Fréttabréf Siglfirðingafélagsins í Reykjavík og nágrenni - okt. 2020, Blaðsíða 7

Fréttabréf Siglfirðingafélagsins í Reykjavík og nágrenni - okt. 2020, Blaðsíða 7
Siglfirðingablaðið 7 múrarann, það var heilmikið pukur því færri fengu en vildu. (Leikið látbragð. Hann gengur um með pípu). Þó þetta sé bæði nálægt og bjart í minningunni þá er samt langt síðan, svo langt að ég held að það hafi verið nýbúið að finna upp hjólið, að minnsta kosti voru hjólbörur það tæknivæddasta á staðnum. Öll steypan var hrærð með skóflum á stórum trépalli fyrir ofan hús og var sandurinn í hana sigtaður með stóru handsigti sem tveir menn rugguðu á milli sín. Síðan var steypan flutt í hjólbörum eftir skábrautum utan á uppslættinum og hellt ofan í mótin. Þetta var alveg æðislegt sumar alltaf sól og rífandi gangur í byggingu nýja hússins - yndislegt- og ekki einu sinni vegur þangað heim. Öllu sem þurfti með var þrælað upp Ólatúnið og svo druslað upp á lóð með ærinni fyrirhöfn. Vegurinn kom árið eftir, ef veg skyldi kalla, hann hefur aldrei verið almennilega kláraður. Seint um haustið var svo flutt í húsið og þann 16. des.´48 fæddist svo myndargaur, sonur númer tvö, hann Magnús. Þetta sumar var ég eitt sinn að koma með mömmu út úr Apótekinu, þegar að henni víkur sér maður og segist vera organistinn í kirkjunni og hafa frétt að hún hafi góða söngrödd. Hvort hún vilji ekki koma á kóræfingu um kvöldið og reyna. Hún verður bæði glöð og hissa og sló til. Þarna varð upphaf að söngferli hennar og heimsfrægð norðan heiða. Sem ekkert lát hefur verið á og stendur enn. Ekki lét Anna kirkjukórinn nægja, sem ekki var von, annan eins fítónskraft hef ég ekki þekkt hjá nokkurri manneskju. Hún var líka í Leikfélagi Siglufjarðar, og meira að segja formaður þess um árabil, í Slysavarnafélaginu, Kvenfélaginu, Systrafélagi sjúkrahússins og æskulýðsfulltrúi bæjarins. Ef það hefði verið sinfóníuhljómsveit á staðnum þá hefði hún örugglega verið í henni líka því hún lét sig ekki muna um að vera í Tónlistarskólanum í tvö ár. Eins og á þessu má sjá þá hefur hún átt mjög bjarta framtíð að baki. Geri aðrir betur! Hún var ekki í karlakórnum Vísi, Skúli og pabbi voru þar. Ekki heldur í Barnastúkunni Eyrarrós no. 68, við krakkarnir fengum að njóta okkar þar. Oft mátti heyra gjalla um húsið. (Anna stendur við að hræra í potti og þylur leikrullu, t.d. úr Fjalla - Eyvindi.) Kallar hátt: „Anna Gígja, þú verður að passa Magga, Stínu og Píu í kvöld, ég þarf að fara á leikæfingu.“ Eða: „Elskurnar mínar þið verðið að vera stillt í kvöld ég þarf á kóræfingu.” (Prjónar) Samt sem áður var hún fyrst og fremst móðir og frábær húsmóðir. Svo var hún úrvals garðyrkjukona, saumakona og prjónakona. Þessi kvenskörungur lét sig ekki muna um að eignast þrjú börn til viðbótar við þau sem áður eru talin. Kristín fæddist 30. sept. 1950, (biddjar ún enn, sagði Maggi þegar Stína grét). Filippía Þóra er fædd 2. sept. 1953 Þorsteinn er langyngstur og fæddur miklu seinna, eða þ. 16. sept. 1962. (Í hvert sinn er nýtt barn bætist við söguna þá er komið með einhverja fígúru á sviðið t.d. bangsa, tröll, eða bara dúkku.) Ekki var Guðbrandur síður duglegur og hafði mörg járn í eldinum við að afla heimilinu tekna, því ekki nægði eitt starf til að sjá svo stórum barnahóp farborða og byggja hús líka, ó nei. Guðbrandur kenndi fulla kennslu við Gagnfræðaskólann og einnig við Iðnskólann og var þar skólastjóri um tíma. Á sumrin stóð hann í Áfengisversluninni á daginn og seldi brennivín með meiru. Á kvöldin brá hann sér í lögguna og stakk kúnnum dagsins í steininn. Á sunnudögum var Brandur svo næstum því prestur þessa sama fólks því hann var meðhjálpari í kirkjunni. Þess á milli voru tekjurnar drýgðar með skrautritun og bókbandi fyrir fólk og prentsmiðjuvinnu, að ógleymdu tollþjónsstarfi á Siglufirði og eitt sumar á Seyðisfirði. Einhvern veginn tókst honum samt að vera heima og ala krakkaskarann upp með smáflengingum og þess háttar þegar þurfti og sinna fræðistörfum og áhugamálum sínum. Blessuð sé minning hans. Nú þegar pabbi er allur og mamma flutt suður þá hef ég mestar áhyggjur af því að allt menningarlíf hér í bæ leggist af og ekki verði boðið upp á neitt nema vídeó og kannski stöku messu. Samið í Reykjavík vorið 1995.

x

Fréttabréf Siglfirðingafélagsins í Reykjavík og nágrenni

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Fréttabréf Siglfirðingafélagsins í Reykjavík og nágrenni
https://timarit.is/publication/627

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.