Verktækni - 2020, Page 27

Verktækni - 2020, Page 27
27 Ferðatími, hlutfall tafa af ferðatíma Auk þess að fylgjast með heildarferðatíma ferðalanga í kerfinu er einnig mikilvægt að fylgjast með hlutfalli tafa af ferðatíma. Þó niðurstöður fræðimanna bendi til minni líkinda á því að hægt sé að nýta ferðatímann til vinnu má þó vera að sú verði ekki raunin (Kyriakidis et al, 2015; Schoettle & Sivak, 2014; Correia et al., 2019). Því gæti þol gegn lengri ferðatíma aukist með tilheyrandi áhrifum á tafatíma í kerfinu að öðru óbreyttu. Hlutfall vöruflutninga Talið er að eftirspurn eftir vöruflutningum muni snaraukast. Það er því verðugt verkefni að fylgjast með því hvort ökutæki fari ferðir til vöruflutninga eða til persónuflutninga og slíkt sé einnig skoðað eftir tíma dags. Þetta gæti gefið góða innsýn inn í það hvernig mætti stýra umferðarflæðinu á sem bestan máta háð eftirspurn á hverjum tíma fyrir sig. Fjöldi einstaklinga á ökutæki og ferð Flæðigeta samgöngukerfis er gjarnan reiknuð sem fjöldi ökutækja á klukkustund. Samfélagslegur ávinningur felst þó í því að hámarka fjölda fólks og vara á klukkustund, en ekki fjölda ökutækja. Þá mætti vigta styttri ferðir sem betri en lengri ferðir. Fylgast ætti því með hlutfalli ferða sem farnar eru í samfloti og meðaltali einstaklinga á ökutæki (e. Occupancy rate), sérstaklega ef gjaldtaka veggjalda yrði slíkum mælistikum háð. 5.3. Framkvæmd rannsóknarinnar 561 einstaklingur búsettur á Íslandi tók þátt í rannsókninni og fyllti út spurninglistann. Sjá má af samanburði lýðfræðilega stærða úrtaksins og íbúa á Íslandi að svörun er góð en hallar á kvenkyns, unga (16-19 ára), aldraða (80+), lítið menntaðra, bíllausa og ökuskírteinislausa. Svarendur bjuggu almennt á heimilum með hærri meðaltekjur, staðsettum á höfuðborgarsvæðinu. Rannsókninni var dreift meðal almennings, en ekki á markvissan hátt eftir slembiúrtaki eða dæmigerðu úrtaki. Var þetta gert vegna þess að ekkert fjármagn var ætlað í dreifingu rannsóknarinnar. Næst þegar þessi eða sambærileg rannsókn er framkvæmd skal huga að því að fá eins dæmigert úrtak og völ er á. Þar sem úrtakið er ekki dæmigert, leiðir slíkt til þess að svör geta verið bjöguð, eins og t.d. að hærri tekjur úrtaks kunni að leiða til bjagaðra niðurstaða m.t.t. trausts á viðskiptum gagna (sjá niðurstöðukafla „Gagnaöryggi“. Einnig gefa niðurstöður þær sem greint er frá í þessari grein ekki kost á því að framkvæma tölfræðigreiningu eða skoða marktækni svaranna. Slíkt er vissulega hægt með greiningu á strjálum vallíkönum sem byggð eru á marktækni hvers stika líkt og framkvæmt var af Etzioni og félögum (2020). Slíkar rannsóknir auk tölfræðilegrar greiningar á fylgni milli einstakra þátta og viðhorfa mætti framkvæma í frekari rannsóknum, 5.4. Frekari rannsóknir Auk rannsókna á mælistikunum hér að ofan má áætla að greining niðurstaðna strjála vallíkansins væri afar áhugaverð líkt og Etzioni et al. hafa sýnt (2020). Greina mætti niðurstöðurnar betur til að skilja frekar hvaða lýðfræðilegu þættir hafa helst til áhrif á ferðahegðun. Þetta mætti skoða með því að bæta við ferðadagbókum í gagnasöfnun tengdu manntali Hagstofunnar hverju sinni líkt og hefur verið gert í Sviss (Weis et al., 2020).

x

Verktækni

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Verktækni
https://timarit.is/publication/957

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.