Fréttablaðið - 15.09.2021, Blaðsíða 9
Frjálsir fjölmiðlar -
ljósgjafar lýðræðisins
Blaðamannafélag Íslands skorar á stjórnmálaflokkana að
gera það að stefnumáli sínu að tryggja að á Íslandi fái
þrifist frjálsir, sjálfstæðir og óháðir fjölmiðlar.
Fjölmiðlar eru grundvöllur lýðræðislegrar umræðu og
lýðræðislegra samfélaga, um það er ekki deilt. Það er
einnig óumdeilt að rekstrarumhverfi fjölmiðla hefur
versnað mikið á undanförnum árum. Ástæðan
er fyrst og fremst stórfelldar breytingar á fjölmiðlamarkaði
með tilkomu erlendra efnisveitna, samfélagsmiðla og
tæknirisa á borð við Facebook og Google sem soga til
sín æ stærri hluta af auglýsingafé. Þá hefur sú þróun orðið
að færri eru tilbúnir til að greiða fyrir fréttir eða fréttatengt
efni vegna þess mikla framboðs sem er af fríu fréttaefni á
netinu.
Staða fjölmiðla er ekki einkamál fjölmiðlanna sjálfra heldur
varðar hún samfélagið allt. Sterkir, öflugir fjölmiðlar eru
forsendur þess að hægt sé að veita stjórnvöldum og
stórfyrirtækjum nauðsynlegt aðhald. Það ætti að vera
markmið hvers lýðræðissamfélags, hverrar ríkisstjórnar, hvers
löggjafarþings, að gera það sem í þeirra valdi stendur til að
tryggja öfluga, frjálsa og sjálfstæða fjölmiðlastarfsemi í
landinu. Því skorar Blaðamannafélag Íslands á þá flokka sem
bjóða fram í komandi Alþingiskosningum að taka upp tillögur
að nauðsynlegum breytingum sem félagið telur stuðla að því
að forsendur fyrir rekstri fjölmiðla gjörbreytist.
Að auki skorar Blaðamannafélagið á stjórnmálaflokka að hafa
í huga samfélagslega ábyrgð sína og mikilvægi fjölmiðla fyrir
lýðræðislega umræðu í samfélaginu þegar ákvörðun er tekin
um birtingu auglýsinga. BÍ hvetur stjórnmálaflokka til að setja
sér stefnu, sem birt er opinberlega, um hlutfall
auglýsingafjármagns sem veitt er til erlendra miðla, og
jafnframt að birta að kosningum loknum sundurliðun á því
hve miklu fjármagni var varið til erlendra miðla annars vegar
og íslenskra hins vegar.
Áskorun til stjórnmálaflokka í aðdraganda kosninga
Tillögur BÍ til eflingar rekstrarumhverfis
íslenskra fjölmiðla:
1. Stuðningur til einkarekinna miðla
Blaðamannafélagið fagar því að Ísland hafi fylgt fordæmi
hinna Norðurlandaþjóðanna, sem hafa með góðum
árangri um langt skeið styrkt einkarekna fjölmiðla með
ýmsum hætti, en áréttar að nauðsynlegt er að auka það
fé sem veitt er til fjölmiðla, endurskoða úthlutunarreglur,
meðal annars svo þeir nái til fleiri miðla, og gera úrræðið
varanlegt.
2. RÚV fari af auglýsingamarkaði
BÍ telur nauðsynlegt skref í átt til hagfelldara
rekstrarumhverfis fyrir einkarekna fjölmiðla, að taka RÚV af
auglýsingamarkaði. Þó aðeins að rekstur stofnunarinnar
verði tryggður með auknum fjárveitingum úr ríkissjóði sem
vega muni upp á móti tekjutapi þegar auglýsingasölu
verður hætt.
3. Skattlagning erlendra tæknirisa
Sívaxandi hlutdeild erlendra tæknirisa í auglýsingamarkaði
á Íslandi er verulegt áhyggjuefni í ljósi þeirrar skökku
samkeppnisstöðu sem íslenskir fjölmiðlar eru í gagnvart
þeim. Nauðsynlegt er að bregðast við án tafar og
skattleggja þessi erlendu fyrirtæki.
4. Stofnun fjölmiðlasjóðs
Lagt er til að stofnaður verði fjölmiðlasjóður sem hafi meðal
annars það hlutverk að efla rannsóknarblaðamennsku og
nýsköpun í fjölmiðlun.
5. Kaup hins opinbera á auglýsingum
Það ber vott um skilningsleysi á mikilvægi íslenskra
fjölmiðla fyrir lýðræðislega umræðu að stjórnmálaflokkar
og opinberar stofnanir og ríkisfyrirtæki skuli verja æ hærra
hlutfalli auglýsingafjármagns í birtingar auglýsinga á
erlendum miðlum. Blaðamannafélag Íslands skorar á
stjórnmálaflokkana og stjórnvöld að setja sér stefnu, sem
birt er opinberlega, um hlutfall auglýsingafjármagns sem
veitt er til erlendra miðla, og jafnframt að birta árlega
sundurliðun á því hve miklu fjármagni var varið til
erlendra miðla annars vegar og íslenskra hins vegar.
6. Hagfelldara skattaumhverfi
Lækka eða afnema mætti virðisaukaskatt áskrifta hjá öllum
tegundum fjölmiðla. Þá gefur hin alvarlega staða í
rekstrarumhverfi fjölmiðla tilefni til þess að fjölmiðlum sé
veitt undanþága frá greiðslu tryggingagjalds.
7. Mismunun í birtingu áfengisauglýsinga leiðrétt
BÍ bendir á það misræmi sem ríkir milli erlendra og
íslenskra miðla hvað varðar tekjumöguleika af birtingu
áfengisauglýsinga. Íslenskir fjölmiðlar ættu að hafa sömu
tækifæri til fjármögnunar á grundvelli birtingar
áfengisauglýsinga og erlendir miðlar sem eru á sama
markaði.
8. Stuðningur við textun og talsetningu
Mikill kostnaður hlýst af textun og talsetningu ljósvakaefnis.
Lagt hefur verið til að stjórnvöld styðji textun og talsetningu
sem væri annað hvort í formi endurgreiðslu tiltekins hlutfalls
af kostnaði fjölmiðla eða sem styrkir. Nánari upplýsingar á press.is