Saga - 2018, Side 78
hún hins vegar tengd við persónulegan ágreining hans við Gissur.
Hann greinir frá því að Christoffer Huitfeldt, lénsmaður í Þránd -
heimi, hafi komið með liði sínu á tveimur herskipum, gagngert í
þeim tilgangi að flytja Ögmund til Danmerkur en setja Gissur aftur
í embætti. Gissur virðist ekki hafa ráðið miklu en þó er nefnt tvennt
sem er honum ekki til framdráttar. Annars vegar er hann sagður
hafa sent mann til Ögmundar „með því bréfi, að herra Ögmundur
mætti vera óhræddur um sig fyrir þeim Dönskum, af því þeir vildu
honum ekkert vont“ en hins vegar vitnar Jón í bréf sem afi hans sá
í fórum riddarans þar sem fram kom að þeir skyldu „ekki láta þann
gamla refinn sleppa“, en tekur fram að hann viti ekki hver hafi
skrifað það bréf.48 Jóni blöskrar greinilega framganga Huitfeldts og
manna hans, enda brutu þeir á hans eigin fjölskyldu. Fram kemur
að fjórtán jarðir Ögmundar hafi verið gerðar upptækar sem systir
hans, langamma Jóns, átti með réttu, „hverjar hún sór sér aptur á
alþingi, en hún náði þeim aldri“.49
Jón Egilsson lætur að því liggja að Gissur Einarsson hafi setið á
svikráðum við Ögmund, fyrirrennara sinn, enda þótt hann fordæmi
hann ekki beinlínis fyrir verknaðinn. Hins vegar er áberandi að Jón
hefur fátt jákvætt að segja um Gissur og nefnir engin sérstök afrek
hans á biskupsstóli. Hann segir frá láti Gissurar skömmu eftir að
hann lét taka niður krossinn í kaldaðarnesi og skrín heilags Þorláks
og bætir við að „þeir eldri útlögðu það svo, að guð hefndi sín á hon-
um þess, það hann hefði tekið ofan krossinn“.50 Rit Jóns kallaði enda
á andsvar sem er ritgerð Jóns Gissurarsonar um siðaskiptatímann,
en Jón Gissurarson (1590–1648) var frændi Gissurar biskups og
umhugað um að rétta hlut hans.
sverrir jakobsson76
48 Bréf Gissurar til Ögmundar er ekki nefnt af öðrum sagnariturum, t.d. ekki Agli
Einarssyni, föður Jóns. Tortryggilegt er að Ögmundur skuli hafa reitt sig á að
Gissur væri búinn að kanna hug Dana á þessum tíma, sjá Helgi Þorláksson, Saga
Íslands VI, bls. 59. Hitt bréfið er til og var ritað af Gissuri Einarssyni á lágþýsku,
sjá DI. Diplomatarium Islandicum. Íslenzkt fornbréfasafn I‒XVI. Útg. Jón Þorkelsson
(kaupmannahöfn: Hið íslenzka bókmenntafélag 1857‒1972), hér X, bls. 618–619.
49 „Biskupa-annálar Jóns Egilssonar“, bls. 72–74. Tryggvi Þórhallsson telur að
katrín, móðir Jóns, hafi verið helsti heimildarmaður hans varðandi atburði í
kringum handtöku Ögmundar, sjá Gissur biskup Einarsson og siðaskiptin, bls.
120–121. Um endalok Ögmundar biskups sjá Loftur Guttormsson, „Ævilok
Ögmundar Pálssonar Skálholtsbiskups: svolítil sagnritunarathugun“, Saga 48:2
(2010), 109–124.
50 „Biskupa-annálar Jóns Egilssonar“, bls. 88.
NÝ_Saga haust 2018 .qxp_Saga haust 2004 - NOTA 19.10.2018 18:45 Page 76