Strandapósturinn - 01.06.1977, Blaðsíða 28
annað í tilverunni, en mörgum íslenzkum vísnasmið verður hált
á sama svellinu og Þorgeiri Hávarssyni, að mega eigi við bindast,
er einhver stendur vel til höggsins, þó að sakir séu engar, og gera
þá í hita augnabliksins meira að, en góðu hófi gegnir. I þessum
dúr var mælt um sumar lausavísur Magnúsar á Hrófbergi. Það
hygg ég þó fullvíst, af frásögn mér eldri manna og eigin kynnum
á hans efstu árum, þó að lítil væru, að hann hafði byrði nóga
glettni og léttrar gamansemi, þar sem aðrir áttu ekki krepping
fullan. Jafnan orkar tvímælis þá gert er, segir þar, og kímni er
auðvelt að misskilja og færa á verra veg eins og flest annað. Að
lokum vil ég nefna hér sem dæmi eina vísu Magnúsar, sem allir
voru nú ekki sáttir við. Tildrögin munu hafa verið þau, er nú skal
greina.
Einhvern tíma á fyrri eða fyrstu búskaparárum hans á Hróf-
bergi, var þar kaupakona, er sótti eftir ástum sér yngri efnis-
manns, en sá vildi ekki þýðast stúlkuna. Sumar eitt lágu þau
bæði ásamt fleira fólki úti við heyskap, var bækistöðin í tjaldi
nokkuð langt frá bæ. Þá bar svo til einhverju sinni, að þraut
blöndu til drykkjar, og var stúlkan send heim eftir sýru. Af því
tilefni orti Magnús:
Tjalds úr kreppu arkar út,
aldrei heppin verður.
Burt með skreppur blöndukút,
brekánsleppagerður.
Hér voru sumir mjög ósáttir við atvo. aldrei, og jöfnuðu því
við illspá, sem vissulega hefur verið víðs fjarri höfundi, heldur
hefur hann eigi gætt þess í augnablikinu, að orðið ,,ekki“ var
jafngilt frá sjónarmiði ríms og stuðla og hefur linari merkingu en
hitt. Þá þótti kvenkenningin „brekánsleppagerður“ niðrandi,
sem er fjarri sanni, því að bæði heitin, brekán og brekánsleppur
voru þá almennt notuð og í hvers manns munni, þó að hið síðara
væri frekar notað um það, sem fornt var og farið að slitna.
Annars þykir mér líklegast, að þessi kenning höfundar hafi
26