Saga - 2018, Qupperneq 86
Saga LVI:2 (2018), bls. 84–121.
helgi skúli kjartansson og orri vésteinsson
Hvar reru fornmenn til fiskjar?
Um vertíðamynstur miðalda
Mikilsvert álitamál í hagsögu Íslands á miðöldum er hvort sjósókn hafi
skipst á árstíðir og landshluta með líkum hætti og síðar varð. Hér er
borinn saman vitnisburður ólíkra heimilda: frásagna, skjala og forn -
leifa, og reynist flest bera að sama brunni. Hið vel þekkta vertíðamynst-
ur, þar sem sjósókn var langmest við Suður- og Vesturland og sérstak-
lega á vetrarvertíð, hefur ekki mótast fyrr en á síðmiðöldum. Þangað til
tengist vitnisburður um sjósókn norðurhelmingi landsins ekki síður en
suðurhlutanum og fátt bendir til vetrarvertíðar.
Um aldir var fiskafli Íslendinga langmest dreginn úr sjó við Suður-
og Vesturland, einkum á vetrarvertíð, frá byrjun febrúar og fram í
maí, þegar vermenn flykktust í verstöðvar við suðurströndina, á
Suðurnesjum og Snæfellsnesi, jafnvel úr öðrum landshlutum.1 Þetta
vetrarvertíðarmynstur helgaðist af hrygningargöngu þorsksins en
rímaði líka einkar vel við þarfir íslensks landbúnaðar því með því
var vinnuafl nýtt einmitt á þeim tíma þegar minnst þörf var fyrir
það í sveitunum. Að verka skreið um vetur fremur en sumar átti sér
líka þær ástæður að maðkaflugan fer á kreik þegar líður á maí og
gerir skreiðarþurrkun illmögulega fram í september.
Skýrar vísbendingar eru um vetrarvertíð á sextándu öld en fyrir
þann tíma eru heimildir óljósar og misvísandi. Fræðimenn hafa samt
fremur hneigst til að ganga út frá svipuðu vertíðamynstri frá fyrstu
tíð, eða allt frá því sjósókn fékk verulegt vægi í atvinnulífi landsins.2
Þess væri líka að vænta ef reikna mætti með óbreyttum aðstæðum í
sjónum, sömu hrygningarstöðvum nytjafiskanna og sömu ætisgöng-
um. En sú forsenda er engan veginn gefin því að a.m.k. hefur hita-
stigið, í sjónum ekki síður en á landi, tekið stórfelldum breytingum.
Við þekkjum vertíðamynstrið eins og það mótaðist við aðstæður
1 Um vertíðir og verferðir, sjá Lúðvík kristjánsson, Íslenzkir sjávarhættir I–V (Reykja -
vík: Menningarsjóður 1980–1986), hér II, bls. 365–392.
2 Sbr. ályktanir Helga Þorlákssonar, Jóns Jónssonar og Jóns Þ. Þórs sem vísað er
til í kaflanum „Landnámabók“.
Helgi Skúli kjartansson, helgisk@hi.is og Orri Vésteinsson, orri@hi.is
NÝ_Saga haust 2018 .qxp_Saga haust 2004 - NOTA 19.10.2018 18:45 Page 84