Skessuhorn - 29.03.2023, Blaðsíða 19

Skessuhorn - 29.03.2023, Blaðsíða 19
MIÐVIKUDAGUR 29. MARS 2023 19 Mikið var um dýrðir á Hellis­ sandi síðastliðinn föstudag þegar nýtt hús þjóðgarðsmiðstöðvar Snæfellsjökuls var tekið í notkun. Gestum þjóðgarðsins hefur fjölgað ört undanfarin ár en um hálf milljón gesta heimsækja þjóð­ garðinn á hverju ári. Mikil upp­ bygging hefur átt sér stað innan þjóðgarðsins á undanförnum árum en gestastofa hefur verið á Malar­ rifi síðastliðin 10 ár og mun starf hennar haldast óbreytt. Bygging nýju þjóðgarðsmiðstöðvarinnar hefur verið í kortunum síðan árið 2001, eða um það bil frá því að þjóðgarðurinn var stofnaður, og átti upphaflega að rísa árið 2007. Vegna efnahagsástands var ekki unnt að fjármagna bygginguna á þeim tíma. Fyrsta skóflustungan var tekin árið 2016 en framkvæmdir hófust árið 2019. Þjóðgarðsmiðstöðin er um 700 fermetrar að flatarmáli og hýsir sýningu, skrifstofur og aðra aðstöðu. Kostnaður við bygginguna nam ríflega 600 milljónum króna. Er hún BREEAM vottuð og hönnuð af Arkís arkitektum sem unnu hönnunarsamkeppni árið 2006. Húsið skiptist í þrennt; til suðurs er Jökulhöfði, sem vísar í Snæfellsjökul sem trónir yfir hús­ inu, til norðurs er Fiskbeinið sem vísar til fengsælla fiskimiða á svæðinu og í gegnum húsið liggur svo Þjóðvegurinn, en hægt er að ganga þvert í gegnum húsið að innan sem utan. Um 250 manns mættu á form­ lega opnun þar sem Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis­, orku­ og loftslagsráðherra vígði þjóðgarðsmiðstöðina ásamt þremur öðrum fyrrum umverfisráð­ herrum sem einnig komu að upp­ byggingu miðstöðvarinnar í sinni starfstíð. Þeim Sigrúnu Magnús­ dóttur, Sigríði Önnu Þórðardóttur og Guðmundi Inga Guðbrands­ syni. Ráðherra beindi orðum sínum að heimamönnum og sagði stolt heimamanna augljóst yfir þjóðgarði sínum. Einnig tóku til máls Sigrún Ágústsdóttir forstjóri Umhverfisstofnunar, Kristinn Jónas son bæjarstjóri Snæfellsbæjar og Hákon Ásgeirsson þjóðgarðs­ vörður sem kynnti nýtt nafn þjóð­ garðsins og lógó við tilefnið. Nafni þjóðgarðsins hefur verið breytt í Snæfellsjökulsþjóðgarð. Greinilegt er að mikill áfangi hefur náðst með byggingunni og ánægja og léttir ríkir í samfélaginu. „Það er komið líf í húsið,“ sagði Hákon Ásgeirsson þjóðgarðsvörður í ræðu sinni. Hann segist spenntur yfir nýtingu byggingarinnar en nú þegar hefur sýning verið sett upp í húsinu. „Sýningin sem hefur verið sett upp núna er nokkurs konar forsýning sem er hönnuð af Ant­ oni Illugasyni en áætlað er að full­ búin sýning verði kláruð fyrir sum­ arið 2024. Samkeppni verður um hönnun þeirrar sýningar sem aug­ lýst verður á allra næstu dögum. Von starfsfólksins er að húsið verði ekki einungis gestastofa heldur nýtist einnig samfélaginu sem félagsmiðstöð. Hér vilji fólk koma að skoða tímabundnar sýningar, skólahópar komi í fræðsluferðir og að fólki vilji hittast hér yfir kaffibolla og spjalla um veðrið,“ segir Hákon en fyrirhugað er að veitingasala verði opnuð í húsinu á næstu misserum. Sveitarfélögin á Snæfellsnesi afhentu þjóðgarðinum gjöf við tækifærið sem innihélt gjafabréf upp á listaverk eftir listamanninn Liston. Listaverkið mun koma til með að endurspegla sérstöðu Snæ­ fellsness og tengja saman sveitar­ félögin á svæðinu en notað verður berg og steinar úr náttúru Snæ­ fellsness í listaverkið. sþ Ný þjóðgarðsmiðstöð vígð á Hellissandi Fjórir umhverfisráðherrar. Guðlaugur Þór Þórðarson, núverandi umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, klippir á borða við opnun þjóðgarðsmiðstöðvarinnar ásamt þremur fyrrverandi umhverfisráðherrum; þeim Sigrúnu Magnúsdóttur, Sigríði Önnu Þórðardóttur og Guðmundi Inga Guðbrandssyni. Ljósm. af Frá vinstri: Kristinn Jónasson bæjarstjóri Snæfellsbæjar, Hrafnhildur Hallvarðsdóttir skólameistari Fjölbrautarskóla Snæfellsness, Hákon Ásgeirsson þjóðgarðsvörður og Björg Ágústsdóttir bæjarstjóri Grundarfjarðar. Sveitarfélögin á Snæfellsnesi afhentu þjóðgarðsverði sameiginlega gjöf við tilefnið. Ljósm. sþ. Starfsfólk Snæfellsjökulsþjóðgarðs ásamt Guðlaugi Þóri Þórðarsyni, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra. Ljósm. sþ. Um 250 manns mættu á athöfnina. Ljósm. sþ. Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra með nýtt lógó og nafn þjóðgarðsins í baksýn. Ljósm. sþ. Karlakórinn Heiðbjört söng fyrir gesti. Ljósm. sþ. Um veitingar sáu kokkar frá Bjargar- steini Mathús. Gunnar og Miroslav ásamt Rúnari Marvinssyni. Ljósm. sþ.

x

Skessuhorn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Skessuhorn
https://timarit.is/publication/1096

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.