Saga - 2018, Side 74
Það er sennilega hending að alþýðumaður sem Jón nefnir ekki föður -
nafnið á komi við tvo stóratburði í Biskupaannálunum en sögu
Eysteins var þó ekki lokið og Jón Egilsson vissi greinilega heilmikið
um hans lífsferil. Skömmu síðar segir Jón frá óvináttu Ögmundar
Skálholtsbiskups og Jóns Arasonar sem hann tímasettur í kringum
1525, en þó raunar mjög óviss um hvenær atburðurinn átti sér stað.
Að sögn Jóns ákváðu biskuparnir að gera upp mál sín á Alþingi og
mættu þar til leiks með flokka eins og höfðingjar á Sturlungaöld,
Ögmundur með 1.300 manns en Jón 900:
Góðir menn áttu þá hlut í með þeim, og sættu þá, og skyldi sinn mann
fá til hvor þeirra, og þeir tveir skyldu gánga á hólm í Öxará og berjast;
fékk biskup Jón til Atla nokkurn, en biskup Ögmundur Eystein Brands -
son, það er sá sem var með Lénarði, þá er Torfi lét drepa hann á Hrauni,
og sá sem að flúði með konu sína fyrir eldgánginum í Heklu. Þeir börð -
ust lengi, og vann hvorki, fyr en Eysteinn tók það ráð, að hann barði
handskana að höndum honum og hjó sig undir hann og felldi hann til
jarðar, því Eysteinn var ramur að afli; með það varð það endað.36
Það virðist með miklum ólíkindum að biskupar hafi staðið fyrir
liðssafnaði og fallist á að leysa málin með hólmgöngu. Jón Egilsson
er einn til frásagnar um þetta og vel má vera að frásögn heimildar-
manna hans hafi skolast til. Þó eru til dæmi um að mál hafi verið leyst
með hólmgöngu bæði á Íslandi og erlendis um þessar mundir.37 Í
þessu samhengi skiptir þó mestu máli að frásögnin virðist vera hluti
af sagnaflokki sem hefur gengið um Eystein á Suðurlandi. Jón
Egilsson hefur hins vegar greinilega óljósa hugmynd um af hverju
deila Skálholtsbiskups við Hólabiskup stafaði eða hvort áfram var
fjandskapur með þeim. Líkt og þegar kemur að fyrri atburðum er
hið upphaflega samhengi hins dramatíska atburðar gleymt en það
sem lifir áfram er hetjuskapur tiltekins einstaklings.
Alþýðan er í aukahlutverki í Biskupaannálum Jóns Egilssonar en
þó er alþýðufólk frá Suðurlandi, og þó einkum Árnesþingi, hluti af
sjóndeildarhring hans. Á hinn bóginn segir hann ekki mikið frá
atburðum í öðrum landshlutum og í þeim tilvikum er frásögn hans
iðulega ónákvæmari og óljósari. Sjóndeildarhringur Jóns Egilssonar
náði ekki til annarra biskupsdæma og tæplega til annarra fjórðunga.
Í Árnesþingi var hann hins vegar heimavanur.
sverrir jakobsson72
36 „Biskupa-annálar Jóns Egilssonar“, bls. 64.
37 Sjá Helgi Þorláksson, Saga Íslands VI. Frá kirkjuvaldi til ríkisvalds (Reykjavík: Hið
íslenska bókmenntafélag og Sögufélag 2003), bls. 5–8.
NÝ_Saga haust 2018 .qxp_Saga haust 2004 - NOTA 19.10.2018 18:45 Page 72