Borgfirðingabók - 01.12.2008, Page 44
44 Borgfirðingabók 2008
Selkjöt gátum við fengið
eins og hægt var að nýta og það
kostaði ekki neitt. Börnunum
líkaði selkjötið og muna hvað
það var gott. Við áttum líka
fimmtíu hænur, sem verptu
ágætlega. Við gátum lagt inn í
K.A.S.K. (Kaupfélag Austur-
Skaftfellinga) smjör og egg,
en kaupfélagið auglýsti að
hjá því væri hægt að leggja
inn allar ,,landbúnaðarvörur“.
Ég fór því full bjartsýni með smjör og egg til Hafnar. Ég tilkynnti
afgreiðslumanninum að ég væri með smjör og egg til innleggs. Hann
sagði mér að þeir hefðu nóg af eggjum og tækju ekki við þeim. Ég
finn enn hvað ég reiddist ofsalega. Ég bókstaflega gaus. Ég stóð þarna
við búðarborðið og það voru þó nokkrir sem hlustuðu á samtalið.
Afgreiðslumaðurinn talaði á lágum nótum, en það gerði ég ekki. Ég
sagði honum hiklaust að þar sem þeir auglýstu að þeir tækju allar
landbúnaðarafurðir og ætluðu nú að hafna því sem ég vildi leggja
inn skyldu þeir strika út allar skuldir sem á okkar nafni stæðu. Ég
ætlaði ekki að hafa áhyggjur af þeim. Eftir þetta var aldrei neitað að
taka á móti þeim afurðum sem við gátum framleitt. Þarna var stödd
öldruð kona sem ég þekkti ekki þá. Hún tók í höndina á mér og sagði:
,,Komdu nú heim með mér og fáum okkur kaffi.“
Við fengum ágæta uppskeru af kartöflum og gulrófum um haustið.
Að vísu hljóp blessuð Kvíslin yfir rófugarðinn svo hann fór á kaf, en
það kom alls ekki að sök.
Ég gleymdi að segja frá honum Ingibergi. Hann hafði verið
þarna hjá fyrri ábúendum og vistaðist svo hjá okkur. Öll hans gæði
og hjálpsemi verður seint þökkuð. Þeir gátu farið á vetrarvertíð til
skiptis, hann og Trausti. Það var mjög hagstætt fjárhagslega.
Þegar kom að smölun um haustið og sláturtíð gáfu bændur okkur
líflömb og einnig slátur í svo stórum stíl að ég hef aldrei upplifað
annað eins. En þessi gjafmildi setti mig í dálítinn vanda.
Þetta var fyrir tíma frystiskápa og slíkra gæða, enda ekkert rafmagn
á bænum sem flest heimili búa nú við. Nei, ég varð að gera slátrinu
til góða og sjóða það og leggja í súr. Ég setti það nú ekki fyrir mig og
Þetta hús reistu Jakobína og Trausti í
Volaseli 1963. Trausti tók myndina.