Saga - 2018, Page 91
norður um til Grímseyjar eða Flateyjar. Á því svæði hafi — á þrett-
ándu öld fremur en endilega á söguöld — verið verstöðvar þaðan
sem bæði heimamenn og aðkomnir vermenn sóttu sjóinn af kappi.
Landnámabók
Landnámabók26 hefur það umfram Íslendingasögur að fjalla um öll
héruð landsins, reyndar ekki með mjög samræmdum hætti. Að öðru
leyti er heimildargildi hennar hliðstætt. Þótt þar sé væntanlega
minna af skáldskap og þeim mun meira af þjóðsögum, þá eru þær
skráðar tveimur til fjórum öldum eftir að þær eiga að hafa gerst og
sýna hvað fróðum mönnum fannst mögulegt eða eðlilegt frekar en
hvað þeir raunverulega vissu.
Um sjósókn getur á nokkrum stöðum í Landnámu, þó aðeins
einu sinni þannig að greinilega er átt við útróðra sem almennan
atvinnuveg í heilu héraði. Það er þegar „hver bóndi í Ísafirði“ galt
þóknun til galdrakonunnar sem „setti kvíarmið í Ísafjarðardjúpi“.27
Annað eru svipmyndir. Tilvonandi landnámsmaður hefur vetursetu
í Grímsey á Steingrímsfirði, rær til fiskjar um haustið og ferst í róðri
um veturinn.28 Hrafna-Flóki hittir svo á að „Vatnsfjörður við Barða -
strönd“ var „fullur af veiðiskap“. Sú vertíð hefur staðið sumarlangt
úr því að menn hans „gáðu eigi fyrir veiðum“ að afla heyja.29 Úr
Melabók Landnámu er varðveitt klausa sem gerir ráð fyrir að
höfuðbólið Hólmur í Leiru (nú í Garði á Suðurnesjum) eigi útræði á
Gufuskálum í sömu sveit.30 Þá lýsir Landnáma því hvernig land-
vættir fylgdu tveimur af sonum landnámsmanns í Grindavík „til
veiða og fiskjar“.31 Enn segir um landnám í Vestmannaeyjum að
„áður var þar veiðistöð og lítil veturseta eða engi.“32 Án vetursetu
hefur þó tæplega verið gert út á vetrarvertíð heldur mun Land -
námu höfundur sjá fyrir sér nýtingu í Drangeyjarstíl: fuglaveiði og
eggjatekju fyrri hluta sumars, og þá sjálfsagt fiskveiðar jafnframt.
Orðið „veiðistöð“ þarf þó í sjálfu sér ekki að vísa til útróðra. Það var
hvar reru fornmenn til fiskjar? 89
26 ÍF I, 1968 (útg. Jakob Benediktsson).
27 Sama heimild, bls. 186.
28 Sama heimild, bls. 96–97.
29 Sama heimild, bls. 38–39.
30 Sama heimild, bls. 66 nmgr.
31 Sama heimild, bls. 330, 331.
32 Sama heimild, bls. 356.
NÝ_Saga haust 2018 .qxp_Saga haust 2004 - NOTA 19.10.2018 18:45 Page 89