Skessuhorn


Skessuhorn - 30.11.2022, Blaðsíða 14

Skessuhorn - 30.11.2022, Blaðsíða 14
MIÐVIKUDAGUR 30. NÓVEMBER 202214 Þær Hulda Margrét Brynjars- dóttir og Marta Karen Kristjóns- dóttir hafa tekið höndum saman og skipulagt jóganámskeið sem verða kennd á Akranesi á nýju ári. Þær eru báðar jógakennarar og segist Hulda hafa fundið fyrir mikilli eftirspurn eftir jógatímum á Akranesi undan- farið en tímarnir verða kenndir í sal Sjúkraþjálfunar Akraness að Suður- götu 126. Jóga er stór hluti af lífi þeirra beggja og segja má að þær séu eins konar yin og yang í sinni jógaiðkun, þar sem Hulda hefur nýtt sér jóga til að leita inn á við, hægja á og finna styrkinn sem býr í mýktinni. Marta hefur hins vegar fundið sjálfa sig í kröftugu jógaflæði og er að sögn mikill eldur. Kveikjan að Jógaveru Hulda hafði í nokkurn tíma hugsað sér að bjóða upp á jóganámskeið á Akranesi en vantaði einhvern með sér í það sem gæti vegið upp á móti hennar orku, og boðið upp á kröft- ugri tíma. Þegar þær Marta kynnt- ust svo fyrr á þessu ári má segja að jógað hafi tengt þær saman en það var líka ákveðinn samnefnari að þær bjuggu báðar í Hvalfjarðarsveit. Hulda bar því hugmynd sína, um jóganámskeið, undir Mörtu sem stökk strax á vagninn. Hún hafði nýlega eignast barn og var því, að sögn, búin að vera í ákveðinni með- göngubúbblu í nokkurn tíma en var tilbúin til að brjótast út úr henni og iðka aftur jóga af krafti. Styrkurinn í mýktinni Hulda er ættuð úr Ólafsfirði en hún fæddist á Akureyri og flutti á Akra- nes fimm ára gömul. Hún byrj- aði strax að æfa fótbolta og spil- aði með ÍA allt þar til hún flutti til Noregs 2018. Hún segir að áhugi sinn á jóga hafi kviknað fyrst þegar hún, ásamt stelpunum í fótbolt- anum, var skikkuð í jógatíma með- fram venjulegum æfingum. „Fót- boltinn er svolítil harka og það er ýmislegt sem ég hef getað nýtt mér úr honum út í lífið. Þegar við mað- urinn minn flytjum svo til Noregs með börnin okkar tvö árið 2018 upplifum við miklu meira hæglæti þar heldur en við þekktum hér á Íslandi. Þar sprettur eiginlega upp jógaáhuginn minn, því þar náði ég að hægja á mér og finna minn styrk,“ segir Hulda sem ákvað þegar hún flutti heim 2021 að skrá sig í jógakennaranám. Nú 10. desember næstkom- andi mun Hulda útskrifast úr jógakennaranámi hjá Yogavin undir handleiðslu Ástu Arnar- dóttur jógakennara og eiganda Yogavin. „Þar er farið mjög djúpt ofan í andleg fræði jóga og and- lega iðkun. Og það er svolítið það sem mig langar að koma með inn í mínum tímum, þ.e. styrkurinn í mýktinni. Það þarf ekki alltaf að vera að hamast og keppast heldur er hægt að öðlast gríðarlega mik- inn styrk í gegnum mýktina.“ Hulda er í stjórn Fyrstu fimm sem er félag sem berst fyrir bætt- ari kjörum fyrir barnafjölskyldur. Hún á og rekur einnig fyrirtækið Leið að uppeldi þar sem hún hjálpar foreldrum að innleiða virðingaríka uppeldisfræði og hæglæti. „Þetta snýst um að hægja á, að börnin fái meiri tíma og fjölskyldur séu meira saman. Börn eru mikið í vistun í dag og með alls konar prógram í gangi þannig að það að búa til innra rými sem er ákveðin ró og getur þá skilað sér inn í fjölskyldulífið, það er hugs- unin,“ segir Hulda og bætir brosandi við að hún sé líklega ekki þekkt fyrir hæglæti því á sínum fótboltaferli hafi hún verið hávær og óþolinmóð. Hulda var meira og minna heima með dætur sínar í fimm ár. Þegar Covid skall á í byrjun árs 2020 nýtti hún svo tækifærið og var með þær í heimaskóla allt þar til þau fluttu heim til Íslands í fyrra. „Við upp- götvuðum það þegar við komum til Íslands að það þarf að hafa rosa mikið fyrir því fjárhagslega, að vera heima með börnin sín,“ segir Hulda sem fann sig þá knúna til þess að hjálpa foreldrum að finna aðrar leiðir til þess að hægja á. „Og það er meðal annars þetta, að finna sér tíma fyrir sjálfan sig sem foreldri. Það að fara út úr húsi og rækta sig á einhvern hátt og hreyfa sig aðeins án þess að þurfa að fara á einhverjar brjálaðar morgunæf- ingar, það helst í hendi við þennan hæglætislífstíl og barnvænna sam- félag. Þannig jógað getur hjálpað foreldrum að innleiða meira hæg- læti, tengja betur inn á við og for- gangsraða betur. Þetta tengist allt mjög mikið.“ Eldur í kröftugu jógaflæði Marta Karen Kristjónsdóttir er úr Reykjavík en ólst upp í Svíþjóð frá sjö ára aldri. Hún fór í sinn fyrsta jógatíma árið 2011 og ákvað árið 2016 að fara í jógakennaranám til Rishikesh í Indlandi en sú borg er þekkt sem höfuðborg jógans. „Ég ætlaði ekki endilega að fara að kenna jóga heldur leit ég frekar á námið sem sjálfsþekkingarferðalag fyrir mig,“ segir Marta sem hélt áfram í hefðbundu háskólanámi eftir dvöl sína á Indlandi. Fyrir hafði hún lokið BS námi í fashion management en fór svo í meistaranám í sjálfbærri þróun og útskrifaðist úr því 2019. „Út frá sjálfbærri þróun læri ég að forgangsraða andlegri heilsu og læri persónulega sjálfsrækt til þess að efla samfélag og til þess að koma af stað sjálfbærri þróun. Þannig ég fer mikið í aðra átt fyrir svona 3 árum og er búin að vera í mikilli sjálfs- skoðun því ég fatta á ákveðnum tímapunkti hvað það er mikilvægt að forgangsraða heilsunni, sérstak- lega út frá Covid og öllu því. Marta eignaðist sitt fyrsta barn fyrr á þessu ári en hún ákvað undir lok meðgöngunnar að skrá sig í raf- rænt framhaldsnám í jóga, í jóga- skóla í Rishikesh. „Ég kannski mis- reiknaði tímann aðeins, hvað það tekur mikinn tíma að vera með barn,“ segir Marta og hlær en hún er að klára námið um þessar mundir. „Þannig ég hélt í raun áfram að byggja ofan á grunninn sem ég var með eftir grunn- námið sem ég tók á Indlandi en kennararnir sem eru Indverjar hafa vaxið upp í þessu jógaumhverfi og má segja að þeir séu með jóga í blóðinu,“ segir Marta. Þegar hún svo fer að stunda með- göngujóga í Jógasetrinu endar það með því að hún fer að leysa af þar og kenna tímana. Það var í fyrsta sinn sem hún kenndi meðgöngu- jóga, en hún hafði áður kennt tíma og tíma af hefðbundu jóga. „Það kenndi mér mjög mikið að hægja á og fara meira inn í yin flæði, sem hjálpar manni að slaka betur og treysta. Það var samt smá áskorun fyrir mig af því ég hef verið mjög mikill eldur og hef verið meira í kröftugu flæði en þurfti þarna einmitt að finna styrkinn í mýkt- inni, eins og Hulda var að segja.“ Marta hefur einnig verið að kenna mömmutíma í afleysingum en hana langar að bjóða upp á meðgöngu- tíma í mars, hér á Akranesi. Fjölbreytt jóganámskeið verða í boði Í janúar hefst grunnámskeið í jóga í umsjón Huldu. Það er fjögurra vikna langt, kenndir eru tveir tímar í viku og verður nýtt námskeið í hverjum mánuði. „Við förum þar ofan í grunninn en námskeiðið er ekki hugsað bara fyrir þá sem hafa ekki verið í jóga heldur líka þá sem hafa tekið sér pásu eða vilja fara dýpra ofan í grunninn,“ segir Hulda. Í febrúar hefst svo jógaflæði- námskeið í umsjón Mörtu, það er hugsað fyrir þá sem eru vanari jóga en allir eru þó velkomnir. „Tím- arnir verða blanda af hatha fyrir styrk og stöðugleika og svo vinyasa flæði sem snýst um að fylgja andar- drættinum inn í mjúkar hreyfingar. Svo verður dass af yin og nidra djúpslökun. Ég flétta þessu svo- lítið saman í mitt eigið persónu- lega flæði sem ég hef verið að þróa en ég tel mig vera eilífðarstúdent og held áfram að þróa mitt flæði,“ segir Marta. Þær Marta vilja hvetja fólk til að skrá sig á námskeið en þær eru nokkurn veginn að vaða blint í sjó- inn. „Við erum spenntar að sjá hvernig verður tekið á móti okkur og svo ætlum við að þróa okkar hugmyndir áfram þaðan. Við erum bara að prufa okkur áfram og þurfum að finna fyrir því hver er að mæta og aðlaga okkur eftir því,“ segir Marta og Hulda tekur í sama streng. „Við erum með ákveðnar hugmyndir um hvernig við viljum hafa námskeiðin og framboðið á þeim og ég veit að fólk hefur verið að óska eftir jóga hérna á Akra- nesi undanfarið. Við þurfum svo- lítið að þreifa okkur áfram og finna hvar áhuginn hjá fólki liggur og við erum meira en tilbúnar að mæta þeim og ég sé þá fyrir mér að bjóða upp á fjölbreytta tíma, eftir því hvar áhuginn liggur hjá fólki. Þannig að það er um að gera að skrá sig í tíma og ef það koma svo einhverjar óskir um sérstaka tíma þá reynum við að mæta þeim,“ segir Hulda. Þá sjá þær einnig fyrir sér í fram- tíðinni að vera með staka viðburði öðru hvoru, eins konar „pop up“, en það ræðst einnig af viðtökum. Kynningartímar í desember Í desember verða kynningartímar á námskeiðunum þar sem fólki gefst kostur á að mæta, kynnast þeim Huldu og Mörtu og fá smjörþef- inn af því jóga sem þær munu bjóða upp á. Þriðjudaginn 13. desember, kl. 17:30, verður Hulda með kynn- ingartíma fyrir grunnnámskeiðið. 15. desember kl. 17:30 kynnir Marta jógaflæði og laugardaginn 17. desember kl. 17:30 verða þær báðar á staðnum en þá standa þær fyrir Jóla zen viðburði. „Það er tveggja tíma viðburður þar sem við einblínum meira á hugleiðslu og slökun og einhverjar hreyfingar í bland við það. Það verður jólaþema í þeim tíma, við ætlum að fagna jólunum en kannski líka fá fólk til að setja sér smá ásetning fyrir jólin. Setjast niður og jarðtengja sig. Frjáls framlög eru í kynningar- tímunum í desember en fjögurra vikna námskeiðin verða á 19.990 krónur. Þá er kennt tvisvar í viku og er hver tími 75 mínútur. Hægt er að skrá sig á námskeið í gegnum Facebook síðuna Jógavera. gbþ Jóganámskeið hefjast á Akranesi á nýju ári F.v. Marta Karen Kristjónsdóttir og Hulda Margrét Brynjarsdóttir. Með á myndinni er dóttir Huldu, Andrea Karen og í bakgrunni speglar sig Lukka Rún, dóttir Mörtu.

x

Skessuhorn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Skessuhorn
https://timarit.is/publication/1096

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.