Morgunblaðið - 13.08.2021, Side 28

Morgunblaðið - 13.08.2021, Side 28
28 MENNING MORGUNBLAÐIÐ FÖSTUDAGUR 13. ÁGÚST 2021 Ragnheiður Birgisdóttir ragnheidurb@mbl.is „Þetta var einfaldlega þannig að ég var að taka til fyrir svona þremur árum síðan og fann fullt af dagbókum og bréfum sem ég gluggaði í. Þar komu í ljós heilu doðrantarnir af hugsunum mínum og hugleiðingum. Ferðalag mitt í gegnum lífið bara. Þá hugsaði ég að ég yrði að gera eitthvað við þetta, búa eitthvað til úr þessu,“ segir Bjarni Snæbjörnsson leikari um sjálfsævisögulega heimilda- söngleikinn Góðan daginn faggi sem verður frumsýndur í Þjóðleik- húskjallaranum í kvöld, föstudag- inn 13. ágúst. „Af því ég er nú leikari þá fannst mér rakið að búa til leikrit og af því ég er söngvari og elska söngleiki þá fannst mér rakið að búa til söngleik. Þetta er auðvitað mjög mikil einföldun og þetta tók náttúrulega langan tíma en svona byrjaði þetta.“ Útkoman er einleikurinn Góðan daginn faggi. Í fréttatilkynningu segir að þar leiti fertugur söng- leikjahommi skýringa á skyndi- legu taugaáfalli sem hann fékk upp úr þurru einn blíðviðrisdag. Eftir vandasaman leiðangur um innra líf sitt, fortíð og samtíma rekst hann á rætinn hommahatara á óvæntum stað. Sýningin, sem er samstarfsverkefni Þjóðleikhússins og leikhópsins Stertabendu, er berskjaldandi leiðangur um skömm og mennsku og einlægt samtal við drauminn um að til- heyra. Storka örlögunum Fljótlega eftir að hafa fundið dagbækurnar og bréfin fékk Bjarni gott fólk til liðs við sig. „Ég byrjaði á að tala við Grétu Kristínu Ómarsdóttur leikstjóra. Hún er meðhöfundur að þessu. Hún var strax til í þetta og fannst þetta spennandi. Við höfum verið að skrifa þetta í næstum því þrjú ár. Svo kom Axel Ingi Árnason tónskáld snemma inn í þetta líka og hann hefur verið í sköpunar- ferlinu með okkur frá upphafi.“ Þau mótuðu þannig texta og tónlist samhliða. „Við höfum verið að henda hugmyndum í pottinn, eitthvað dettur út og eitthvað sit- ur eftir og núna erum við bara komin með sýningu.“ Axel Ingi hefur samið söng- leikjatónlist sérstaklega fyrir verkið og verður titillag sýningar- innar gefið út á næstu dögum. Tónskáldið verður með Bjarna á sviðinu og mun hann leika á píanó. „Hann verður mér til halds og trausts,“ segir leikarinn. Stefnan var að frumsýna verkið í fyrravetur en vegna samkomu- takmarkana varð ekki úr því. „Við ætluðum svo að frumsýna á Pride í síðustu viku en það komu þarna hertar reglur svo við ákváðum að taka okkur aðeins meiri tíma og gera salinn öruggan. Það eru miklu færri sem komast að núna.“ Þau láta óhappadagsetninguna, föstudaginn þrettánda, ekki stoppa sig. „Við ætlum að storka örlögunum.“ Erfitt og ógeðslega fyndið Bjarni viðurkennir að það hafi verið erfitt að vinna með eitthvað sem er jafn persónulegt og manns eigin dagbækur. „En það hefur líka verið ógeðslega fyndið. Það hefur verið allur skalinn. Þar er ótrúlega áhugavert að kynnast sjálfum sér upp á nýtt, einhverj- um hluta af sér sem maður var búinn að gleyma.“ Efniviðurinn, dagbækurnar og bréfin sem sýningin er unnin upp úr, spannar langt tímabil enda hefur Bjarni haldið dagbækur síð- an í æsku. „Sumt er alveg yfir 25 ára gamalt. Ég les til dæmis upp eitt bréf frá því ég er þrettán ára. Ég átti svo mikið af pennavinum svo ég var alltaf að skrifa bréf og byrjaði svo fljótlega eftir það á dagbókum. Svo þetta er mjög mik- ið af efni,“ segir hann. „Meginþorrinn er samt frá því ég var að koma út úr skápnum um tvítugt. Stóra hugleiðingin sem þetta byggir allt á er frá því tíma- bili. Það er miðjan í þessu verki.“ Spurður hverju áhorfendur megi búast við af sýningunni segir leikarinn: „Miklum húmor, ber- skjöldun, sannleikanum, sársauka og uppgjöri. Og allt þar á milli. Bara fáránleika lífsins.“ Bjarni segir það afar mikilvægt að segja hinsegin sögur. „Það er ekki bara mikilvægt fyrir hinsegin fólk heldur fyrir allt samfélagið. Og ég vona bara innilega að fólk grípi gæsina og komi og sjái og upplifi með okkur.“ Morgunblaðið/Unnur Karen Leikari „Þar komu í ljós heilu doðrantarnir af hugsunum mínum og hugleiðingum. Ferðalag mitt í gegnum lífið bara. Þá hugsaði ég að ég yrði að gera eitthvað við þetta,“ segir Bjarni um tiltektina sem varð að einleik. Húmor, berskjöldun og uppgjör - Sjálfsævisögulegi heimildasöngleikurinn Góðan daginn faggi frumsýndur í kvöld - Unnið upp úr dagbókum og bréfum Bjarna Snæbjörnssonar leikara - Þykir mikilvægt að segja hinsegin sögur Kátir Bjarni og tónskáldið Axel Ingi á sviðinu í Þjóðleikhúskjallaranum. Syningin Úr fórum Alísar verður opnuð í dag, föstudag, kl. 16 í Deiglunni á Akureyri. Er það yfir- litssýning á verkum Alice Sigurds- son sem fæddist árið 1921 og dó árið 2011. Hún ólst upp við Lake Tahoe í Sierra Nevada-fjöllum í Kaliforníu, útskrifaðist frá Cali- fornia College of Arts and Crafts í Oakland 1944 með BA-próf í graf- ískri hönnun og með kennararétt- indi í myndlist. Hún vann eitt ár við auglýsingateiknun í San Franc- isco þar til hún giftist og fluttist til Íslands árið 1945. Auk húsmóður- starfa sinnti hún ýmiss konar graf- ískum verkefnum fyrir einstakl- inga, félög og fyrirtæki á Akureyri, einkum Prentverk Odds Björnssonar, að því er fram kemur í tilkynningu og segir þar að margir kannist við jólamerki kven- félagsins Framtíðarinnar sem hún hafi teiknað um árabil. Þá fékkst Alice líka við málaralist og þá einkum vatnsliti og tók þátt í mörgum sýningum. Alice hlotn- aðist heiðursviðurkenning Akur- eyrar fyrir framlag sitt til menn- ingarmála í bænum, segir í tilkynningu og að öll verkin á sýn- ingunni séu til sölu og andvirði þeirra renni óskipt til Hollvina- samtaka Sjúkrahússins á Akureyri. Náttúruunnandi Alice naut sín best á hestbaki í ósnortinni náttúru þar sem flestar mynda hennar urðu til, eins og segir í tilkynningu. Hér má sjá vatnslitamynd eftir hana. Yfirlitssýning á verkum Alice í Deiglunni

x

Morgunblaðið

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.