Strandapósturinn - 01.06.1977, Page 95
dreifði sér mjög, þar sem jörð var alauð. Er við vorum að ræða
um þetta, skipti það engum togum, hann bráðhvessti allt í einu,
komin var stórhríð.
Þegar við sáum, hvernig komið var, stakk ég upp á því að
binda hestinn við staur og báðir færu strax að reyna að ná fénu
saman áður en það hrekti. Jón vildi hinsvegar endilega koma
hestinum í hús, en ég skyldi fara strax, hann kæmi svo fljótlega á
eftir. Mér leizt ekkert á þessa hugmynd, sagðist ekkert vorkenna
hestinum að standa úti í hríðinni dálítinn tíma, honum væri ekki
vandara en fénu og ég teldi það í meiri hættu. Ég bætti því við,
að mín hugmynd væri sú, að ef við værum saman, gæti annar
okkar gætt þess, sem við fyndum á ákveðnum stað, meðan hinn
leitaði í grenndinni, því líklega væri féð í smá hópum, ekki langt
frá hverjum öðrum. Færum við hinsvegar í sitt hvoru lagi, væru
litlar líkur á, að við hittumst, en ef við fyndum eitthvað yrðum
við að fara með það heim, því að hæpið væri að finna það aftur ef
það væri yfirgefið. En Jón vildi endilega fara með hestinn, og
varð svo að vera sem hann vildi.
Ég lagði af stað út í hríðina og var ekki bjartsýnn um árangur.
í fylgd með mér var ungur hundur, sem ég átti og kallaði
Hvutta. Hafði ég mikla trú á honum, og hafði hann við ýmis
tækifæri sýnt óvenjulega skynsemi, en ekki hafði verulega reynt á
hann. Er ég kom á þær stöðvar, sem ég bjóst við fénu, var skyggni
mjög lítið og er ég hafði svipazt um í nokkurn tíma, hafði ég
rekizt á tvo fjárhópa, sem stutt var á milli, en meginhlutann
vantaði þó af fénu. Var nú komið að því vandamáli, er ég hafði
fyrr drepið á. Hvað átti ég að gera, fara með þetta fé heim í
trausti þess að Jón hefði eitthvað af fénu? Halda áfram að leita
og láta þessa fjárhópa eiga sig? Hæpið var þá, að ég fyndi þá
aftur, því féð var svo að segja á bersvæði og búast mátti við, að
það færi að hrekja, því alltaf harðnaði veðrið. Ég tók þá
ákvörðun að fara með féð heim, gekk það vel og naut ég góðrar
aðstoðar hundsins. Við fjárhúsin hitti ég Jón, hann var að enda
við að hýsa það sem hann hafði fundið, sem var álíka margt og ég
var með, en við talningu kom í ljós, að meira en helminginn
vantaði. Þetta var ekki álitlegt og farið var að dimma. Okkur
93