Strandapósturinn - 01.06.1977, Side 32
minnast þess á einhvern hátt í bundnu máli eða óbundnu, ég
held líka að annað væri afskiptaleysi eða óeðli.
Vorið á sess í sálum okkar og hann virðulegan. Það kemur
fram í bókmenntum okkar, svo og sögum og sögnum okkar eldri
manna. Hvað skal svo segja um reynslu okkar sjálfra, sem nú
erum á elliárum. Við höfum að sjálfsögðu mætt ýmsum erfið-
leikum í fylgd okkar blessaða vors, en við höfum líka lifað
margar unaðsstundir með því. Unaðsstundir, sem við á engan
hátt vildum missa út úr lífi okkar, því að í þeim var svo mikil sól,
hlýja og birta. Þannig er vorið, það er meira en gróandi árshátíð
náttúrunnar, það er líka gróandi í lífi okkar mannanna. Um það
segir Stefán frá Hvítadal meðal annars í kvæðinu „Vorsól“:
„Nú finn ég vorsins heiði í hjarta.
Horfin, dáin, nóttin svarta.
Ótal drauma blíða bjarta
barstu vorsól inn til mín,
það er engin þörf að kvarta,
þegar blessuð sólin skín.“
Hér er ort bæði af trú og hrifningu. En þá er þetta var, var
Stefán sjúkur maður. Hann bjó þá í lágreistum bæ, en um lítinn
skjá eða ljóra fékk hann þó að nokkru notið vorsólar og birtu í
rekkju sinni. Hann kunni því betur en annars að meta yl vor-
sólar, svo og vinbros þau og hlýju er hún færði. Sem fyrr segir,
gæti ég talið mörg fleiri skáld, sem ort hafa falleg kvæði um vorið
og áhrif þess, svo og vonir og þrár manna eftir vori og sól. Sýnir
það best, hvaða ítök vorið hefur átt í okkur og á raunar ennþá.
Nokkuð hefur þetta þó breyst hin seinni ár. Veldur þar um
einkum tvennt. Hið fyrra er, að árferði hefur breyst nokkuð til
hins betra, frá því sem áður var. Hið síðara er, og það mun eiga
hér um síst minni hlut, stórfelldar framfarir á flestum sviðum
þjóðlífs okkar, bæði í atvinnuháttum og aðbúð allri. Má þar til
nefna stórbættan húsakost bæði fyrir fólk og fénað. Þá má nefna
rafmagn til ljósa og suðu á heimilum. Enn má nefna hitaveitur
hjá stórum hópi landsmanna. Þá má nefna síðast en ekki síst
30