Morgunblaðið - 15.05.2021, Blaðsíða 42
42 MENNING
MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 15. MAÍ 2021
VIÐTAL
Silja Björk Huldudóttir
silja@mbl.is
„Ég fékk hugmyndina að þessu
verki fyrir mörgum árum og sá upp-
haflega fyrir mér að ég myndi skrifa
bók um efnið. Fyrir nokkrum árum
sagði ég Júlíönnu frá hugmyndinni
og þá hafði hún strax orð á því að
þetta yrði flott sviðsverk,“ segir
Inga Maren Rúnarsdóttir danshöf-
undur og vísar þar til Júlíönnu Láru
Steingrímsdóttur sem hannar sviðs-
mynd og búninga að verki Ingu
Marenar sem nefnist Dagdraumar
og Íslenski dansflokkurinn frum-
sýnir á Nýja sviði
Borgarleikhúss-
ins í dag, laugar-
dag, kl. 13 og 15.
Dagdraumar
er annað verkið
sem þær Inga
Maren og Júlí-
anna Lára vinna
saman, en sam-
starf þeirra hófst
2007 þegar þær
stofnuðu Menn-
ingarfélagið ásamt Ásgeiri Helga
Magnússyni og Lydíu Grétars-
dóttur. Menningarfélagið framleiddi
fimm sviðsverk og þrjár dansstutt-
myndir í samstarfi við Þóru Hilm-
arsdóttur. Í fyrra frumsýndu Inga
Maren og Júlíanna Lára hjá Ís-
lenska dansflokknum dansverkið
Ævi og eru um þessar mundir að
vinna að dansverkinu Þoka sem
verður frumsýnt hjá Íslenska dans-
flokknum á næsta starfsári.
Best að vera maður sjálfur
Dansverkið Dagdraumar, sem
ætlað er börnum frá tveggja ára
aldri, fjallar, að sögn Ingu Marenar,
um unga stúlku sem fer í ferðalag
um skóg þar sem hún hittir nokkur
dýr, m.a. svan og slöngu. „Henni
finnst dýrin svo flott og hrífst af sér-
stökum eiginleikum þeirra. Hana
dreymir um að búa yfir þeim
kynngikrafti sem hún upplifir í fari
dýranna og fyrir töfra rætast
draumar hennar og hún umbreytist.
Hún sá hins vegar ekki fyrir hvað
það myndi kosta hana að njóta
eiginleika dýranna. Þegar hún snýr
aftur heim tekur mamma hennar á
móti henni, en verður hikandi þar
sem hún á erfitt með að þekkja dótt-
ur sína aftur. Þá áttar stúlkan sig á
því hversu dýrmætt það er að vera
eins og maður er. Hún sleppir snar-
lega takinu af nýju eiginleikunum
sínum og velur að vera hún sjálf.“
Fjaðrir öðlast nýtt líf á sviðinu
Inga Maren segir sýninguna
minna áhorfendur á að það sé óþarfi
að horfa öfundaraugum á aðra.
„Enginn á að þurfa að breyta sjálf-
um sér til að þóknast einhverjum
öðrum. Þú þarft ekki að hlaupa út í
búð til að kaupa nýjan jakka til að
vera frábær,“ segir Inga Maren og
bendir á að til að vera trú þessum
boðskap hafi listrænt teymi sýning-
arinnar valið að hafa „vintage“ eða
gamaldags blæ yfir sjónrænni
útfærslunni.
„Við nýttum því tækifærið til að
fara í gegnum búningageymslu
Íslenska dansflokksins og endur-
nýta heilan haug af efnum. Sem
dæmi hafa allar fjaðrirnar sem not-
aðar eru í sýningunni legið óhreyfð-
ar í gleymslum mörg síðustu árin en
eru nú að öðlast nýtt líf á sviðinu.
Við reyndum að endurnýta allt sem
við gátum til að heiðra gildi sýning-
arinnar. Sama á við um tónlistina.
Þar nýti ég töfrandi tónlist sem þeg-
ar var til sem styður við söguheim-
inn,“ segir Inga Maren.
Hvetur alla til að dansa meira
Spurð hvenær barnabókin, sem
upphaflega var kveikjan að sýning-
unni, sé væntanleg hlær Inga Mar-
en og tekur fram að Auður Þórhalls-
dóttir teiknari og myndhöfundur
spyrji hana reglulega að því sama.
„Auður er oft að hnippa í mig og
hvetja mig til að gera bókina, sem
hún er tilbúin að teikna myndirnar í.
Ég er mjög spennt fyrir því og vona
að ég finni tíma til að gera það,“
segir Inga Maren og tekur fram að
hún sé með hugmynd að þremur
öðrum barnabókum í kollinum.
„Auður teiknar alla sviðsmyndina
fyrir Dagdrauma og sýningar-
skrána, sem er mjög vegleg,“ segir
Inga Maren og tekur fram að sýn-
ingarskráin nýtist einnig áhorfend-
um sem hvatning til að dansa þegar
heim er komið.
„Mig langar að hvetja börn til að
dansa meira og hjálpa þeim að vera
ófeimin við dansinn. Í lok sýningar-
innar er ætlunin að kenna áhorf-
endum eina hreyfingu fyrir hvert
dýr. Það fer eftir þeim samkomu-
takmörkunum sem gilda hvort
áhorfendur verða að dansa í sætum
sínum eða hvort við getum boðið
þeim að koma upp á svið og dansa.
Sýningarskráin er síðan útfærð
þannig að hún hvetur til hreyfingar
foreldra með börnum sínum.“
Lærdómsríkt ferli höfundar
Þrír dansarar dansa í sýningunni.
Charmene Pang dansar hlutverk
stúlkunnar, Halla Þórðardóttir túlk-
ar móðurina og svaninn og Ásgeir
Helgi Magnússon fer með hlutverk
slöngunnar, hérans og köngulóar-
innar. „Ég sá alltaf fyrir mér að
Þyri Huld Árnadóttir myndi dansa
hlutverk stúlkunnar, en hún hefur
tekið virkan þátt frá upphafi í því að
semja hreyfiefni fyrir stelpuna. Þeg-
ar hún varð ólétt tók Charmene við
hlutverkinu og stendur sig frábær-
lega vel. Hún hefur starfað með
Íslenska dansflokknum síðustu tvö
árin og er yngsti dansarinn. Hún er
ótrúlega flott í þessu hlutverki og ég
er því mjög ánægð með hana,“ segir
Inga Maren og tekur fram að Þyri
eigi stóran þátt í sýningunni. „Hún
er mjög fjölhæf. Hún er sem dæmi
mjög góð saumakona og hefur
aðstoðað Júlíönnu heilmikið við
saumaskapinn.“
Að sögn Ingu Marenar tók Halla,
sem dansar móðurina og svaninn,
þátt í að semja hreyfiefnið fyrir öll
dýrin í sýningunni. „Það hefur líka
verið lærdómsríkt fyrir mig að sjá
með hversu ólíkum hætti Halla og
Ásgeir túlka sömu dýrin með sömu
hreyfingum,“ segir Inga Maren og
tekur fram að sér finnist sem dans-
höfundi alltaf mikilvægt að gefa
dönsurunum ákveðið rými. „Ég hef í
þessu verki haft mjög skýrar hug-
myndir um hvað ég vildi, en það er
mjög mismunandi eftir sýningum.
Það er svolítið eins og ég hafi komið
með litabókina og alla meginlitina
vegna þess hversu skýr hugmyndin
var frá upphafi. Reyndir dansarar
setja samt eðlilega mark sitt á hlut-
verkin og verða að fá að aðlaga efnið
sínum karakter, þannig að persónu-
leikinn fái að skína í gegn.“
Leikferð til Noregs og út á land
Upphaflega stóð, að sögn Ingu
Marenar, til að frumsýna Dag-
drauma í vor sem leið í leikhúsinu í
Bærum rétt fyrir utan Ósló í Nor-
egi. „En það frestaðist út af kófinu.
Í staðinn er ætlunin að fara með
verkið út til Noregs og sýna í Bær-
um í febrúar á næsta ári,“ segir
Inga Maren og tekur fram að af
þeim sökum sé öll umgjörð og lýsing
Pálma Jónssonar hönnuð þannig að
sýningin sé ferðavæn. „Í þessu felst
vissulega ákveðin áskorun, en á
móti er skemmtilegt að hægt er að
leyfa fleirum að sjá sýninguna,“ seg-
ir Inga Maren og bendir á að ætl-
unin sé einnig að fara með uppfærsl-
una í sýningarferð út á land hér-
lendis með haustinu og leyfa leik-
skólabörnum að njóta ævintýrisins
auk þess sem til skoðunar sé að
bjóða leikskólabörnum á sýninguna
í Borgarleikhúsinu.
„Júlíanna er algjör snillingur í því
að hugsa í lausnum. Okkur langaði
að hafa stóra sviðsmynd, en þurft-
um samtímis að finna leið til að hafa
hana ferðavæna. Reynslan hefur
kennt mér að ef ekki er hugsað fyrir
því strax í upphafi sköpunarferlisins
getur reynst hægara sagt en gert að
ferðast með sýningu seinna meir.
Við settum okkur þennan ramma,
sem var þröngur rammi, en bauð
líka upp á skemmtilegar og skap-
andi lausnir. Sem dæmi byrjar sýn-
ingin á skuggaleik, sem Pálmi hann-
aði þannig að hann myndi njóta sín í
rýmum sem ekki eru hönnuð sem
leikhús. Markmið okkar var því að
geta skapað leikhústöfra óháð því
hvers eðlis sýningarrýmið er,“ segir
Inga Maren að lokum.
Ljósmyndir/Hörður Sveinsson
Ævintýraheimur Charmene Pang og Ásgeir Helgi Magnússon í hlutverkum sínum sem stúlkan og hérinn.
Umbreyting Charmene Pang dansar hlutverk stúlkunnar sem hrífst af
dýrum skógarins og óskar þess að búa yfir eiginleikum þeirra. Síðar meir
kemst hún að því hver fórnarkostnaðurinn er og þykir hann of hár.
„Enginn á að þurfa að breyta sér“
- Dagdraumar frumsýndir hjá Íslenska dansflokknum á Nýja sviði Borgarleikhússins - „Ég sá upp-
haflega fyrir mér að ég myndi skrifa bók um efnið,“ segir danshöfundurinn Inga Maren Rúnarsdóttir
Inga Maren
Rúnarsdóttir
fyrir heimilið
Sendum
um
land
allt
Tjarnargötu 2 | 230 Reykjanesbæ | Sími 421 3377 | bustod@bustod.is | www.bustod.is
Fallegar vörur
Stóll á snúningsfæti í ítölsku nautsleðri
75 cm á breidd
Verð frá 139.000 kr.
Loksins fáanlegir aftur,
í mörgum litum