Skessuhorn


Skessuhorn - 21.09.2022, Page 23

Skessuhorn - 21.09.2022, Page 23
MIÐVIKUDAGUR 21. SEPTEMBER 2022 23 Særún Lísa Birgisdóttir er að gefa út bókina Hættið þessu fikti strákar! Bókin fjallar um homma á Íslandi allt frá tímum Íslendinga­ sagnanna og fram til eftirstríðs­ áranna og byggir hún á bæði BA­ og MA­ ritgerðum Lísu í þjóð­ fræði en Lísa kláraði meistaranám sitt við HÍ árið 2014. Þessa dagana stendur Lísa fyrir söfnun á Karol­ ina Fund þar sem hún safnar fyrir prentkostnaði, þegar hefur safnast rúmlega helmingur af markmiðinu en söfnun lýkur 3. október næst­ komandi. „Ég ákvað þá bara að skrá mig í háskóla” Særún Lísa, alltaf kölluð Lísa, er alin upp í Reykholti í Borgarfirði. Pabbi hennar er Birgir Pálsson frá Álftártungu á Mýrum og ættu flestir að þekkja hann sem Bigga Páls, bílstjóra en hann keyrði olíu­ bíl í rúm 40 ár. Mamma Lísu var Steinunn Geirsdóttir, fædd og uppalin í Borgar nesi. Lísa gekk í grunnskólann á Kleppjárns­ reykjum og fór þaðan í Mennta­ skólann á Laugarvatni. Lísa fór þá að vinna en slysaðist svo í háskóla­ nám í þjóðfræði þegar hún var 43 ára. „Ég missti vinnuna í hruninu 2008, þá var ég að vinna sem inn­ anhússhönnuður og fyrirtækið sem ég vann hjá lokaði. Það var mikið sjokk en ég ákvað þá bara að skrá mig í háskóla og fór að skoða mig um og leita að því sem mig lang­ aði að læra. Ég hafði áður verið að spá í mannfræði en fór svo að skoða aðrar námsgreinar inni á heima­ síðu háskólans og þá sá ég þjóðfræði þar og fannst námslýsingin bara spennandi. Þetta er ótrúlega áhuga­ vert nám, þetta er mjög vítt fræða­ svið og tekur á mörgu þannig að ég mæli með þjóðfræði!“ segir Lísa. Það var fullt af strákum í Ástandinu Hættið þessu fikti strákar! er fyrsta bók Lísu og er hún byggð á rannsóknarefni hennar í gegnum BA­ og MA­ námið í þjóðfræði. Aðspurð segir hún að þetta rann­ sóknarefni hafi óvart komið til hennar. „Þegar ég var í BA­náminu tók ég námskeið sem heitir Söfnun þjóðfræða þar sem við áttum að gera stutt verkefni og æfa okkur að taka viðtöl. Einn nemandinn valdi að fjalla um stefnumótamenningu á Íslandi og ég hugsaði þá með mér hvernig ætli stefnumótamenning sé hjá samkynhneigðu fólki?“ Til þess að svara þeirri spurningu tók Lísa í framhaldinu viðtöl við nokkra samkynhneigða menn á Íslandi og í einu viðtalinu benti viðmælandinn Lísu á að það hafi líka verið fullt af strákum í Ástandinu á hernáms­ árunum, líkt og stelpur. Hann viti þó ekki mikið meira um það. Lísa ákveður þá í samráði við leiðbein­ andann sinn að skoða það betur, þ.e. homma á hernámsárunum á Íslandi og varð það að BA­ritgerðar efni Lísu. „BA ritgerðin mín ber heitið „Hættið þessu fikti strákar“ og það er kvót úr einni sögunni sem ég fékk að heyra. Ég fékk frábæran heimildarmann sem var sjálfur í Ástandinu, Þóri Björnsson heitinn, en hann lést fyrir tveimur árum. Hann var mjög opinn með þetta allt saman og vildi segja mér frá. Frá honum fékk ég líka aðgang að öðrum mönnum, vinum hans, sem sumir hverjir komu ekki einu sinni út úr skápnum en þeir vildu tala við mig nafnlaust, í gegnum Þóri svo það kæmist ekki upp um þá.“ Skrifaði bókina á þremur vikum BA­ritgerð Lísu var því um þetta ákveðna tímabil, hernámsárin, en í meistararitgerðinni tók hún fyrir lengra tímabil. „Ég fór þá aftur í Íslendingasögurnar og var að skoða viðhorfin til samkynhneigðar í gegnum söguna á Íslandi. Ég ákvað svo að skrifa bókina og nota í hana efni úr báðum ritgerðunum, mér finnst bara tími til kominn að fólk viti af þessu,“ segir Lísa en hún hefur haldið marga fyrirlestra um þetta rannsóknarefni og verið beðin um að tala á ráðstefnum og segir hún marga hafa komið að máli við sig og spurt hvenær hún ætli svo að gefa út bók. „Ég ætlaði aldrei að skrifa bók um þetta en svo í vor þegar ég fór í sumarfrí þá ákvað ég þetta bara. Ég settist niður og byrj­ aði að skrifa. Svo skrifaði ég bara bókina á þremur vikum.“ Þetta er bók sem á að sjást Lísa segir það í raun hafa verið frekar auðvelt verk að skrifa bók­ ina því hún var komin með svo mikið efni eftir rannsóknir sínar í þjóðfræðináminu. Hún ákvað hins vegar að gera bókina ekki fræði­ lega, líkt og ritgerðir hennar voru, heldur gera hana frekar auðlesna. Bókin er kaflaskipt og er hver kafli nokkuð sjálfstæður og skipt­ ast þeir í tímabil. Lísa segir fyrsta kaflann í raun vera um Íslendinga­ sögurnar og birtingarmynd homma í þeim. Svo er tekið fyrir þjóð­ sagnatímabil þegar þjóðsögunum var öllum safnað og bókin endar á hernáms­ og eftirstríðsárunum. „Ég ákvað að enda á eftirstríðsár­ unum því það eru svo margir búnir að rannsaka árin þar á eftir, frá ca 1950 og til dagsins í dag. Ég fjalla bara um þetta gamla sem var aldrei sagt og aldrei var talað um,“ segir Lísa og bætir við. „Þetta er svona „coffee table“ bók. Hún er rosa­ lega falleg og vel hönnuð og þetta er bók sem á að sjást,“ segir Lísa en bókin er myndskreytt af Írisi Auði Jónsdóttur og hönnuð af Ingi­ björgu Oddsdóttur. Bókin er litrík og falleg og segir Lísa að allir eigi að taka eftir henni, hún eigi að vera til sýnis og sjást. „Ég er að draga gömlu hommana fram í dagsljósið og út úr skápnum. Allir hommarnir sem voru til en fengu engan sess í sögunni, þeir fá núna uppreist æru. Það er pælingin. Þannig að bókin á að vera litrík og allir eiga að taka eftir henni, hún á að vera á borði þar sem allir sjá hana og hún á ekki heima inni í skáp,“ segir Lísa. Heimildir um homma á 18. öld Í Íslendingasögunum og þjóð­ sögum er ekki að finna beinar heimildir fyrir samkynhneigð og verður því að lesa á milli línanna og túlka út frá því. Elstu heimildirnar sem Lísa komst yfir, um homma, eru frá síðari hluta 18. aldar. Þær heimildir eru í Eldriti sem séra Jón Steingrímsson ritaði en Jón var jafnan kallaður Eldklerkur. „Í ritinu segir að þegar Skaftáreldar geisuðu hafi fyrsti bærinn sem fór undir hraun verið bærinn Geirland. Prestur­ inn ritar að á Geirlandi hafi tveir menn farið gegn eðli sínu og búið saman og Skaftáreldar séu Guðs leið til þess að slíta þá í sundur, eða slíta sambandi þeirra. Ég fór svo og skoðaði kirkjubækur og aðrar heimildir til að athuga hvort þessir menn hafi verið til í alvörunni, því þeir eru nafngreindir í ritinu, og ég fékk staðfestingu á því. En það var svolítið merkilegt að sjá að eftir að bærinn þeirra varð undir í Skaftár­ eldum þá giftast mennirnir og stofna fjölskyldu,“ segir Lísa. Söfnun upp á allt eða ekkert Lísa ákvað að fara ekki með bók­ ina sína í gegnum forlögin en leit­ aði til Bókasamlagsins eftir aðstoð og handleiðslu. Bókasamlagið er bókabúð, kaffihús og útgáfufyrir­ tæki sem aðstoðar höfunda og fólk sem langar að skrifa bók og gera það sjálfstætt. „Konurnar í Bóka­ samlaginu gripu mig eiginlega. Þær aðstoðuðu mig mikið og hjá þeim fékk ég til dæmis ritstjóra,“ segir Lísa en hún stendur nú fyrir söfnun á Karolina Fund til þess að safna fyrir prentkostnaði bókarinnar sem verður prentuð í Litháen. „Ég ákvað að fara þessa leið og gera þetta sjálf en fara ekki í gegnum forlögin af því ég vil ráða yfir bókinni minni. Ef þú ferð í forlögin þá ertu ekki með fulla stjórn á því hvernig allt verður og ég vildi því frekar gera þetta ein. Prentunin er samt rosalega dýr og þess vegna ákvað ég að prófa að skrá bókina á Karolina fund,“ segir Lísa, en hvernig virkar það fyrir sig? „Þetta er svona allt eða ekk­ ert söfnun, ég set bara inn ákveðna upphæð sem mig vantar og ef hún næst ekki fyrir ákveðinn tíma, sem í mínu tilviki er 3. október, þá fá allir endurgreitt sem voru þegar búnir að styrkja og verkefnið fellur í raun um sjálft sig,“ segir Lísa en þeir sem ákveða að styrkja söfnunina geta sett inn upphæð að eigin vali sem er þá hreinn og klár styrkur eða valið um nokkra uppgefna valmöguleika. Til að mynda er hægt að styrkja um 25 evrur og fá þá að launum tvær eftir­ prentanir af myndum úr bókinni. Sé styrkt um 75 evrur fæst að launum áritað eintak af bókinni auk eftir­ prentunar af mynd úr bókinni og boð í útgáfuhóf þegar bókin kemur út. Fjöldi annarra valmöguleika er einnig í boði. Bókin verður svo fáanleg í öllum helstu bókabúðum þegar hún kemur út auk þess sem hún verður seld á Amazon í enskri þýðingu. gbþ „Ég er að draga gömlu hommana fram í dagsljósið og út úr skápnum“ Rætt við Særúnu Lísu sem hóf söfnun fyrir útgáfukostnaði bókar sinnar Hér leiðir Lísa sögugöngu hjá Borgarsögusafni Reykjavíkur. Myndlistarkonan Íris Auður Jónsdóttir myndskreytir bókina. Bókin er myndræn og litrík. Lísa ásamt hundi sínum í hjólhýsi uppi í Norðurárdal. Hún skrifaði hálfa bókina þar. Hægt er að nota þennan QR kóða til að komast með auðveldum hætti inn á Karolina Fund.

x

Skessuhorn

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Skessuhorn
https://timarit.is/publication/1096

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.