Fréttabréf Siglfirðingafélagsins í Reykjavík og nágrenni - okt. 2020, Side 10
Siglfirðingablaðið10
Kjartan Stefánsson
Bernskuminning brekkugutta
Ég fæddist á Eyrinni 1951 og bjó bernskuárin mín,
1952 til 1960, á Brekkunni en eyddi unglings-
árunum í Villimannahverfinu.
Þótt ég flyttist burt sótti ég upp á Brekkuna í
nokkur ár á eftir og leit á mig og lít enn sem
Brekkugutta.
Ég tók því vel þegar ég var beðinn um að skrifa um
Brekkuna í Siglfirðingablaðið en það er þó ekki
einfalt mál. Ef gera ætti öllu skil yrði það of langt
mál og ekki pláss fyrir það í blaðinu. Ég mun því
aðeins stikla á stóru, nefna helstu leikfélaga og
skólasystkin og hvað við tókum okkur fyrir hendur.
Einnig koma við sögu nokkrar minnisverðar
persónur.
Þar sem sjónarhornið miðast við mína upplifun valdi
ég greininni heitið „Bernskuminning Brekkugutta“.
Gott væri að fleiri sem ólust upp á Brekkunni á
misjöfnum tíma muni stíga fram á ritvöllinn til að
fylla inn í myndina. Sjónarhorn stelpna vantar í
þessa grein þar sem stelpur og strákar léku sér ekki
mikið saman. Auðveldlega mætti fylla eina bók eða
fleiri með sögum af Brekkunni ef margir tækju sig
saman.
Hótað með Bola
Ég átti heima á Hverfisgötu 1 fyrstu ár mín á Brekk-
unni. Foreldrar mínir voru Hulda Sigmundsdóttir
og Stefán Friðbjarnarson. Bróðir minn, einu og
hálfu ári eldri en ég, er Sigmundur. Fyrsta minning
mín frá Hverfisgötu 1 er þegar systir mín Sigríður
fæddist heima sumarið 1954. Ég var þá þriggja og
hálfs árs. Við Simmi vorum óþekkir að vanda.
Pabbi var að fara á taugum, reyndi að hasta á okkur
en ekkert dugði fyrr en hann lokaði okkur inni á
salerni. Þar var lúga í loftinu upp á háaloft. Okkur
var hótað því ef í okkur heyrðist að hin hryllilega
ófreskja, Boli, myndi koma niður og taka okkur.
Þarna sátum við á gólfinu lafhræddir þar til Sigga
systir mín kom í heiminn og bjargaði okkur úr
prísundinni.
Barnaskari á Brekkunni
Eitt af einkennum Brekkunnar var mikill barnaskari.
Líklega voru þar 60 krakkar eða fleiri, fæddir árin
1949 til 1953. Ekki eru tök á því að nefna þá alla
eins og áður segir.
Á þessum tíma léku börn sér úti. Göturnar voru
leiksvæði okkar. Innarlega á Hverfisgötunni fyrir
framan Aðventistakirkjuna var farið í fótbolta,
slábolta og yfir. Boltanum var þá hent yfir kirkjuna.
Nefna má fleiri leiki. Það var helst að stelpur og
strákar léku sér saman í slábolta og yfir.
Einnig var stundum laumast inn í garða nágranna
þar sem rifsberjarunnar uxu til að fela sig í ræningja-
leik eða bara til að næla sér í rifsber. Þeir hugrökku
voguðu sér í garðinn hjá Sillu á Steinaflötum.
Fjallið hafði mikið aðdráttarafl, einkum Gimbra-
klettarnir. Ósjaldan var farið upp á hól til leikja en
hóllinn var litlu ofan við Háveginn.
Kirkjugarðurinn var líka vinsælt leiksvæði þótt
sumum þætti óhugnanlegt að vera þar innan um
öll leiðin. Eitt sinn datt einn ofan í opna gröf og
stökk upp í hryllingi. Eins gerði ungur maður, sem
bjó í öðru hverfi, sér að leik að sveipa sig hvítu laki
eftir að skyggja tók, læðast um milli leiða og hræða
krakka á Brekkunni.
Stórt leiksvæði við Holuna
Aðalleiksvæði okkar var Holan svonefnda. Hún var
við Lindargötuna, beint neðan og austan við Hverfis-
götu 5, þar sem ég bjó í nokkur ár. Holan var gamall
húsgrunnur sem grafinn var snemma á síðustu öld
en ekki varð þá úr byggingarframkvæmdum. Holan
var eins og sérsniðinn leikvöllur. Þar reis löngu síðar
húsið að Lindargötu 14.
Óbyggt var einnig á lóðinni norðan við Holuna, við
Lindargötu 12. Léleg eða engin girðing var í kring-
um lóðina við Hverfisgötu 5. Þarna var því stórt
samfellt athafnasvæði fyrir krakkana.
Rétt er að rifja upp að á þessum árum voru
rammgerðar girðingar í kringum flestar lóðir til að
halda blessuðum bæjarrollunum frá blómum og
öðrum skrautgróðri.
KV, fótbolta- og íþróttafélag
Á Brekkunni var starfrækt merkilegt íþróttafélag,
Knattspyrnufélagið Vörn, eða KV. Simmi beitti sér
fyrir stofnun þess og var leiðtogi. Simmi skrifaði litla
minnisbók um félagið, KV-bók, sem er samtíma-
heimild. Þar eru frásagnarbrot um leiki og uppátæki
30 til 40 gutta, ekki allt Brekkuguttar þó.
Félagið var stofnað 1961 og keppti sinn fyrsta leik
við KS um haustið. KV tefldi þessum knáu strákum
fram:
Marteinn Kristjánsson, Leifur Halldórsson, Kjartan
Stefánsson, Guðmundur Skarphéðinsson, Gestur