Fréttabréf Siglfirðingafélagsins í Reykjavík og nágrenni - okt. 2020, Side 24

Fréttabréf Siglfirðingafélagsins í Reykjavík og nágrenni - okt. 2020, Side 24
Siglfirðingablaðið24 á kvikmyndir. Við Jóhanna systir vorum stundum með henni og fórum alveg afskaplega hjá okkur þegar ástarsenur voru en mömmu líkaði þær ekki, hún gaf frá sér vandlætingarhljóð, fussaði og sveiaði. Fjölbreytni mannlífsins Það var alltaf mikið um að vera á vorin og sumrin, og stundum mjög mikið. Á vorin komu Færeyingar til fiskveiða, veiddu aðallega þorsk og söltuðu en ágætis verð fékkst fyrir saltfisk á Spáni. Svo kom nú síldin, reyndar í mismiklum mæli eftir árum. Árið 1938 var t.d. metár á Siglufirði, saltað í 254.000 tunnur og þar af í 29.000 þús. tunnur hjá Ingvari Guðjóns en 338.000 tunnur á landinu öllu. Til er mynd af bæjarbragnum þegar landlega var og með síðari tíma tækni er hægt að telja þar hátt í 20.000 manns. Þá voru 40 verslanir á Siglufirði þar á meðal 3 hattabúðir og ein þeirra með bjöllu sem hringdi þegar gengið var inn og út. Eftir stríð var lífið einkennilegt og algjört brjálæði. Söltunarstöðvarnar voru 22 og verksmiðjurnar sex. Fjörðurinn var fullur af skipum allt frá Neskrók og inn fjörðinn. Norðmenn voru með 220 skip svo eitthvað sé nefnt. Það fylgdi því oft vesen að búa í brakkanum svona nálægt skipunum því ekki voru minni læti þar en í bænum. Við fengum mikið að kenna á því á bryggjunum. Mér fannst hryllilegt þegar slagsmál hófust og mikið fyllerí. Ég þoldi mjög illa slagsmál og fann fyrir kvíða í helvítis látunum og á slæmar minningar um ljótar uppákomur. Pabbi og mamma voru algjörir bindindismenn á vín og tóbak og pabbi var á móti opnun áfengisútsölu í bænum árið 1922. Það kom þó fyrir einu sinni á ævinni að hann reykti vindil og það var í maí 1918 þegar Siglufjörður fékk kaupstaðarréttindi. Það var Guðmundur Björnsson sem bauð honum vindilinn og gaman að geta þess að konan hans hún Rúna var svo sterk að hún gat lyft 90 kílóa síldartunnu! Það var oft fróðlegt og skemmtilegt að fylgjast með síldarkaupendum sem komu víðs vegar að. Frá Rússlandi, Svíþjóð, Finnlandi, Þýskalandi og New York en þar voru Gyðingar aðal viðskiptavinir. Oft gekk illa að halda uppi samræðum við kaupendurna en Freysteinn Þorbergsson, skákmaður og eiginmaður Eddu Þráins, túlkaði stundum fyrir Rússana og Þóroddur Guðmundsson var nokkuð sleipur í því líka. Heimbert Betke (síðar Herbert Pálsson) túlkaði fyrir Þjóðverja. Allir voru hræddir við Finnana þeir voru ágengir og drykkfelldir og boxuðu menn ef eitthvað kom upp á. Flóra mannlífsins var líklega hvergi eins fjölbreytt og á Siglufirði síldaráranna og mér eru minnisstæðir margir sérstakir karakterar. Einn þeirra gekk um götur tautandi: „Helvítis aðkomuhundar sem koma og taka atvinnu frá Siglfirðingum.” Gústi guðsmaður bjó í Antonsbrakka við hliðina á okkur. Hann er minnisstæður fyrir margra hluta sakir og alveg var það ótrúlegt hvað maðurinn gat bölvað! Margir voru áberandi í bæjarlífinu og eru eftirminnilegir en þrátt fyrir stríðni sem viðgekkst og leiðinleg viðurnefni sem menn skemmtu sér við að finna held ég að samkenndin í bænum hafi verið rík. Ég frétti síðar að bæði mamma og pabbi hefðu rétt fram hjálparhönd víða, án þess að hafa um það mörg orð, og ekki átti það síður við um Boggu frænku sem gaf einu sinni sparifötin af Andrési og hæg voru svo heimatökin hjá henni í Skóverslun Andrésar Hafliðasonar, þar fóru ekki allir skór í sölu. Að lokum Við mæðgur sátum dolfallnar yfir því hvað Gulli mundi margt og sögurnar voru mun fleiri en hægt er að skrá hér. Siglfirðingar þreytast samt seint á því að heyra góðar sögur og rifja upp minningar. Þau elstu í þessu kaffi- og spjallboði, 90 ára og 97 ára, voru sammála um að vinnan við síldina hefði ekki bara verið skemmtileg heldur líka mikið puð. En gaf vel af sér. Var það ekki málið? Gulli lauk störfum sem skrifstofumaður hjá Áfengisverslun ríkisins árið 2000 og býr í Garðabæ ásamt konu sinni Vigdísi Jónsdóttur. Hann er duglegur að rækta garðinn sinn í eiginlegri og óeiginlegri merkingu, og oft má sjá hann á sólardögum nostra við fallegan garðinn. „Lífið á Sigló ljúfasti draumur sem finnst.“ (Sig. Ægisson) Bestu þakkir til Gulla fyrir skemmtilega samverustund og upprifjanir. Jóna Möller

x

Fréttabréf Siglfirðingafélagsins í Reykjavík og nágrenni

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Fréttabréf Siglfirðingafélagsins í Reykjavík og nágrenni
https://timarit.is/publication/627

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.