Borgfirðingabók - 01.12.2008, Síða 206
206 Borgfirðingabók 2008
Sennilega hefur móðir þeirra verið búin að fara með þau þessa leið
áður og þau því ratað.
Ekki kom til mála að setja lömbin á fjall að þessu sinni og voru
þau því heima allt sumarið. Á hverjum degi komu þau á staðinn,
þar sem móðir þeirra hafði legið, en héldu að öðru leyti til vestur í
skógargirðingu.
Þegar féð kom af fjalli um haustið virtist það engin áhrif hafa
á systurnar - en nú var löngu vitað að þarna voru tvær gimbrar á
ferð, sem voru sjálfum sér nógar og hirtu ekkert um aðrar kindur. Að
haustinu, þegar farið var að taka lömb frá til slátrunar voru allir á einu
máli um að ekki kæmi til mála að senda þær í sláturhús, heldur láta
þær lifa og sjá hvernig þær litu út með vorinu eða öllu heldur næsta
haust.
Eitthvað gekk erfiðlega að ná gimbrunum út úr skógargirðingunni
um haustið þó að skarðið undir girðinguna væri meira en nógu stórt.
Það var engu líkara en að þær vildu alls ekki fara og ef eg man rétt
endaði það með því að við urðum að handsama þær og flytja í bíl
niður í fjárhús til hinna lífgimbranna.
Var nú ilmandi taða borin á garðann og fóru flest lömbin þegar að
lykta og tína eitt og eitt strá upp í sig, en önnur að éta af miklum krafti,
þar á meðal systurnar. Vatn rann eftir löngum stokk eða rennu úti í
réttinni fyrir utan, og var gimbrunum hleypt út í vatn á hverjum degi.
Fyrst úr annarri krónni og síðan úr hinni. Var þessi háttur hafður á til
þess að auðveldara væri að fylgjast með því hvort allar gimbrarnar
lærðu að bera sig eftir vatninu.
Fljótlega var svo hleypt út úr báðum krónum samtímis, en það
dró dilk á eftir sér. Þegar húsunum hafði verið lokað heyrðist mikið
jarmað inni, líkast því að einhverjir væru að kallast á. Skildu menn
ekki hverju þetta sætti, en þegar inn kom sáu þeir hvers kyns var.
Höfðu systurnar lent sín í hvorri krónni, litu ekki við heyinu en æddu
um jarmandi. Var nú önnur gimbrin flutt í hina króna til systur sinnar.
Þefuðu þær hvor af annarri, en fóru síðan samhliða upp að garðanum;
nú gátu þær byrjað að éta.
Þannig gekk þetta þennan vetur. Systurnar þurftu alltaf að vera
saman í kró. Ekki eignuðust þær lömb um vorið, enda ekki til þess
ætlast. Þegar hætt var að hýsa hurfu þær fljótlega, en sáust bráðlega