Veiðimaðurinn - 01.08.1984, Page 29
fisk á grunnu vatni í stórgrýti, og ég má
hafa mig allan við til að forða því, að línan
þvælist um steina og nibbur. Fiskurinn
dólar hér fram og aftur nokkra stund með
stuttum sprettum, en rennir sér svo allt í
einu upp í ólguna neðst í strengnum og
þar syndir hann í kringum stóran stein og
festir línuna, en leggst svo á milli steina.
Þvílík uppákoma, eins og ég er einmitt
búinn að reyna að koma í veg fyrir þetta.
Nú eru góð ráð dýr, ég má alls ekki
missa þennan fisk, ef ég ætla að halda
stórveiðimannstigninni í augum afkvæma
og maka.
Annað hvort er að reyna að lempa
línuna úr festunni eða reyna að bakka
laxinum úr raufmni milli steinanna. Eg
laumast nær, held þó línunni strekktri,
ætla að reyna að ná henni út fyrir steininn.
Þegar ég á örstutt eftir sé ég fiskinn - og
hann mig - og báðir grípa til örþrifaráða.
Vatnabúinn rykkir í línuna og reynir að
komast á móti straumi, en línan liggur
aftur með honum og þar í festuna. Þessa
leiðina kemst hann ekki nema slíta úr sér,
en það er auðvitað stórhætta á því í þessum
látum.
Ég geri það eina, sem mér dettur í hug,
ja, kannski reyndar án þess beint að detta
það í hug, - þetta er fát, - ég trampa ofan í
strauminn framan við nefið á laxinum með
miklu skvampi.
Vatnið er dýpra og straumurinn meiri
en ég á von á, svo engu munar, að ég fari
flatur í ána, og þar með hefði heiður minn
öruggléga rokið út í veður og vind, eða ætti
ég kannski heldur að segja flotið á braut.
Við þetta kemur slaki á línuna, fiskurinn
snarast undan straumi, línan losnar úr
festunni og ég næ jafnvægi.
Segja mætti mér, að séð úr landi, óvön-
um augum, hafi þetta allt litið mjög
fagmannlega út, jafnvel glæsilega, a.m.k.
„ . .. sé ég fiskinn - og hann mig - og báðir grípa til
örþrifaráða“ (íjósm. Þ.I.).
hefur aldrei verið dróttað að mér neinu
vafasömu af aðdáendaklúbbnum mínum.
Þó má auðvitað vel vera, að tillitssemi
við mínar viðkvæmustu tilfínningar og
stolt ráði þar nokkru.
Ég veð áfram yfir ána og upp í mjóu
malarfjöruna hinum megin, og innan
stundar held ég á fallegri níu punda
hrygnu.
Áhorfendur fagna ákaflega á hinum
bakkanum, ég er hetja dagsins, á því leikur
varla nokkur vafi.
Já, þetta er sagan, sem leitar á hugann
í góða veðrinu í dag, þegar fréttir, sem
berast af góðum árangri fyrstu veiðiholla
sumarsins hér yfir í Norðurá, auka til-
hlökkunina til sumarsins fram undan.
Húsafelli, 5. júní 1984.
VEIÐIMAÐURINN
27