Fréttablaðið - 24.11.2022, Blaðsíða 19
„Maður upplifir sig bara sem vonda
karlinn, það er bara þannig.“
Þetta er tilvitnun í Daða Hjálm-
arsson, útgerðarstjóra KG Fisk-
verkunar, sem einnig situr í stjórn
Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi.
Tilefnið er frásögn Fréttablaðsins
fyrir viku af nýrri rannsókn
Kristjáns Vigfússonar kennara
við Háskólann í Reykjavík á við-
horfi stjórnenda í sjávarútvegi til
starfsumhverfis greinarinnar.
Óvissa
Kristján segir að skortur á fram-
tíðarsýn stjórnvalda skapi mikla
óvissu og sé að mati stjórnenda
fyrirstaða, sem valdi áhættu í fjár-
festingum og uppbyggingu og bitni
á samkeppnishæfni greinarinnar.
Rannsóknin sýnir að hávær
og neikvæð pólitísk umræða um
sjávarútveg hafi mikil áhrif. Ein
ástæða kvótasamþjöppunar er
óvissa sem skapast í kringum
kosningar. Sumir minni aðilar selji
þá aflahlutdeildina.
Kristján Vigfússon segir: „Það
sem kom mér kannski mest á óvart
var hversu mikill tími og orka fer
í það hjá æðstu stjórnendum að
takast á við stjórnvöld og bregðast
við almennri pólitískri umræðu
um greinina í fjölmiðlum.
Einnig finnst mér áhugavert
hvernig skortur á framtíðarsýn
stjórnvalda og getuleysi til að ná
sáttum um sjávarútveginn hefur
áhrif á greinina og viðheldur
sífelldum átökum, sem ekki sér
fyrir endann á.“
Óheilbrigt
Erfitt er að draga í efa að góðir
stjórnendur í sjávarútvegi upplifi
sjálfa sig í eins konar álagaham
vonda karlsins. Slík upplifun er
vissulega til marks um óheilbrigt
ástand.
Að svo miklu leyti sem draga má
ályktanir af skoðanakönnunum
virðist meirihluti þjóðarinnar
hins vegar líta svo á að stjórn-
endur í sjávarútvegi hafi ekki lagt
sitt af mörkum til þess að losna úr
þessum álögum.
Stjórnendur sjávarútvegsfyrir-
tækjanna hafa hins vegar rétt fyrir
sér með óvissuna. Samkvæmt
gildandi löggjöf er unnt að aftur-
kalla alla úthlutun aflahlutdeilda
án fyrirvara. Greinin hefur þannig
lítið lagalegt öryggi.
Engin ríkisstjórn hefur beitt
þessu valdi í óhófi. En margar
ríkisstjórnir bæði til hægri og
vinstri hafa þó flutt verulegar
aflaheimildir frá útgerðum í afla-
hlutdeildarkerfinu til smábáta.
Núverandi ríkisstjórn áformar
stærsta tilflutning af því tagi til að
auka pólitískt réttlæti einmitt rétt
fyrir næstu kosningar.
Pólitískt öryggi
Árið 2000 lagði auðlindanefndin
til að óvissunni, sem útgerðar-
menn kvarta réttilega yfir, yrði
eytt með tímabundnum nýtingar-
samningum, sem nytu réttar-
verndar sem óbein eignaréttindi.
Á móti kæmi sanngjarnt auðlinda-
gjald.
Þegar frá leið höfnuðu stjórn-
endur sjávarútvegsfyrirtækja laga-
legu öryggi af því tagi. Þeir kusu að
halda lagalegri óvissu en ákváðu
að verja öryggið sjálfir í gegnum
pólitísk sambönd.
Það hefur gengið sæmilega,
þó að hlutur smábáta hafi smám
saman verið aukinn. En það tekur
mikla orku og tíma.
Skiljanlegt er að stórhuga áform
sjávarútvegsráðherra um meiri
pólitískan tilflutning virki sem ný
ógn.
En þetta er leið sem atvinnu-
greinin kaus. Pólitískt öryggi er
minna en lagalegt öryggi. Lagalegt
öryggi er dýrara en það pólitíska.
Þetta er veruleiki, sem allir þurfa
að horfast í augu við.
Markaðslausn
Þó að samstaða væri í auðlinda-
nefndinni um að eyða óvissunni
og tryggja lagalegt öryggi aflahlut-
deildarkerfisins var ágreiningur
um hvort finna ætti sanngjarnt
auðlindagjald með pólitískri
álagningu eða eftir fyrningarleið.
Formaður nefndarinnar,
Jóhannes Nordal, hefur nú sent frá
sér einstakt öndvegisrit um efna-
hagssögu Íslands á tuttugustu öld
undir heitinu: Lifað með öldinni.
Þar segist hann eindregið hafa
verið þeirrar skoðunar að fyrning-
arleið hefði verið sanngjarnari og
líklegri til að ná sátt þegar til lengri
tíma væri litið.
Skilaboð hans til 21. aldarinnar
eru þessi: „Þótt fyrningarleiðinni
hafi verið hafnað tel ég nauðsyn-
legt að halda áfram að leita nýrrar
leiðar til að byggja álagningu
veiðigjalda á markaðslegu mati
á virði auðlindarentunnar í stað
þess að þau þróist í að verða ein-
hvers konar viðbótartekjuskattur
á útgerðina.“
Töfrasprotinn
Það er brýnt að losa stjórnendur
fyrirtækja í sjávarútvegi úr álaga-
ham vonda karlsins. Jóhannes
Nordal, höfuðsmiður frjálslyndrar
efnahagsstefnu á Íslandi, er með
töfrasprotann.
En hann nær ekki til þeirra, sem
kjósa að vera ósnertanlegir.
Það er ekki unnt að kæfa frjáls-
lynda stjórnmálaumræðu um
markaðslausnir og langtíma
lagalegt öryggi í svo mikilvægri
atvinnugrein. n
Þorsteinn
Pálsson
n Af Kögunarhóli
Í álögum
FIMMTUDAGUR 24. nóvember 2022 Skoðun 19Fréttablaðið