Sjómannablaðið Víkingur

Árgangur

Sjómannablaðið Víkingur - 01.04.2014, Blaðsíða 34

Sjómannablaðið Víkingur - 01.04.2014, Blaðsíða 34
hreinsa til í hylnum sínum eða leika sér þegar hann tekur agn veiðimannsins í kjaftinn. En nú höfum við gleymt okkur og erum við komin langt út fyrir efnið! Eftir að mér varð ljóst að bleikjurnar í hylnum undir klettaveggnum höfðu engan áhuga á að kosta lífi sínu til þess eins að geðjast mér, kvaddi ég þær með virktum og ofurlítilli eftirsjá. Síðan rölti ég af stað niður eftir og veiddi hvern staðinn á fætur öðrum þar til ég var kominn að fallegri breiðu um mitt svæð- ið. Þá sló niður í höfuð mér þeirri hugs- un að ef til vill væri ekki svo galið að kasta af sér vatni. Það var kominn smá- stingur í þvagblöðruna. En ég ýtti þeirri hugsun frá mér, það mátti bíða, þetta var svo veiðilegur staður og varla nema klukkutími eftir af vakt- inni. Einu sinni fannst mér ég sjá tökuvarann kippast aðeins til á yfirborði árinnar en ég var of seinn að bregða við. Hjartað tók kipp og ég færðist allur í aukana. Mér sýndist vera að glaðna til í dalnum og gul sólin að brjótast fram úr skýjunum. Um leið hafði því miður gul fluga brotist fram úr runnanum sínum og fór nú að hringsóla í kringum hausinn á mér. Nú verð ég að viðurkenna að ég er sjúklega hræddur við geitunga. Ég hef aldrei verið stunginn af þeim, sjö-níu-þrettán, en mér finnst þeir ógeðslegir og þegar þeir koma nálægt mér stirðna ég upp og byrja að svitna. Með stuttu millibili kom þetta kvikindi í námunda við mig með frekjulegu suði og ógnandi tilburðum en lét sig síðan hverfa. Ég þerraði svitann af enninu, liðkaði aðeins um stífar axlirnar og byrjaði aftur að kasta. Sólin kastaði geislum sínum yfir breiðuna. Tökuvarinn kom fljótandi niður ána og hvarf síðan inn í ljóshafið andspænis mér. Það var enginn leið að sjá hann. Nú var rifið í agnið en síðan var allt laust. Ég blótaði sól- inni sem aldrei skyldi verið hafa. Ég var kominn í hlandspreng. Sólin hætti að skína. 3. Breiðan blasti við. Ég gat greint hverja gáru á heitasta punktin- um sem áður hafði horfið í sólarljósið. Ég pírði augun og vætti varirnar með tungunni. Ég sá púpna mína dingla niður af stangartoppnum og nema við vatnsflötinn eins og lítið jarðarber sem á að fara í súkkulaðibað. Ég kastaði. Og það var eins og við manninn mælt að þegar tökuvarinn flaut yfir heita reitinn hik- aði hann, dróst síðan ögn andstreymis og ég lyfti stönginni fumlaust á augabragði. Fiskurinn lagðist þungt í strauminn. Ég festi loks í boltafiski en Elvis Presley hafði enn lagt álög sín á mjaðmir mínar. Ég aftur farinn að hnykkja þeim til í djöfulmóð. Ég var alveg að míga á mig! Það var ekki um annað að ræða en að hlaupa upp á bakk- ann, reyna að halda línunni strekktri og pissa. Þegar ég nú bis- aði við að losa niður um mig vöðlurnar með stöngina skorðaða í handarkrikanum, tók bleikjan ægilega roku niður ána svo söng í hjólinu. Ég hoppaði á eftir henni með vöðlurnar hálfar niður um mig, kreppti saman rasskinnarnar og reyndi að berj- ast við þrýstinginn á blöðruna. Átti ég kannski bara að láta vaða þótt mér hefði ekki tekist að ná niður um mig buxunum og brókinni? Og það var þá sem geitungurinn kom aftur. Lætin í mér virtust æsa hann upp. Kannski leit hann á þetta sem árás og ætlaði að verja hinstu kröftum sínum í að drepa þessa boðflennu á bakkanum. Hann hafði nákvæmlega engu að tapa, það var komið haust og hlutverki hans lokið. Ég ríghélt um stöngina og reyndi að losa um bremsuna á hjólinu. Geit- ung-urinn flaug eins og orrustuþota - árásarþyrla í kringum mig með ógurlegu suði sem minnti helst á hljóðin í gamalli garðsláttuvél. Loks settist hann á handarbakið á mér og ég fraus. Svitinn spratt fram á enninu og það kom hvellt hljóð þegar línan brast eins og gamall gítarstrengur. Geitungurinn spígsporaði um handarbakið á mér, eins og hann væri að leita að hentugum stað til að stinga, neri síðan saman afturfótunum og flaug syngjandi aftur inn í runnann sinn – án þess að gera mér nokkuð illt. Já, ég hef aldrei verið stunginn af geit- ungi, sjö-níu-þrettán, en þetta var trú- lega það sem ég hef komist næst því. Eða það fannst mér. Klukkan var farin að ganga tvö: Bleikjan var farin, geitungurinn var far- inn, vaktin var búin. En það var fleira farið en bleikjan og geitungurinn. Hlandsprengurinn var horfinn. Stíflan hafði brostið. Í fyrsta skiptið í mörg mörg ár hafði ég pissað á mig. Það var þó huggun harmi gegn að ég meig ekki á mig úr hræðslu heldur var það afleiðing hetjulegrar baráttu um að ná fallegri sjóbleikju sem síðan slapp. Líklega allt bölvuðum en að því er virtist sauð meinlausum geitungnum að kenna og kannski sólinni, blessaðri sólinni sem allt með kossi vekur. Amen. Horft frá hylnum sem var pakkaður af bleikju.

x

Sjómannablaðið Víkingur

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Sjómannablaðið Víkingur
https://timarit.is/publication/335

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.