Borgfirðingabók - 01.12.2008, Page 188
188 Borgfirðingabók 2008
sé talað um sunnan Kollafjarðar. Það er nokkuð ljóst að þeir sem
búa á höfuðborgarsvæðinu búa á eða nálægt yngsta hluta landsins.
Jarðskjálftahætta er þar talsvert meiri - og eins er mjög stutt í virk
eldgosasvæði - en t.d. norðan Hvalfjarðar.
Öldum saman var íbúadreifing nokkuð jöfn á Íslandi. Auðvitað
voru sum landsvæði strjálbýlli en önnur, en þéttbýlismyndun var
engin. Þetta hafði ýmsa ókosti en þó þann kost að áhættudreifing
þjóðarinnar hvað búsetu varðar var mjög mikil. Stór áföll í einum
landshluta, t.d. af völdum náttúruhamfara, höfðu oftast nær einungis
staðbundin áhrif á þá sem næst bjuggu. Eðli málsins samkvæmt var
það ekki stór hluti þjóðarinnar sem varð fyrir búsifjum hverju sinni.
Stóráföll eins og móðuharðindin voru auðvitað undantekning frá
þessu og höfðu áhrif um allt land.
Það er ekki fyrir en á 18. öld að þéttbýlismyndun hefst á Íslandi og
þá vill svo til að fyrir valinu verður láglendið í kringum Reykjavík á
suðvesturhorni landsins. Þarna átti svo síðar eftir að rísa höfuðstaður
Íslands eins og kunnugt er, Reykjavíkurborg. Heildaríbúafjöldi þeirra
átta sveitarfélaga sem teljast til höfuðborgarsvæðisins er nú 196.000
íbúar sem er geysihátt hlutfall af 330 þúsund manna þjóð.
Það er auðvitað margt sem mælir með þessum stað. Nægt
undirlendi, mildir vetur, góðir samgöngumöguleikar o.s.frv. Enn
fremur er háhitasvæði skammt undan, þannig að auðvelt er að tryggja
öllum íbúum höfuðborgarsvæðisins nægt heitt vatn. Einn er þó galli
á gjöf Njarðar sem veldur því að eðlilegra hefði mátt teljast að velja
íbúum höfuðborgarsvæðisins stað á blágrýtismyndun landsins, þar
sem þeir væru í öruggri fjarlægð frá jarðskjálftum og annarri óáran.
Svo er ekki því miður á núverandi stað.
Ekki hefur verið mikið um það að menn veltu fyrir sér hvort hægt
hefði verið að finna höfuðborginni betri stað. Árið 1995 birtist þó
grein í ritinu Fjármálatíðindi (júlí-desember), sem Seðlabanki Íslands
gefur út, þar sem komið er inn á þessi mál. Ritstjórar Fjármálatíðinda á
þessum tíma voru tveir, þeir Birgir Ísleifur Gunnarsson seðlabankastjóri
og Valdimar Kristinsson viðskipta- og landfræðingur. Það er einmitt
Valdimar Kristinsson sem skrifar grein í umrætt tölublað sem hann
kallar „Byggðamálin – er eitthvað til ráða?“ Höfundur hafði skrifað
nokkrar greinar um sama efni í Fjármálatíðindi sem lýstu nokkuð
breytingum á dreifingu byggðar á Íslandi áratugina á undan. Árið
1963 hafði hann skrifað greinina „Þróunarsvæði á Íslandi“, árið 1973