Morgunblaðið - 15.07.2021, Page 57
MENNING 57
MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 15. JÚLÍ 2021
J
apanski kvikmyndahöfund-
urinn Hirokazu Kore-eda á
að baki farsælan feril sem
spannar þrjá áratugi. List-
rænar kvikmyndir hans fjalla
gjarnan um smáar fjölskylduein-
ingar, og ytri og innri þætti sem
móta þær, ásamt því að bera merki
sjálfsvísandi skáldskapar. Árið
2018 reis frægðarsól Kore-eda sem
aldrei fyrr á alþjóðlegum vett-
vangi, ef svo má segja, en þá hlaut
kvikmyndin Búðarþjófar aðalverð-
laun Cannes-hátíðarinnar, Gull-
pálmann, og rataði í framhaldinu
meðal annars á heimili kvikmynd-
anna á Hverfisgötu. Eftir þrettán
leiknar langmyndir á heimagrundu
(og fleiri heimildarmyndir og sjón-
varpsþáttaraðir) nýtti Kore-eda
sér aukna hylli til þess að reyna
fyrir sér utan landsteinanna,
áfangastaðinn París. Felulitirnir
fara honum vel og við fyrstu sýn
ætti Sannleikurinn að virðast fylli-
lega franskur.
Sannleikurinn segir frá stór-
leikkonunni Fabienne en hún er
leikin af einni helstu kvikmynda-
stjörnu Frakka, Catherine De-
neuve, og endurspeglar hlutverkið
hana sjálfa og stjörnuímynd henn-
ar. Hún er ekta evrópsk díva af
gamla skólanum – keðjureykjandi
með koníaksglas við höndina og
ekki spör á stóru orðin. Í kringum
hana hringsnýst flokkur karl-
manna (aðstoðarmenn, kærastar,
fyrrverandi) og gerir henni til
geðs. Dóttirin Lumir (Juliette
Binoche) starfar sem handritshöf-
undur vestanhafs en sækir móður
sína heim, ásamt eiginmanni og
dóttur, til að „fagna“ nýútkominni
sjálfsævisögu leikkonunnar. Ethan
Hawke leikur spúsa, sem er „sjón-
varpsleikari“ (og hæddur fyrir af
tengdamóðurinni) og alkóhólisti í
skrykkjótum bata. Telpan þeirra
Charlotte er í kringum tíu ára ald-
urinn, en hún trúir ömmu sinni
þegar hún segist geta breytt fólki í
dýr – og í gegnum samband þeirra
sést önnur hlið á söguhetjunni.
Á meðan á heimsókninni stendur
er Fabienne í tökum á vísinda-
skáldskaparmynd og er ítrekað
skyggnst bak við tjöldin. Mismun-
andi stig og hliðar tökustaðarins
eru sýnd: samlestur handrits,
einkasamtöl leikara, leiknar senur
frá sjónarhorni leikarans (mynda-
vélin er „persóna“ inn í mynd-inn
í-mynd) og á skjá leikstjórans þar
sem hann horfir á og dæmir
frammistöðuna. Myndin-innan-
myndarinnar snýst um móður sem
dvelur löngum í geimskipi, þar sem
hún eldist ekki eða örhægt, en á
sjö ára fresti snýr hún aftur til
jarðar til dóttur sinnar sem fljótt
tekur fram úr henni í „aldri“. Þess-
ari velgjulegu fléttu er mjög aug-
ljóslega ætlað að spegla samband
mæðgnanna Fabienne og Lumir en
er það gert á kíminn og skemmti-
legan máta. Ung aðalleikkona
geimmyndarinnar þykir minna á
Söruh, látna stórleikkonu og bestu
vinkonu Fabienne, sem dóttirin
tengdist sterkum böndum. Skáld-
skapurinn bendir á lífið og lífið til
baka.
Í grunninn er frásögnin sem sé
tvíþætt – annars vegar mæðgna-
og fjölskyldusaga og hins vegar
innsýn í listrænt ferli og líf lista-
manna – en þráðunum er vafið þétt
saman. Söguuppleggið um kven-
kyns kaldlyndan listasnilling og
vansæla dóttur sem lifir í skugg-
anum leiðir hugann óhjákvæmlega
til stofudramas Ingmars Bergman,
Haustsónötu (1978). Í þessu til-
brigði er þó töluvert léttara yfir
hljómsveitarstjóranum. Kore-eda
er að vinna í evrópsku kvikmynda-
samhengi – og markvisst að vinna
upp úr sögu þess. Það kristallast
skýrast í leikaravalinu en stjörn-
urnar þrjár eru listilega valdar og
frammistöður þeirra byggja á og
spila með áunna bíóarfleið þeirra.
Deneuve, krúnudjásn nýbylgjunn-
ar úr myndum Buñuel og Demy –
er með risastóra en áherslulausa
nærveru í hlutverki allt að því
narsissísku leikkonunnar, sem
leggur allt í sölurnar fyrir starfið.
Auðvitað dugar engin minni en
Juliette Binoche til túlka dóttur
slíkrar stjörnu – en hún er auðvit-
að ein helsta leikkona evrópska
listabíósins undanfarna áratugi.
Ethan Hawke er sömuleiðis lyk-
ilgaur úr leikarstéttinni vestra en
Hank minnir óneitanlega á hlut-
verk hans í myndum Richards
Linklater (þar sem hann er ýmist
elskhugi frönskumælandi stór-
leikkonu eða listhneigður faðir) –
e.k. frændi þeirra að minnsta kosti.
„Bíóára“ leikarasögu með slíkum
leikurum er því hnausþykk, og því
er mikill styrkleiki hvað samleikur
(og leikurinn almennt – litla stúlk-
an er t.a.m. frábær!) mæðgnanna
er natúralískur. Þær ná í senn að
vera jarðtengdar persónur og
gangandi textatengsl, eitthvað sem
er ekki á færi flestra og ber hæfi-
leikum þeirra og leikstjórans skýrt
vitni.
Myndin spyr klassískra spurn-
inga um eðli sannleikans, saman-
ber titilinn. Hvar endar lífið og
hvar byrjar skáldskapurinn? Hlut-
verk foreldra og barna eru eftir
allt saman hlutverk, nokkuð meitl-
uð í stein, sem gengið er inn í.
Hank er frábær pabbi en er á
„tökustað“ í huga dótturinnar þeg-
ar hann þarf að fara í meðferð.
Lumir skammar móður sína fyrir
lygavef æviminninganna en hún
svarar „ég er leikkona, ég segi
aldrei beran sannleikann“.
Pælingunum fylgir þó jákvæður
tónn (ólíkt miskunnarlausum
þunga sónötu Bergmans, eða
skyldrar listamannsögu, Frumsýn-
ingarkvöld (1977) eftir John Cas-
savetes) sem er undirstrikaður
með glaðværri tónlist við og við.
Þó vantar einhverja dýpt í há-
fleyga og áferðarfagra heildar-
myndina. Baksagan um mæðg-
urnar og vinkonuna Söruh, sem
stóð á milli þeirra áður en hún
hvarf frá, verður eiginlega aldrei
meira en hugmynd á blaði – áfallið
er ekki nógu áþreifanlegt innan
söguheimsins. Á endanum unna
mæðgurnar hvor annarri og kom-
ast að því án nokkurra stórræða.
Myndin líður hjá ef til vill einum of
áreynslulaust. Styrkleikinn liggur í
leiknum með skáldskapinn fremur
en í fjölskyldudramanu – sem tak-
markar skírskotun verksins – en
stórgóð frammistaða leikaraliðsins
gleður nægilega til að gera Sann-
leikann vel þess virði.
Haustsónata í C-dúr
Mæðgur Catherine Deneuve og Juliette Binoche í hlutverkum mæðgnanna Fabienne og Lumir í Sannleikanum.
Bíó Paradís
Sannleikurinn/La verité
bbbmn
Leikstjórn, handrit og klipping: Hiro-
kazu Kore-eda. Kvikmyndataka: Eric
Gautier. Aðalleikarar: Catherine De-
neuve, Juliette Binoche, Ethan Hawke,
Clémentine Grenier.
Frakkland/Japan, 2019. 106 mín.
GUNNAR
RAGNARSSON
KVIKMYNDIR