Saga - 2018, Blaðsíða 81
up Stepháni, sök þar til man ég ekki“.57 Jón þekkir því ekki deilur
höfðingja og kirkjunnar um jarðnæði sem náði hámarki með Leiðar -
hólmsskrá sem leikmenn sendu frá sér 1513.58
Greinilegt er að Jón hefur horn í síðu marga erlendra valds-
manna. Um fógetann Diðrik frá Minden, sem drepinn var af mönn-
um Ögmundar biskups árið 1539, segir Jón að þeir Einar Ólafsson,
afi Jóns og helsti heimildarmaður, hafi verið miklir óvinir. Það kem -
ur því ekki á óvart að Diðrik er borin heldur illa sagan en Jón gefur
í skyn að hann hafi lokað klaustrinu í Viðey án þess að hafa til þess
heimild frá konungi:
Svo líður að þíngi; þar finnast þeir biskup Ögmundur og Diðrik heim
við kirkju, og talast við þar nokkur orð um þessa Viðey, og beiðist (bisk-
up) þess bréfs, að kóngurinn hafi slíkt skipað, og hann vili og skuli
honum hlýðugur vera í því sem hann sér tilsegir. Diðrik þagði eða ans -
aði þar fáu til, en biskup sagðist bjóða sig undir rétt lög við hvern sem
nokkuð hefði til sín að tala; en Diðrik sagði: pestilenzían skyldi hafa
þau lög. Ekki er þar getið um fleira.59
Hér verður ekki séð að Jón tengi hertöku Viðeyjarklausturs við hina
nýju kirkjuskipan sem konungur hafði sent til Íslands. Þar af leið -
andi er þessi aðgerð ekki sett í samhengi við siðaskiptin heldur er
henni lýst sem yfirgangi embættismanns. Eins og áður leggur Jón
áherslu á persónulega uppsprettu átaka fremur en að greina þau
sem andstæður mismunandi stofna, konungsvalds og kirkju. Diðrik
nýtur þar af leiðandi ekki mikillar samúðar en þó telur Jón að Guð
hafi refsað flestum banamönnum hans:
Þá sem voru að því drápi nenni eg ekki að skrifa, en það er summin, að
bæði þeir, og þeir í Skálholti, sem fóru að slá þá, fengu fáir prests fund
í sinni dauðstríð, heldur dóu þeir bráðum dauða og mállausir.60
Jón er að því leyti samkvæmur sjálfum sér að hann telur ofbeldis -
verk brot gegn almættinu enda þótt honum sé í nöp við þá sem fyrir
þeim verða.
Þannig má einnig greina vissa samúð með Christian skrifara,
fógeta konungs, sem kom að aftöku Jóns Arasonar og sona hans. Jón
hin sársaukafullu siðaskipti 79
57 „Biskupa-annálar Jóns Egilssonar“, bls. 55.
58 Sjá DI. VIII, bls. 429–452.
59 „Biskupa-annálar Jóns Egilssonar“, bls. 68.
60 „Biskupa-annálar Jóns Egilssonar“, bls. 71–72.
NÝ_Saga haust 2018 .qxp_Saga haust 2004 - NOTA 19.10.2018 18:45 Page 79