Morgunblaðið - Sunnudagur - 28.11.2021, Blaðsíða 10

Morgunblaðið - Sunnudagur - 28.11.2021, Blaðsíða 10
VIÐTAL 10 MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 28.11. 2021 Þ að snjóar hressilega á leiðinni á Bessastaði og skyggni er lítið sem ekkert. En um leið og blaðamaður nálgast Álftanes birtir til og und- urfallegt útsýni blasir við; höf- uðborgin handan við fjörðinn og hrímhvít Esj- an. Forsetafrúin Eliza Reid tekur á móti blaðamanni og býður inn í bókaherbergi þar sem við fáum okkur sæti og því lýstur niður í huga blaðamanns að þarna hefur margt gott fólk áður hist, þjóðhöfðingjar og annað fyrir- fólk. Það er alltaf hátíðlegt að koma á Bessa- staði og gaman að fá að setjast niður í kaffi með forsetafrúnni sem nú hefur gefið út sína fyrstu bók, Sprakka. Saga margra íslenskra kvenna „Það var aldrei draumur að skrifa bók en svo kviknaði þessi hugmynd í fyrstu kórónuveiru- bylgju. Þá var Iceland Writers Retreat, vinnu- stofunni sem ég stofnaði, aflýst og ekki mikil þörf heldur fyrir að forsetafrúin héldi ávörp, opnaði ráðstefnur, færi í heimsóknir til fólks eða væri með móttökur. Ég fann að ég hafði allt í einu meiri tíma. Ég gekk mikið með börn- in mín í skólann og einn daginn þegar ég var úti að ganga fór ég að hugsa að það væru ábyggilega margir erlendis sem ekki vissu hvað Íslendingar eru framarlega í jafnréttis- málum, þótt auðvitað sé enn langt í land,“ segir Eliza. „Ég hugsaði að ég gæti kannski sagt þessa sögu því mér finnast jafnréttismál mjög mikil- væg, ég hef reynslu í blaðamennsku og sé hlut- ina með gests auga,“ segir Eliza og hófst hún þá handa að skrifa Sprakka, en það er gamalt orð yfir kvenskörunga. Tók hún viðtöl við fjölda íslenskra kvenna sem hún valdi vand- lega og segir hún þær allar kvenskörunga en á sama tíma venjulegar konur. „Ég vildi ekki bara segja mína sögu og er Sprakkar því saga margra íslenskra kvenna og á bókin að vera létt, jákvæð og raunsæ,“ segir Eliza og segir bókina koma út erlendis í febrúar, en íslenska útgáfan er komin út. „Bókin er fyrst og fremst hugsuð fyrir er- lendan leshóp en ég vona að Íslendingar muni lesa hana. Ég vil að fólk upplifi við lesturinn að því líði eins og það sé í kaffispjalli hjá mér.“ Finnst gaman að skipuleggja Í bókinni kynnist lesandinn velvöldum sprökk- um en einnig Elizu sjálfri. Hún er fædd í Ottawa og alin upp á frístundabýli í sveit í Ontario-fylki í Kanada. Sannkölluð sveita- stelpa. „Ég er elst af þremur systkinum. Heima vorum við með kindur, hænur og endur en þetta var ekki fullt starf foreldra minna, held- ur áhugamál,“ segir Eliza en faðir hennar var kennari og móðir hennar húsmóðir. „Bærinn okkar er úti í sveit og það er langt í næsta bæ. Þarna búa foreldar mínir enn í dag. Við vorum með sveitasíma og þegar maður lyfti upp símtólinu heyrði maður stundum í ná- grönnum tala,“ segir Eliza og brosir. Eliza lauk bakkalársgráðu í alþjóða- samskiptum frá Trinity College í Toronto- háskóla. „Það var blanda af sögu, stjórnmálafræði og hagfræði og lagði ég mesta áherslu á sögu og þá oft sögu alþjóðasamskipta. Í byrjun var ég að hugsa um að blanda saman gráðu í sögu og stjórnmálafræði en svo var það vin- ur minn sem vildi endilega selja skólabækur sínar í alþjóðasamskiptum ódýrt. Ég var mjög praktísk og keypti þær og þar með var námsleiðin valin,“ segir hún og brosir. „Mér fannst þetta mjög áhugavert nám en á þessum háskólaárum bjó ég á stúdentagörðum og var mjög virk í félagsmálum, pólitík og var í alls konar klúbbum. Ég var formaður stúd- entaráðs síðasta árið, formaður leiklistar- félagsins og ég söng í kór. Það er það sem stendur upp úr þegar ég horfi til baka, fé- lagslífið.“ Þú hefur þá alltaf verið opin og félagslynd og um leið viljað stjórna og láta til þín taka? „Algjörlega. Ég er mjög skipulögð og finnst gaman að skipuleggja hluti, sem hljómar kannski ekki spennandi, en mér finnst það gaman.“ Ástin í bolla Að loknu háskólanámi í Toronto flutti Eliza til Englands og nam sagnfræði í St. Antony’s College við Oxford-háskóla. Þar kynntist hún manni sínum, Guðna Th. Jóhannessyni, sem síðar átti eftir að verða forseti. „Ég var 22 ára og hann þrítugur og ég hélt fyrst að hann væri mun yngri; hann var svo unglegur. Mér fannst hann ofboðslega gam- all!“ segir hún og skellihlær. „Hann var þá skilinn og átti unga dóttur en við vorum á svipuðum stað í lífinu, bæði í námi og hvorugt tilbúin að gifta okkur eða eignast strax börn saman. Hann var auðvitað búin að lifa meira og var kannski þroskaðri en ég,“ segir Eliza og segir söguna af því hvernig upp- haf þeirra sambands kom til. „Ég ákvað aðeins að ýta á örlögin, en við höfðum hist og mér fannst hann áhugaverður. Það gafst tækifæri til að kynnast betur þegar haldin var tombóla til að safna fyrir róðrarlið- inu. Konur gátu keypt miða og áttu að skrifa nafn sitt á hann og setja í bolla hjá körlunum. Þeir drógu svo miða og áttu að bjóða þeirri konu út að borða. Ég keypti tíu miða og ákvað að setja næstum alla miðanna í hans bolla,“ segir hún kímin. „Ég sagði honum svo síðar frá þessu. Kannski er þetta mitt mottó í lífinu; að grípa tækifærin þegar þau gefast.“ Eliza segir margt í fari Guðna hafi heillað sig; hann var hógvær og reyndi ekki að draga að sér athygli. „En hann var mjög fyndinn; hafði þurran húmor. Hann var ekki trúðurinn í partíum, heldur átti það til að skjóta inn í samræðurnar einhverju mjög fyndnu. Svo var hann auðvitað klár líka og naut þess að læra.“ Sjokk að missa vinnuna Eftir námið flutti parið til Íslands, enda kom ekki annað til greina þar sem dóttir Guðna bjó hér. Eliza dreif sig strax á íslenskunámskeið og var fljót að aðlagast íslensku samfélagi. „Ég var heppin að komast á íslensku- námskeið viku eftir að ég kom hingað, en ég segi heppin því það er alveg hægt að búa hér án þess að kunna að bjóða góðan dag, sér- staklega ef enska er þitt móðurmál. Ég vildi ekki bíða með þetta. Að læra tungumálið hefur alltaf verið hluti af lífinu mínu hér og ég er allt- af að reyna að bæta mig,“ segir Eliza og segir þau sem tala íslensku að móðurmáli verða að sýna þeim meiri þolinmæði sem enn eru að læra málið. „Námið þarf að vera aðgengilegra og ódýr- ara. Það hefur verið mér mjög mikilvægt að læra málið en ég er ekki að segja að allir þurfi þess. En það hjálpar innflytjendum sem ætla að vera hér til langs tíma.“ Eliza segir að stór áskorun við að flytja til Íslands hafi verið að eignast hér vini. „Ég kom allt of seint hingað til að komast í saumaklúbb,“ segir hún og hlær. „En ég var dugleg að bjóða fólki í veislur og sagði alltaf já ef mér var boðið eitthvað. Ég kynntist líka fullt af fólki á íslenskunám- skeiðum frá öllum heimshornum. Ég eignaðist svo vini á fyrsta vinnustað mínum og síðar eft- ir að börnin fæddust kynntist ég foreldrum vina barnanna. Ég er sko ekki einmana hér.“ Fyrsta starf Elizu á Íslandi var við mark- aðsmál hjá litlu fyrirtæki. „Ég kom til Íslands vegna Guðna en vildi ekki vera hér bara hans vegna, heldur byggja upp mína eigin tilveru. Mína eigin vinnu, minn eigin vinahóp og mín eigin áhugamál. Ég fékk starf sem var auglýst í Morgunblaðinu og var frekar stolt af því að fá það vegna minnar eigin reynslu, en ekki í gegnum tengslanet manns- ins míns. En ári seinna var mér sagt upp og það var mikið sjokk og mjög erfitt. Það er ekki gott fyrir sjálfstraustið en allt er þetta reynsla. Á þessum tíma var Guðni á Rannís-styrk og ég var með miklu hærri laun en hann. Það var ekki auðvelt að finna nýtt starf í annað sinn, þó ég væri dugleg að sækja um. Ég tók að mér ýmis greinaskrif á ensku og prófarkalestur og allt í einu var það orðið að fullu starfi. Svo fékk ég fimmtíu prósent starf sem blaðamaður á Iceland Review og var það þá ágætisblanda, að hafa fasta vinnu en einnig vinna frílans,“ segir Eliza og segist hafa síðan misst starfið í hruninu þegar öllum föstum blaðamönnum var sagt upp. Hún hefur þó haft nóg að gera síðan og fengist við fjölbreytt verkefni, meðal ann- ars sem forsetafrú. Ferðalög auka bjartsýni „Blaðamannastarfið var skemmtilegt og ég kynntist fólkinu í landinu vel og ferðaðist víða um land og erlendis,“ segir Eliza en ferðalög hafa verið mikið áhugamál hjá Elizu og veit hún fátt skemmtilegra. Hún ferðast gjarnan ein og finnst það gott. „Ég mun alltaf hvetja fólk til að ferðast eitt því þá þarf það ekki að bíða eftir neinum til að geta upplifað drauminn sinn. Maður kynnist frekar fólki á ferðalögum einn og mér finnst það ekkert mál. Ég fór ein í tveggja mánaða lestarferðalag um Evrópu þegar ég var 23 ára og áður en ég flutti til Íslands fór ég í hundrað daga bakpokaferð ein. Ég byrjaði í Moskvu og tók Síberíulestina til Úzbekistan, Kasakstan, Móngólíu, Japans og Suðaustur-Asíu. Ég kom svo hingað blönk, atvinnulaus og kunni ekki Mitt ástarbréf til Íslands Út er komin bókin Sprakkar eftir Elizu Reid, forsetafrú Íslands. Í henni tvinnar Eliza saman lífi sínu og reynslu við sögur íslenskra valkyrja, svokallaðra sprakka. Eliza ákvað snemma að nýta sér sviðsljósið og tala um það sem hún brennur fyrir; jafnrétti. Ásdís Ásgeirsdóttir asdis@mbl.is ’ Konur gátu keypt miða og áttu að skrifa nafn sitt á hann og setja í bolla hjá körlunum. Þeir drógu svo miða og áttu að bjóða þeirri konu út að borða. Ég keypti tíu miða og ákvað að setja næstum alla miðana í hans bolla.

x

Morgunblaðið - Sunnudagur

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið - Sunnudagur
https://timarit.is/publication/1078

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.