krabba- meinsrannsóknum um ókomna tíð og hlutverk félagsins í að efla rannsóknir á Íslandi verður áfram stórt og hefur rými til að stækka enn meira. Krabbameinsfélagið hefur ríkt erindi í framtíðinni og ég hef fulla trú á félaginu, nú sem aldrei fyrr.“ ■ Krabbameinsfélagið á ríkt erindi næstu 70 árin  Guðrún segist einna stoltust af landssöfnuninni árið 2001 þar sem safnað var fjármunum til að hefja skipulagða ráðgjafarþjónustu hjá félaginu. FRÉTTABLAÐIÐ/ANTON Guðrún að kynna átakið Karlar og krabbamein 2009. FRÉTTABLAÐIÐ/GVA Næg eru verkefnin! Eitt allra mikil- vægasta verkefnið nú er að búa til betri aðstæður fyrir krabbameinssjúkl- inga á Landspítalanum. Guðrún Agnarsdóttir. 3MIÐVIKUDAGUR 25. ágúst 2021 KR ABBAMEINSFÉLAGIÐ 70 ÁR A

x

Fréttablaðið

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Fréttablaðið
https://timarit.is/publication/108

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.