Morgunblaðið - 21.12.2022, Side 33
MENNING 33
MORGUNBLAÐIÐ MIÐVIKUDAGUR 21. DESEMBER 2022
Föstudagur 19. október 2012
Vakning laust fyrir klukkan sjö
og alskírt veður, nætursvali enn í
lofti og af veröndinni okkar blasir
við Annapurna South, meira en
sjö kílómetra hár tindur. Þessi
fjöll eru yfirþyrmandi. Ef eilífð
er til þá hlutgerist hún í þessum
himingnæfu tindum sem eiga
ekki sína líka í veröld allri. Hafi
tíminn tyllt fæti sínum niður á
jörðina þá eru fótspor hans uppi
á Machapuchare (6.993 m) þar
sem enginn maður hefur komið
því að þar búa guðirnir. Enginn
má trufla máttarvöldin á heimili
þeirra með skyndilegri nærveru
sinni að erindislausu. Þess vegna
hefur enginn maður séð fót-
spor tímans,
nema kannski
guðirnir ef
þeir hengja út
þvottinn sinn
þegar sólin
skín. Allt er
þetta rökrétt
samkvæmt
goðsögnum
hindúa. Kon-
ungur missti sonu sína og hét á
gyðjuna Ganga að lífga þá. Hún
var að vísu ekki nærstödd þótt
hún væri dóttir Himalaya, hún
var miklum mun hærra sett en
á efstu tindum, hún var á himni,
sjálf Vetrarbrautin. Hún var til í
tuskið eftir að Síva féllst á að hún
kæmi til jarðar um höfuð hans á
hæstu tindum Himalaya. Svo varð
og hún birtist sem vindsveipur
af himni en fellur nú sem Ganges
gegnum hárlokka guðsins niður
til Indlands og um síðir í Bengal-
flóa, safnar í sig ótal vötnum og
er háheilög, tákn um frjósemi,
líf og endurfæðingu; krókódíll er
fararskjóti Ganga. Ég trúi því að
Síva hafi verið í þvottastússi á
Machapuchare þegar sjálf Vetrar-
brautin helltist yfir hann eins og
foss; það fylgir sögunni að Ganga
varð ein eiginkvenna Síva og
endurfæddist sem Parvati, næsta
eiginkona guðsins sem einnig var
dóttir Himalaya. Guðirnir óskuðu
sér þess að Síva eignaðist son
með Parvati því þeir sáu fyrir sér
að sá drengur yrði með tímanum
herforingi í óumflýjanlegu stríði
við djöfla. Síva var ekkert gefinn
fyrir fjölskyldulíf og vildi ekki
eignast börn eins og var heitasta
ósk Parvati en lét þó til leiðast en
ekkert gekk þrátt fyrir sífellda
tilburði. Af kænsku sinni sendu
guðirnir þeim hjónum eldguðinn
Agni sem breytti sér í páfagauk
og einhvern tíma þegar þau
elskuðust kom páfagaukurinn og
honum tókst að ná sæði Síva og
kom því fyrir í Gangesfljóti og um
síðir óx af því sex höfða drengur
svo ekki hefur hann vantað vitið;
þetta varð guðinn Skanda.
En Parvati lét ekki deigan
síga og nauðaði í Síva. Einhvern
tímann þegar hann var að fara
í ferðalag gaf hann henni rauð-
an klæðisbút og sagði henni að
búa til barn. Sem hún gerði og
kannski er sonurinn Ganesa oft
sýndur rauðbleikur vegna þessa
uppruna síns. En þegar Síva
kom heim klappaði hann á koll
drengsins og vildi þá ekki betur
til en svo að höfuðið féll af. Var
nú öllum brugðið en Síva sendi
Nandi, nautið sem var fararskjóti
hans, til þess að finna nýtt höfuð
á barnið. Hann birtist innan tíðar
með höfuð af Airavata, hvítum fíl
sem hafði verið burðardýr Indra,
eins af gömlu guðunum. Þess
vegna er Ganesa með fílshöfuð og
auðþekktur í myndlist; rétt eins
og Síva sem oft er með þrífork
auk þess sem hann hefur þrjú
augu, eitt í miðju enni. Sér jafnvel
með sínum þremur augum og
Óðinn sínu eina.
Efsti hluti Annapurna South
er baðaður í sólskini sem hægt
og bítandi þokast niður hlíðina,
hvít slæða ofan á hvítt, svart
og blátt og minnir mig á jarm-
andi safn sauðfjár þokast niður
gránuð fjöll heima undir haust
og sláturtíð. En hér getur maður
ekkert gert annað en sest niður
til að horfa hugfanginn á hvíta
og svarta þögnina sem er hjúpuð
um þessa tinda. Það er logn hér
en skafrenningur þarna uppi,
hvítir sveipir hvirflast upp í
loftið. Tindurinn er eins og hvít
margsprungin skel og ég undr-
ast hvaða dirfska það er sem
býr í kolli manna sem ögra sér
og máttarvöldunum með því að
hætta sér upp í fimbulkuldann og
eiga ævinlega hrun yfirvofandi
og þurfa að hanga í gaddfrosti
og næðingi utan í ægibröttum
hlíðum til að njóta hvíldar. Eins
gott þeir þurfi ekki að pissa oft á
næturnar!
Einn gestur er hér í Tolka auk
okkar, 84 ára kanadísk kona með
nepölskum fylgdarmanni sem
einnig ber föggur þeirra. „Enginn
nennti með mér“ sagði sú gamla,
„svo ég varð að fara ein.“ Um það
bil sem við settumst að morgun-
verðarborði röltu þau af stað og
fylgdarmaðurinn leiddi gömlu
konuna umhyggjusamlega; hún
gekk við staf og var með þykka
ullarvettlinga á höndum, þó ekki
tvíþumlaða.
Við fengum prýðilegt tíbetskt
soðbrauð með sultu eða hun-
angi og harðsoðið egg og ómælt
te í morgunmat; reyndin sýndi
að þetta er nokkuð klassískur
fjallamorgunverður, sums staðar
að viðbættum hafragraut eða
stórri pönnuköku nokkuð þykkri.
Bak við húsið baulaði kýrin,
líklega málþola þar sem hún stóð
tjóðruð við hæl; kýr eru svo um-
komulausar á mjöltum ef enginn
vitjar þeirra. Annars táknar
kýr hér velsæld eins og forðum
daga heima í Skagafirði. Blessuð
skepnan, sögðu gamlar konur
um kúna og víst eru nautgripir
miklum mun blessaðri hér en
heima. Að áti loknu öxluðum við
okkar skinn, léttan bakpoka með
daglegum nauðsynjum og lögðum
af stað eftir að konurnar höfðu
skannað betur glingrið hjá gömlu
konunni sem var mætt á vaktina.
Leiðin var upp og niður eins og
verða vill í fjöllóttu landi, dalir
þröngir og við heyrum árnið. Hér
fellur jökulsá á leið sinni niður
á láglendið, Modi Khola heitir
hún og minnir á Kolku fremur en
Héraðsvötn. Í skógarbotni þekki
ég bara burkna og brenninetlu
sem glitra af döggfallinu. Ban-
anatré vaxa við veginn, auk þess
tré með gulum ávexti sem ég hef
ekki grænan grun um hvað heitir
en grænar límónur á tré þekki
ég hins vegar mætavel. Leiðin
er brött með köflum en sem fyrr
létta gönguna listilega hlaðnar
tröppur sem jafna fótaburðinn.
Hengibrýr eru víða yfir gil og jök-
ulsár. Gildir vírar, svo sem eins og
unglingshandleggur að sverleika,
eru tryggilega festir við akkeri
á hvorum enda, brúarpallurinn
er síðan borinn uppi af steypu-
styrktarjárni sem er vafið um
vírana og fest undir gólfið nokkuð
þétt en það er úr plönkum eða
járnplötum. Þessar brýr rugga
undir gangandi manni svo best
er að taka stutt skref til að halda
jafnvægi.
Við borðuðum góðan hádegis-
verð á Namaste hotel en
,namaste‘ er nepalska og þýðir
góðan dag. Nepalar heilsa fallega,
leggja saman lófa fyrir framan
og neðan höku, lúta ögn höfði og
bjóða namaste! Nokkrir burðar-
menn voru okkur samferða frá
hótelinu en stígurinn upp þaðan
er býsna brattur. Tveir þeirra
voru með átta kassa af bjór og
gosdrykkjum, sína fjóra kassana
hvor í sérstakri grind en eftir
sem áður í snæri og með linda
fram yfir enni. Sá þriðji var með
dýnur í nokkur rúm og líktist
Atlasi með himin á herðum sér
og aftanfrá séður var hann eins
og risavaxinn sveppur á túni og
niður úr hattinum stóðu tveir
mjóir fótleggir. Við sáum engin
burðardýr á ferli en tað á vegi
benti til þess að hér færu um
asnar og múldýr en býsna bratt
mega þau ganga sums staðar þar
sem tröppurnar nálgast mest lóð-
rétta ásinn. Burðarmenn gegna
hér sama hlutverki og Land-
flutningar og Flytjandi heima,
að viðbættum Póstinum og DHL.
Að vísu eru vegir nú víðar en
fyrir fáum áratugum og teygjast
hærra upp. Ei að síður eru vöðvar
manna og dýra burðaraflið í
öllum flutningum. Afar víða eru
hvíldarstallar við götur, hlaðnir af
mikilli nákvæmni og reglufestu og
í þá hæð að burðarmaður getur
lagt byrði frá sér þannig að hann
gengur að henni uppréttur og
bregður linda aftur á enni. Þessir
hvíldarstaðir standa býsna þétt
og skýrist meðal annars af því að
margir hafa gefið fé til að hlaða
þá, sér til heilla í framhaldslífi
eða í þakkarskyni fyrir meintan
velgerning guðanna. Að sínu
leyti svara þessir hvíldarstaðir
til útskota á þjóðvegi 1 heima þar
sem bílstjórar geta lagt vagni
sínum og hvílst eins og lög bjóða
þeim. Líklega er langt þangað til
Nepalbúar samþykkja lög um lág-
markshvíldartíma á sólarhring!
Gististaðurinn okkar í nótt
heitir Himalaya View í þorpinu
Chomrong og er svo sem ekki
frumlegt nafn á þessum slóðum;
hreinlegur staður í 2.170 m hæð.
Við tókum nokkrar léttar jóga-
teygjur undir stjórn Kristínar og
Sigrúnar og vissulega er það svo
að sinar í fólki eru misteygjan-
legar. Ekki mjög strekkjanlegar
í mér enda sat ég mestanpart
og fylgdist með og verkjaði í
skrokkinn þegar hinir liðugustu
tóku sig til; undarlega sveigjanleg
liðamót í sumu fólki sem virðist
alveg sinalaust líka. Víst var svo
prýðilegt að fá grenjandi skúr eft-
ir að við vorum komin undir þak.
Jörðin breytir um ilm eftir slíka
vökvun en hér eru útsprungin
blóm í október í sömu hæð og
Hvannadalshnjúkur heima! Loftið
er hreint eftir rigningu, mannleg
móska dagsins í bland við nátt-
úrlegt ryk og frjókorn leggst á
kodda jarðarinnar en sokkaplögg
úti á snúru eru rennvot. Klemma
er um sokkfitina og kvöldsólin
gyllir hvern dropa sem fellur til
jarðar úr tánum.
Ég sofnaði snemma og mikil var
stjörnudýrðin sem ég mændi á
meðan ég pissaði bak við runna í
næturkulinu og skalf eins hunds-
rófa í flugeldadýrð á gamlaárs-
kvöldi.
Bókarkafli Í október
2012 hélt sextán
manna hópur til
Nepals að ganga á
fjöll í Nepal. Í hópn-
um var Sölvi Sveins-
son sem segir sögu
ferðarinnar í bókinni
Eilífð í sjónmáli.
Eilífðin í himingnæfum tindum
Ljósmynd/Jóhannes K. Sólmundsson
Ævintýraferð Ferðalangarnir
á hengibrú yfir Modi Khola.