Fréttabréf Siglfirðingafélagsins í Reykjavík og nágrenni - okt 2020, Qupperneq 13

Fréttabréf Siglfirðingafélagsins í Reykjavík og nágrenni - okt 2020, Qupperneq 13
Siglfirðingablaðið 13 fyrir fótgangandi milli Brekkunnar og bæjarins. Frá stígnum var líka hægt að fara inn á steyptan pall eða verönd sem gekk inn í brekkuna út af annarri hæð á húsi Gests. Steikt kex og sinubruni Við Gummi vinguðumst við Guðnýju, konu Gests. Fórum oft með ruslið fyrir hana út í tunnu á veröndinni og fengum kexköku að launum. Eitt sinn datt okkur í hug að steikja kexið. Við kveiktum í sinuþúfu í brekkunni fyrir neðan hús Stjána tíkalls, sem svo var nefndur, og lögðum kexin á eldinn. Eldurinn læsti sig brátt í niðurnídda girðingu með gamalli síldarnót sem var nærri. Varð allmikið bál og kolsvartur reykur. Fólk úr nærliggjandi húsum þusti út með fullar vatnsfötur og slökkti eldinn en við hlupum burt skíthræddir. Seinna um daginn skoðuðum við sviðna jörðina skömmustulegir. Gummi greip annað kexið sem var þarna ennþá og smakkaði á því. „Ekki sem verst,“ sagði hann og hló og þar með var skammarstrikið gleymt. Fullbúinn Brekkugutti Nokkuð langt bil er á milli Hóla og næsta húss neðan Lindargötu sem nefnt er Nefstaðir og stendur gegnt Búðarhóli. Þarna á götunni stóðu strákarnir stundum seinni part dags eða um helgar og skutu úr teygjubyssu upp í loftið og niður á síldarbryggjurnar í þeirri von að enginn væri þar á ferli! Það rifjast líka upp að þarna fyrir neðan, í sundinu milli Sjómannaheimilisins og steingarðsins við Hóla, óx hvönn. Rör gert úr stilk hvannarinnar var kjörið til skjóta úr þurrkuðum baunum. Við fylltum munninn af baunum og skutum hver á annan. Þá var sagt: „Þú ert dauður“. Og svarið kom: „Nei, þú ert dauður, ég skaut þig fyrst!“ Teygjubyssur og hvannarrör voru algeng eign Brekkugutta en það leyndist fleira í vösum þeirra. Sterlingspund og annað klink var nauðsynlegt þegar farið var í stikk. Einnig var gott að eiga vasaljós þegar farið var í fjallið eftir að dimma tók. Það var sem sagt margt sem fullbúinn Brekkugutti þurfti að hafa á sér og er hér ekki allt upp talið. Talandi um vopnaburð þá áttu einhverjir eldri strákanna loftriffil og skutu óþarflega nálægt okkur. Hús Fljótamanna Nefstaðir voru fyrst í eigu Jónasar Jónssonar sem var frá samnefndum bæ í Stíflu í Fljótum. Sonur hans, Valtýr og Flóra kona hans, bjuggu þar um tíma. Þeirra sonur Jónas, alltaf kallaður Nóni, vinur minn og bekkjarbróðir. Gunnlaugur, eldri bróðir Jónasar, var leikfélagi Simma og makker í bridds í Gaggó. Nóni fluttist snemma að Túngötu 1 en hélt tryggð við Brekkuna. Kunnugir segja að Valtýr hafi verið besti briddsspilari á Siglufirði, bæði fyrr og síðar, og þótt víðar væri leitað. Einar Páls, félagi í KV, bjó um tíma á Nefstöðum en ég man best eftir honum á Hávegi 3. Horft yfir bryggjurnar frá Brekkunni. Til vinstri, neðan Lindargötu, er steypti veggurinn um garðinn við Hóla með steinkúlunum. Fyrir miðri mynd sér í þakið á gömlu prentsmiðjunni við Suðurgötu en nýja prentsmiðjuhúsið reis 1958. Til hægri sér í endann á Holunni, leiksvæði okkar Brekkugutta. Myndina tók Jónsteinn Jónsson.

x

Fréttabréf Siglfirðingafélagsins í Reykjavík og nágrenni

Direct Links

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Fréttabréf Siglfirðingafélagsins í Reykjavík og nágrenni
https://timarit.is/publication/627

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.