Hinsegin dagar í Reykjavík - 01.08.2014, Blaðsíða 8

Hinsegin dagar í Reykjavík - 01.08.2014, Blaðsíða 8
Er þetta gert á Íslandi líka? Ég veit ekki um neina tölfræði hvað þetta varðar. Í Bandaríkjunum, þar sem búa um 320 milljónir manna, hef ég heyrt að gerðar séu fimm bráðaaðgerðir á kynfærum á dag. Við erum bara 320.000, svo það er ekki líklegt að hér hafi verið framkvæmdar margar aðgerðir. Ég veit ekki um neinn. Mér finnst þó afar líklegt að ef einhver á Íslandi hafi fæðst með kynfæri sem falla undir intersex-skilgreiningu hafi þau verið lagfærð. Erfitt að vera öðruvísi Vissir þú alltaf að þú værir með CAIS? Nei. Ég frétti fyrst af því tólf ára gömul þegar ég átti að byrja á hormónagjöf. Læknarnir mæltu þá með því að foreldrar héldu greiningunni leyndri fyrir barninu eins lengi og mögulegt væri af því að barnið hefði ekki getu til að skilja hvað væri um að vera. Það ríkir ennþá oftast mikil þögn í kringum intersex. Oft vita bara barnið og foreldrarnir af greiningunni og ég veit meira að segja um tilfelli þar sem pabbinn vissi ekki einu sinni af henni! Einnig eru til nýleg dæmi um að þessu hafi verið haldið leyndu fyrir fólkinu sjálfu fram á fertugs- og fimmtugsaldur. Það er talið mikilvægt að börn eigi áhyggjulausa æsku. En málið er að æskan nær fram yfir kynþroskaskeiðið og ég held að hún geti verið áhyggjulausari ef þetta er rætt frá upphafi og ekki gert að vandamáli. Hvernig brást þú við þessum fréttum? Illa. Þetta var í fyrsta og eina skiptið sem ég missti traustið á móður minni. Mér fannst hún hafa brugðist mér með því að fela svona mikilvægt atriði fyrir mér. Það hafði mjög neikvæð áhrif á sjálfsmynd mína að uppgötva að ég væri öðruvísi. Á þessum tíma, árið 1994, voru fordómar gagnvart samkynhneigðum til dæmis mun meiri en í dag. Ég komst þó yfir þetta og núna er ég ekki viss um það hefði verið betra að segja mér frá því að ég væri intersex fyrr en gert var. Það hvíldi svo mikil leynd yfir þessu á þeim tíma. Í dag, aftur á móti, er til stuðningsnet fyrir þá sem þurfa á því að halda, allar upplýsingar eru til á internetinu og miklar viðhorfsbreytingar hafa orðið í samfélaginu og því tel ég ekki rétt að halda þessu leyndu fyrir börnum. Lítil frænka með CAIS Svo eignaðistu litla frænku ... Já, þegar ég var fjórtán ára gömul eignaðist ég frænku sem var með nákvæmlega sömu greiningu og ég. Mamma kemur úr sex systra hópi og þó að henni væri ráðlagt að halda minni greiningu leyndri fyrir öllum nema pabba hunsaði hún það og leitaði frá upphafi mikið til systra sinna. Þegar ein þeirra eignaðist stelpu, þótt það væri búið að koma í ljós í legvatnsástungu að hún gengi með strák, vissu þær því strax hvað væri um að vera. Þær sögðu meira að segja læknunum á heilsugæslustöðinni frá því en þeim var ekki trúað. Frænka mín hefur alltaf vitað að hún væri með CAIS og það hefur aldrei verið neitt leyndarmál, hvorki innan fjölskyldunnar né í hennar vinahópi. CAIS er víkjandi arfgengt ástand. Þegar frænka mín fæddist fór af stað ein stærsta rannsókn sem gerð hefur verið á arfgengi CAIS. Allir kvenkyns afkomendur langalangömmu minnar voru prófaðir og í ljós kom að stökkbreyting hafði orðið í öðrum X-litningnum hjá ömmu og hún er því arfberi fyrir CAIS. Af sex dætrum hennar erfðist stökkbreytta genið til tveggja og mamma og ein systir hennar eru því arfberar. Hvað breyttist á þessum fjórtán árum hvað varðar þögnina? Mest lítið. Frænka mín var hjá sama lækni og ég og ráðleggingarnar sem þau fengu voru á þann veg að það væri óvarlegt að tala opinskátt um greininguna utan fjölskyldunnar. Það var aftur á móti ákvörðun fjölskyldunnar að hætta feluleiknum og koma hreint fram. Hvernig fannst þér að eignast frænku með sömu greiningu og þú? Þá urðu viss þáttaskil í mínu lífi. Síðustu tvö árin á undan var ég búin að fara í gegnum sorgarferli og mjög erfiðan tilfinningarússíbana. Ég leit á greininguna sem neikvæðan hlut; eitthvað sem ég ætti að skammast mín fyrir og ekki segja öðrum. Þetta var stærsta leyndarmálið í lífi mínu. Svo fæddist frænka mín. Ég sat með þetta litla barn í fanginu og gat ekki yfirfært á hana þær neikvæðu tilfinningar sem ég bar í garð sjálfrar mín. Þarna fyrst byrjaði ég að geta sætt mig við mína greiningu. Ég fór að geta horft á sjálfa mig með öðrum augum – með hennar augum. Ég vildi ekki að mín neikvæðni smitaðist yfir til hennar. Hún er eitt það besta sem hefur komið fyrir mig. Kitty ásamt stjúpsyni og frænkum í skógarferð Ánægð með læknisþjónustuna Hvernig hefur íslenska heilbrigðiskerfið reynst þér? Við fengum bestu ráðgjöf og aðstoð sem völ var á á þeim tíma. Þó að ég sé ósátt í dag við ýmislegt sem var gert þá fékk ég mjög góða þjónustu miðað við þá þekkingu og reynslu sem var til staðar. Þeir læknar sem hafa meðhöndlað mig hafa kannski ekki haft 100% þekkingu en þeir hafa flestir haft 100% vilja til að gera sitt allra besta. Ég var með hormóna- og efnaskiptasérfræðing sem hægt var að hafa samband við hvenær sem var og spyrja um allt. Hann veitti okkur meira en læknisþjónustu; hann var bjarg sem við gátum alltaf reitt okkur á. Við erum honum ótrúlega þakklát. „We are AIS“ Hefur þú verið í sambandi við annað intersex fólk? Ég þekki bara frænku mína og veit um svona einn eða tvo aðra á Íslandi sem eru intersex. Ég hef hins vegar verið í samskiptum við samtök á Bretlandi, mest við AISSG sem er stuðningshópur fólks með AIS (Androgen Insensitivity Syndrome) og aðrar líkar greiningar. Ég hef líka farið á intersex-ráðstefnur erlendis. Það var mjög stór stund þegar ég fór á mína fyrstu ráðstefnu. Það gefur manni svo ótrúlega mikið að koma inn í herbergi og vita að allir þar inni eru annaðhvort sjálfir með sömu reynslu og ég eða eiga börn sem eru intersex. Á þessari fyrstu ráðstefnu héldu ýmsir læknar og fræðingar fyrirlestra en ég man ekkert hvað þeir töluðu um. Hins vegar man ég eftir að hafa gengið um miðbæ Oxford syngjandi „We are AIS, I've got all my XY's out with me“ með hópi af stelpum sem voru með AIS. Í þeim hópi var intersex normið og aðrir sem komu inn í hann voru öðruvísi. Það var ólýsanleg upplifun. Intersex Ísland Sérðu fyrir þér að hagsmunabarátta intersex fólks á Íslandi geti farið fram á vettvangi Samtakanna '78? Það er möguleiki sem ég var á tímabili búin að afskrifa. Fyrir um áratug hafði ég samband við Samtökin til að athuga hvort hægt væri að fá að nýta aðstöðu þeirra til funda. Mér var þá gefið skýrt til kynna að intersex væri ekki eitthvað sem tengdist réttindabaráttu samkynhneigðra. Mér skilst reyndar að á þessum tíma hafi enn þurft að berjast fyrir tilvist tvíkynhneigðra innan Samtakanna, þannig að þetta kemur svo sem ekki á óvart. En þetta gerði mig frekar neikvæða gagnvart Samtökunum lengi vel. Ég hef heldur ekki farið í pride-göngur á Íslandi og mér hefur fundist erfitt að tengja mig við þennan félagsskap. Það var í raun ekki fyrr en ég fór að sjá að erlendis voru LGBTQ-samtök farin að taka intersex inn að ég fór að spá í að þetta gæti verið möguleiki á Íslandi. Síðan fór ég heyra útundan mér að Samtökin hefðu breyst mikið og prófaði að hafa aftur samband við þau. Þar hefur greinilega orðið algjör viðhorfsbreyting og núna sýnast mér frábærir hlutir vera að gerast þar. Eru til félagasamtök eða hópar fyrir intersex fólk á Íslandi? Ég hef heyrt af hópum sem eru afmarkaðir við eina ákveðna greiningu en ég veit ekki hvort þeir eru enn starfandi. Hingað til hafa ekki verið starfandi nein almenn samtök sem eru opin fyrir fólk með ólíkar greiningar en það er að breytast með tilkomu Intersex Ísland, sem eru nýstofnuð samtök undir regnhlíf Samtakanna ´78. Í rauninni tel ég að á Íslandi sé intersex fólk svo lítill hópur að hann gæti tæpast starfað einn og sér og ég held að Samtökin séu líklega besta regnhlífin til að vera undir, vegna þeirrar þekkingar og starfs sem þau hafa unnið í gegnum árin. Ég tel mikilvægt að skapa vettvang svo intersex fólk geti hitt aðra sem hafa svipaða reynslu og talað saman, deilt reynslu og fengið stuðning frá þeim sem eru að glíma við sambærilega hluti. Víða erlendis, til dæmis sums staðar í Bretlandi, er búið að koma því þannig fyrir að um leið og fólk fær greiningu er því vísað á intersex-samtök. Hér á landi þyrfti að vera til staðar hópur sem foreldrum intersex barna væri vísað á, þar sem þeir gætu fengið upplýsingar og hitt aðra sem hafa gengið í gengum það sama. Einnig er mikilvægt að vísa foreldrum á hópa erlendis en þar eru til sértækir hópar fyrir hverja greiningu. Kitty ásamt eiginmanni, stjúpsyni og frænku í Hallormsstaðaskógi Fjölskyldan í æfingabúðum Þórshamars: Egill, Kitty og Óli. 14 15

x

Hinsegin dagar í Reykjavík

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Hinsegin dagar í Reykjavík
https://timarit.is/publication/1512

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.