Hinsegin dagar í Reykjavík - 01.08.2014, Side 7

Hinsegin dagar í Reykjavík - 01.08.2014, Side 7
Hvað er intersex? Intersex er regnhlífarhugtak sem nær yfir alla þá einstaklinga sem fæðast utan hinnar hefðbundnu skiptingar í karl- og kvenkyn. Það er bæði notað um fólk sem er útlitslega öðruvísi en „venjulegar“ konur og karlar, aðallega með tilliti til kynfæra, sem og fólk sem er með öðruvísi kynlitningasamsetningu en talið er venjulegt án þess að það sjáist endilega á útliti þess. Þá er um að ræða karla sem ekki eru með XY-litninga og konur sem ekki eru með XX-litninga, heldur fólk með til dæmis XO-litninga, XXX, XXY, XYY og svo framvegis. Intersex-hugtakið er mjög vítt og nær yfir margs konar ólíkar greiningar. Intersex-ástand er greint á tvennan hátt. Stundum sést að útlit ytri kynfæra samsvarar ekki venjulegum kynfærum karla eða kvenna. Hins vegar, og það er mun algengara, kemur intersex-ástand í ljós með kynlitningagreiningu, til dæmis þegar fólk leitar til læknis vegna ófrjósemi. Fólk með óræð ytri kynfæri er því bara hluti af þeim margbreytilega hópi sem er intersex. Ég greindist þriggja vikna gömul, sem er frekar ungt. Ég fæddist kviðslitin og var send í aðgerð þar sem ástandið uppgötvaðist. Mömmu var sagt að þetta yrði klukkutíma löng aðgerð en hún dróst í fimm eða sex tíma. Eftir aðgerðina fékk hún að vita að allt hefði gengið vel og við vorum sendar heim. Seinna var farið með mig í endurskoðun upp á sjúkrahús af því að það var komin ígerð í skurðinn og þá fyrst var gefið í skyn að eitthvað væri að. Mamma talaði við lækni sem gaf henni mjög litlar upplýsingar aðrar en þær að ég væri líklega með alvarlegan litningagalla. Hún varð mjög hrædd, því hún hafði unnið með fólki með mjög alvarlegar skerðingar og vissi vel hvað litningagalli gat þýtt. Svo leið tíminn og engir læknar gátu gefið henni nein svör, heldur var henni sagt að það væri verið að bíða eftir sérfræðingi. Enginn á sjúkrahúsinu vildi ræða þetta og mamma segist hafa á tilfinningunni að sjúkrahúsið hafi verið hálflamað. Enginn vissi hvað átti að gera. Loks var henni sagt að sérfræðingur væri á leiðinni til landsins. Þá var það fyrsti hormóna- og efnaskiptasérfræðingurinn minn, Árni V. Þórsson barnalæknir, sem var að koma heim úr námi erlendis. Hann hitti mömmu og sagði henni frá greiningunni í fyrsta skipti. Greining Hver var greiningin? Ég er með CAIS, Complete Androgene Insensitivity Syndrome, sem er ónæmi fyrir andrógeni eða karlhormónum. Ég er sem sagt með XY-litninga en algjörlega ónæma andrógen-móttakara, sem þýðir að öll karlhormón hafa lítil áhrif á mig. Ég fæddist með kynkirtla sem hefðu breyst í eistu ef þeir hefðu fengið testósterón. Sú þróun stöðvaðist á fósturstigi af því að hormónagjöfina vantaði en þess í stað þróaðist kvenkyns fóstur. Ég fæddist án legs og eggjastokka en það sést ekki utan á mér að ég sé intersex. Það þarf að skoða mig mjög nákvæmlega til að sjá að ég sé öðruvísi en aðrar konur. Hvernig varð foreldrum þínum við? Mömmu var rosalega létt. Hún hafði séð fram á eiga fjölfatlað barn en komst að því að það væri ekkert að mér andlega og í raun ekki líkamlega heldur, þannig séð. Henni datt ekki einu sinni í hug að spyrja Árna neinna spurninga, hún var svo fegin. Nokkrum klukkutímum seinna kom þó sjokkið. Þá brast hún í grát og hringdi í hann og spurði að því sem hún þurfti að fá að vita. Á þessum tíma, árið 1982, var CAIS nánast óþekkt fyrirbæri og það var ekki fyrr en um fimmtán árum síðar að við komumst í samband við aðra með sömu greiningu. Læknirinn sagði okkur að ég væri ekki einstök en gat samt ekki bent okkur á nein samtök eða annað fólk sem deildi sömu reynslu. Kynkirtlataka og hormónagjöf Er til einhver meðferð við CAIS? Ég kviðslitnaði aftur, en það er algengt hjá einstaklingum með CAIS, og fór í aðra kviðslitaaðgerð um þriggja mánaða aldur. Þá voru kynkirtlarnir fjarlægðir um leið. Á þessum tíma þótti slíkt brottnám sjálfsögð aðgerð þar sem mikil krabbameinshætta var talin fylgja því ef kynkirtlarnir væru skildir eftir. Sú vitneskja var þó ekki byggð á rannsóknum á CAIS heldur var miðað við rannsóknir á drengjum þar sem eistun hafa ekki gengið niður í punginn og þær upplýsingar yfirfærðar á CAIS-einstaklinga. Hvað gerist þegar kynkirtlar eru fjarlægðir? Kynkirtlatakan hefur þau áhrif að öll hormónaframleiðsla í líkamanum stöðvast og ef kirtlarnir eru teknir fyrir kynþroskaaldur fer einstaklingurinn ekki á kynþroskaskeiðið nema hann fái hormón. Þess vegna var ég sett á hormónagjöf tólf ára gömul og verð á henni það sem eftir er. Mínu kynþroskaskeiði var þannig stýrt af læknum. Það gerði það að verkum að hormónaflæðið hjá mér var jafnt en ekki Fyrsta sumarið í heimsókn hjá ömmu og afa Systkinin Kitty og Arnar sæt saman sveiflukennt, líkt og gerist og gengur hjá unglingum. Mér fannst allir á mínum aldri verða snargeðveikir þegar við komumst á unglingsárin! Allt í einu breyttust þau úr venjulegu fólki í eitthvað sem ég skildi ekki. Mamma talar um að ég hafi verið gelgjulausasti unglingur í heimi. Hvaða áhrif hefur hormónagjöfin haft á þig? Það að fjarlægja kynkirtlana gerði mig háða vestrænni læknisþjónustu og aðgengi að læknum og apótekum. Ég er á hormónasprautum og það væri til dæmis erfitt fyrir mig að skipuleggja langa ferð til útlanda þar sem ég fæ bara þriggja mánaða skammt í einu. Ég er mjög bundin af hormónagjöfinni og þarf alltaf að hafa hana í huga. Ef ég er að leggja af stað í ferðalag þarf ég alltaf að hugsa: Er þetta á spraututíma? Kemst ég til hjúkrunarfræðings? Er einhver með mér sem getur sprautað mig? Hormónagjöfin hefur einnig haft mikil áhrif á heilsu mína. Áður en ég fór að fá sprautur fékk ég hormón í töfluformi, plástra eða gel en svo hætti ég að þola allt þetta. Töflurnar fóru illa í mig og plástrarnir og gelið brenndi á mér húðina. Það var ákveðið að prófa ígræðslu en þá tók við læknisfræðilegt helvíti. Fyrst var ég með ígræðslu sem átti að duga í sex mánuði. Hún hætti að virka eftir þrjá mánuði og þá tók við tímabil sem líkja má við tíðahvörf. Mér leið mjög illa á meðan því stóð. Læknarnir prófuðu að láta ígræðsluna vera í fimm mánuði og svo fjóra og þannig styttust tíðahvörfin en í fleiri ár gekk líf mitt engu að síður út á að eiga góðan hluta af hormónatímabilinu og svo mjög slæmt tímabil. Á nokkurra ára tímabili fór ég um þrjátíu sinnum í gegnum tíðahvörf og það hafði mjög neikvæð áhrif á heilsuna. Ég finn ennþá fyrir því í dag. Ég er með vefjagigt og ég er sannfærð um að þessi endurteknu tíðahvörf, eða fall í hormónabúskap, hafa haft áhrif á hana. Ónauðsynleg aðgerð Hvaða augum líturðu þá staðreynd að þú hafir verið send í þessa aðgerð þriggja mánaða gömul? Ég vildi að ég hefði ekki verið send í hana. Ég þekki intersex einstaklinga sem eru eldri en ég en hafa ekki farið í þessa aðgerð. Þær þurfa bara að fara í sónar kannski einu sinni á ári til að láta skima fyrir krabbameini. Það verður líka að taka inn í myndina að hormónagjöf eykur hættu á brjóstakrabbameini og ég þarf að fara mun oftar í brjóstaskoðun en aðrar konur. Nauðsyn þessara aðgerða hefur verið dregin í efa og í dag er yfirleitt reynt að fresta kynkirtlatöku þar til eftir kynþroska. Krabbameinshættan er talin lítil sem engin fyrr en eftir kynþroska og þá er hún talin vera um 9%. Til gamans má benda á að líkurnar á að konur fái brjóstakrabbamein eru almennt taldar vera um 12% en við sjáum hvergi lækna mæla með því að allar konur fari í brjóstnám til að sporna við þeirri hættu. Þetta er mjög stór ákvörðun og þess vegna er núna oftast mælt með því að bíða þar til einstaklingurinn getur tekið hana sjálfur. Bráðaaðgerðir á börnum Svona aðgerðir á ungum intersex börnum eru algengar, er það ekki? Þegar börn fæðast með óræð kynfæri hefur reglan verið sú á vestrænum sjúkrahúsum að senda þau í bráðaaðgerðir mjög ung þar sem kynfærin eru „lagfærð“. Þessar aðgerðir eru grimmilegar. Ég þekki einstaklinga sem geta ekki notið kynlífs af því að það er búið að eyðileggja kynfærasvæðið! Ef snípurinn þykir til dæmis of stór er hann klipptur í burtu. Það sem er verið að gera við intersex börn á Vesturlöndum jafnast á við umskurð kvenna en af því að þetta eru „normalíserandi“ aðgerðir eru þær ekki taldar grimmilegar eða skemmandi eins og umskurður í þróunarríkjum. Oft eru foreldrar látnir taka ákvarðanir varðandi aðgerðir á kynfærum barna sinna stuttu eftir greiningu á meðan þeir eru enn í geðshræringu og með mjög litlar upplýsingar í höndunum. Þeim er yfirleitt ekki komið í samband við stuðningssamtök fyrr en eftir á. Það er þrýst á þá um að taka ákvörðunina fljótt og þannig er þeim í raun beint í ákveðinn farveg – í skurðaðgerðarferlið. Við erum reyndar á ákveðnum tímamótum núna og vonandi er þetta að byrja að breytast. Það er verið að leggja meiri áherslu á sjálfræði eintaklinga þegar kemur að læknavísindunum og intersex- samtök berjast meðal annars gegn svona bráðaaðgerðum. Það er alls engin ástæða til að senda eins mánaðar gamalt barn í svona aðgerð frekar en þriggja mánaða. Það er enginn ávinningur fólginn í því að flýta sér að taka ákvörðun. Fermingarmynd með fjölskyldunni Á leið á Guy Fawkes skemmtun í Skotlandi 12 13

x

Hinsegin dagar í Reykjavík

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Hinsegin dagar í Reykjavík
https://timarit.is/publication/1512

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.