Hinsegin dagar í Reykjavík - 01.08.2014, Blaðsíða 22

Hinsegin dagar í Reykjavík - 01.08.2014, Blaðsíða 22
Hinsegin dagar – til hvers? Hugleiðing um tilverurétt hátíðarinnar Síðan síðasta hátíð Hinsegin daga var haldin hefur margs konar umræða um hinsegin málefni farið fram á Íslandi í fjölmiðlum og á öðrum vettvangi. Sú umræða hefur oft verið jákvæð en líka neikvæð. Nokkuð hefur borið á gagnrýni á hinsegin fólk, raddir þess og sýnileika, sem sumum þykir orðinn of mikill. Orð á borð við „frekjusamkynhneigð“ hafa heyrst en með því er gefið í skyn að nú hafi samkynhneigðir öðlast öll hin sömu borgaralegu réttindi og aðrir þegnar og að þegar þeir bendi á óréttlæti eða mismunun séu þeir bara með frekju og yfirgang. Einnig hefur sú skoðun verið látin í ljós að gleðiganga Hinsegin daga sé klámfengin og skaðleg börnum, þar sem nekt og ástaratlot fólks af sama kyni eigi ekki að vera sýnileg þar sem börn sjá til. Svo virðist sem komið sé að þolmörkum hjá ákveðnum hópi fólks sem umber hinsegin fólk ef það hefur ekki of hátt. Um leið og sýnileikinn verður meiri og ögranirnar við hið gagnkynhneigða gildismat margvíslegri fara að heyrast kvartanir. Lítum í því sambandi nánar á tilgang og hlutverk Hinsegin daga. Hinsegin dagar eru hátíð sem þjónar að minnsta kosti þrenns konar hlutverki. Í fyrsta lagi að gleðjast yfir þeim áföngum sem náðst hafa í mannréttindabaráttu hinsegin fólks og fagna sýnileika samkynhneigðra, tvíkynhneigðra, transfólks, intersex fólks og annarra sem falla undir hinsegin regnhlífina. Í öðru lagi stuðlar hátíðin að umfjöllun um menningu og sögu hinsegin fólks. Í þriðja lagi – og þetta atriði vill oft gleymast – minna Hinsegin dagar á þau réttindi sem ekki hafa enn náðst og það óréttlæti og þá fordóma sem enn viðgangast, bæði á Íslandi og meðal annarra þjóða. Það er staðreynd að þótt réttarstaða samkynhneigðra á Íslandi sé með því besta sem þekkist þá viðgangast enn fordómar og mismunun og aðrir hópar innan hinsegin samfélagsins hafa ekki fengið sín réttindi tryggð. Í könnun sem Samtökin ’78 létu gera síðastliðinn vetur kom í ljós að rúm 80% þátttakenda höfðu orðið fyrir aðkasti vegna kynhneigðar sinnar eða kynvitundar, fengið óviðeigandi spurningar eða athugasemdir, heyrt fordómafulla umræðu eða lent í einelti – og meirihlutinn hafði upplifað slíkt á síðustu þremur árum. Það er ekki frekja að krefjast þess að fordómum sé eytt úr samfélaginu eða að fólk sýni umburðarlyndi og víðsýni. Það er heldur ekki réttmæt krafa að fólk hegði sér á ákveðinn hátt til að þóknast öðru fólki sem ekki er tilbúið að viðurkenna margbreytileika mannlífsins. Hinsegin dagar fagna margbreytileika, ekki bara þeim sem hegða sér eins og „venjulegt fólk“ – hvað sem það nú þýðir. Gleðiganga Hinsegin daga er grasrótarviðburður og atriðin í henni eru ekki skipulögð af stjórnendum hátíðarinnar heldur fólkinu sem tekur þátt. Það fólk er alls konar – samkynhneigt, tvíkynhneigt, gagnkynhneigt og pankynhneigt; transfólk, sísfólk og intersex fólk; giftir og ógiftir; mæður, dætur og systur; synir, bræður og feður; fólk í lopapeysum og fólk í lendaskýlum; konur með skegg og karlar í kjólum; fólk sem fílar að fara í ísbíltúr á sunnudögum og fólk sem finnst nauðsynlegt að ögra ríkjandi viðhorfum; fólk sem kyssist og fólk sem helst í hendur. Ef einhverjum finnst of mikið um nakið hold í gleðigöngunni eða ef einhverjum ofbýður að sjá tvo einstaklinga af sama kyni kyssast á almannafæri leggjum við til að viðkomandi líti á auglýsingar í fjölmiðlum og það sjónvarpsefni sem daglega er fyrir augum – til dæmis tónlistarmyndbönd – og íhugi hve oft þeir sjá gagnkynhneigða nekt og gagnkynhneigð atlot á almannafæri. Samanburðurinn leiðir að öllum líkindum í ljós að mun líklegra er að börn sjái nekt og kossa annars staðar en í gleðigöngu Hinsegin daga. Gleðigangan er fyrir alls konar fólk. Hinsegin fólk. Það er hinsegin af því að það er ekki „venjulegt“ og af því að kynhneigð þess, kynverund eða líkamar falla ekki að því sem talið er gott og gagnkynhneigt. Þess vegna höldum við hátíðlega Hinsegin daga – til að undirstrika að það er fagnaðarefni að vera hinsegin! Sú krafa að allir séu „venjulegir“ býður upp á mismunun, kúgun og fordóma sem beinast ekki bara að þeim sem alla jafna fylkja sér undir merki hátíðarinnar heldur líka öllum þeim sem ekki ganga í takt við ríkjandi gildismat. Með öðrum orðum, öllum sem eru „of“ þetta eða „ekki nógu“ hitt. Heimurinn verður svo miklu mannúðlegri og betri ef allir regnboginn fær að njóta sín. Sýnum umburðarlyndi og víðsýni – fögnum fjölbreytileikanum og fordæmum fordóma. Stjórn og samstarfsnefnd Hinsegin daga í Reykjavík Landleguball Shore Leave Dance Kiki, Laugavegi 22 föstudaginn 8. ágúst kl. 23:00. Aðgangur: 1.000 kr. Pride passi gildir. Kiki Queer Bar, Laugavegur 22, Friday 8 August at 11:00 p.m. Admission: 1.000 ISK. Pride Pass valid. Eftir siglingu um sundin blá býður Kiki sæförum og landkröbbum að hita upp fyrir hinsegin helgina með glæsilegu landleguballi. Plötusnúðar og lifandi tónlist í boði fram á nótt með hýrri sjóliðastemningu. The annual Shore Leave Party will take place at Kiki Queer Bar following the Pride Cruise, providing the perfect chance to jumpstart your Pride weekend. DJs and live musical performances until early morning. 42

x

Hinsegin dagar í Reykjavík

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Hinsegin dagar í Reykjavík
https://timarit.is/publication/1512

Tengja á þetta tölublað: 1. tölublað (01.08.2014)
https://timarit.is/issue/420955

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.

1. tölublað (01.08.2014)

Aðgerðir: