Saga - 2018, Blaðsíða 63
1. Í fyrstu verður að geta biskupanna, sérhvers með nafni,
hversu lengi hver hefir verið;
2. hvað hafi á hans dögum við borið; —
3. hverir að hans ættmenn og niðjar séu; —
4. hverir nafnkunnugir ríkismenn þá hafi lifað; —
5. hverir að nú séu þeirra ættmenn á lífi.12
Það er því ljóst að þó að Jón noti annálaformið að hluta til þá mótast
framsetning hans ekki síður af ættfræðiáhuga hans þar sem ættir
þeirra sem koma við sögu eru raktar til samtíma Jóns. Það er í sam-
ræmi við þá persónuhverfu sögusýn sem var ríkjandi fyrir daga
nútímalegrar sagnfræði. Enginn greinarmunur var gerður á kirkj-
unni sem stofnun og þeim einstaklingum sem voru í forsvari fyrir
hana hverju sinni. Áhugi Jóns á „ríkismönnum“ er einnig áberandi
og gefur Biskupaannálunum skýrt yfirbragð; þeir eru saga yfir -
stéttar fremur en alþýðu.
Jón Egilsson var tengdur ýmsum öðrum mikilvægum þátttak-
endum í endurreisn samtímasöguritunar. Faðir hans, Egill Einarsson
á Snorrastöðum, var heimildarmaður Odds Einarssonar biskups í
stuttri frásögn um siðaskiptin sem skráð var 1593, ríflega áratug á
undan riti Jóns.13 Bróðir Jóns var Ólafur, prestur í Vestmannaeyjum,
sem herleiddur var til Alsír árið 1627 og skrifaði hina alkunnu
Reisubók um hrakningar sínar og annarra suður í löndum.14 Eftir
Einar Ólafsson, afa Jóns og fyrirrennara sem prestur á Hrepphólum,
hafa hins vegar ekki varðveist nein rit en hann virðist hafa verið
mikilvægur heimildarmaður sonar síns og sonarsonar. Jón, faðir
hans og afi komu við sögu í helstu átökum sextándu aldar og höfðu
mikilvæg tengsl við aðalpersónur þeirra átaka.
Má þar fyrst nefna tengsl þeirra við Stefán Jónsson, sem var bisk-
up í Skálholti 1491–1518. Faðir Stefáns, Jón Egilsson, og föðuramma
Einars Ólafssonar, Hallbera Egilsdóttir, voru systkin og er sagt frá
þeim skyldleika bæði í Söguþætti um Skálholtsbiskupa og Biskupa -
hin sársaukafullu siðaskipti 61
11 Árni Magnússon hefur skrifað upp dagsetninguna 5. febrúar 1605 eftir frumriti
Jóns. Sjá Jón Sigurðsson, „Biskupa-annálar Jóns Egilssonar. Formáli“, bls. 20.
12 „Biskupa-annálar Jóns Egilssonar“, bls. 29.
13 „Söguþáttur um Skálholts biskupa fyrir og um siðaskiptin“, Biskupasögur II.
Útg. Jón Sigurðsson og Þorvaldur Bjarnarson (kaupmannahöfn: Hið íslenzka
bókmenntafélag 1878), bls. 235–262.
14 Reisubók séra Ólafs Egilssonar. Útg. Sverrir kristjánsson (Reykjavík: Almenna
bókafélagið 1969).
NÝ_Saga haust 2018 .qxp_Saga haust 2004 - NOTA 19.10.2018 18:45 Page 61