Fréttabréf Siglfirðingafélagsins í Reykjavík og nágrenni - okt. 2020, Side 18
Siglfirðingablaðið18
sukkum upp að öxlum. Við Gummi og Nóni
vorum svo frægir að mynd af okkur birtist á baksíðu
Þjóðviljans er við vorum að stökkva þar síðla vetrar
1961.
Algengt var að krakkar reyndu eitthvað að plampa
á skíðum á Brekkunni. Svo einkennilegt sem það
kann að virðast þá var engin almennileg skíðabrekka
í hverfinu þrátt fyrir Brekkunafnið. Krakkarnir fóru
því oft á Jónstúnið, sem tilheyrði Suðurbænum, til
að renna sér eða í gryfjuna í Reitnum.
Niður brekku reiður rann
Fyrir daga snjóþotunnar voru magasleðar
skemmtileg leiktæki á veturna. Krökkt var af
krökkum að renna sér niður Kirkjugarðsveg.
Vegurinn var brattur sérstaklega efst uppi við Háveg.
Þeir sem fóru alla leið þangað hentust á fleygiferð
niður og þá var hrópað „frá, frá“ þegar farið var
fram hjá krakkaþvögu. Hraðinn var svo mikill að
ekki tókst alltaf að stoppa sleðana við Lindargötuna.
Margir krössuðu á skúr sem var norðan Hóla og
gengu lemstraðir frá. Það var sælt að rifja þennan
tíma upp í sumar er ég hitti Jónas Halldórs og Sverri
Ellefsen, sem bjó á Hverfisgötunni um tíma.
Eitt sinn er faðir minn var á leið heim úr vinnu varð
hann vitni að því að ég hrópaði frekjulega til að reka
krakka frá en þeir svörðu mér fullum hálsi. Ég sagði
þeim að halda kjafti og henti mér á sleðann.
Þegar ég kom heim beið mín þessi vísa sem pabbi
hafði sett saman:
Niður brekku reiður rann,
rauður mjög í framan.
Kjartan kaldi heitir hann
og haltu þér svo saman.
Hættuför í harðfenni
Áður var minnst á fjallið en það var síður en svo
hættulaust að vera þar á ferð, ekki síst fyrir óreynda
krakka. Eitt vorið fóru strákar í leiðangur upp í
Fífladal. Í förinni voru Gummi, Nóni, Stjáni Heiðu,
greinarhöfundur og fleiri. Á bakaleiðinni komum
við að gili sem var að venju fullt af snjó. Okkur
langaði að renna okkur niður en hikuðum því
harðfenni var. Nóni bauðst til að fara fyrst og kanna
leiðina. Hann stoppaði á þúfu og kallaði að allt væri
í lagi. Við stukkum út á hjarnið.
Í fyrstu var gaman en síðan runnum við stjórnlaust
niður, framhjá Nóna og enduðum neðst niðri í grjóti
og urð, allir blóðrisa og rifnir. Ég var með skíðastaf í
hönd og oddurinn á stafnum hafði stungist í annan
fótinn á mér. Ég er enn með ör eftir sárið. Einhverjir
okkar renndu sér á svokölluðum Hansapappa sem
var húðaður öðru meginn og rann vel á honum.
Seinna kom í ljós að Nóni hafði slasast á fæti þótt
hann fyndi ekki fyrir neinu í fyrstu og átti hann
lengi í þeim meiðslum.
Einstakur eljumaður
Hávegurinn var ekki jafnþéttbýll og Hverfisgatan.
Þó bjuggu þar allmargir krakkar á mínu reki. Fyrst
skal nefna Steina Kára góðan leikfélaga og líklega
var hann með okkur í hættuför í harðfenni. Á
Hávegi bjuggu margar skólasystur mínar þær María
Pálsdóttir, Ragna Hannesar, uppeldissystir Steina
Kára, Lilja Guðmunds, Sigrún Steins, og Sólveig
Júll.
Við Háveginn bjó einnig Björgvin Sveinn,
bekkjarbróðir minn og Rúnar, bróðir Lilju, en hann
var skólabróðir Simma.
Ekki er hægt að tala um Háveginn án þess að
minnast á Júlla Gull bakara. Hann var einstakur
eljumaður sem átti fáa sína líka. Hann byggði tvö
stór hús á Háveginum af miklum hagleik samhliða
fullri vinnu í bakaríinu og er ekki allt upp talið af
iðjusemi hans.
Láki á plankanum og kusa Ingibjargar
Einn íbúi á Háveginum hafði skemmtilegt
viðurnefni, Láki á plankanum. Hann var sagður hafa
sagað sig í sjóinn.
Í einu húsi sunnarlega á Háveginum bjuggu
Guðmundur og Ingibjörg og höfðu kú sér til nytja
og seldu einnig mjólk í áskrift. Krakkarnir kölluðu
hana „kusu Ingibjargar“. Guðmundur hafði gert
tún í gróðurlitlum mel í bröttu fjallinu af mikilli
útsjónarsemi, Guðmundartún. Hann fjarlægði grjót
og er sagður hafa notað fiskimjöl sem áburð.
Ég byrjaði yfirreið um Brekkuna í fjárhúsi og því er
við hæfi að enda hana í fjósi.