Leyfi til að elska - mar. 2023, Blaðsíða 6

Leyfi til að elska - mar. 2023, Blaðsíða 6
Foreldraútilokun á sér stað þegar barn tekur afstöðu með öðru foreldri sínu og tekur þátt í óréttmætri ófrægingarherferð gegn hinu foreldrinu, sem barnið sýndi áður ást og væntumþykju (Baker og Andre, 2008; Gardner, 2002). Af ýmsum ástæðum kennir útilokunarforeldrið barninu að hafa andúð á hinu foreldrinu, að óttast hitt foreldrið þegar það er í návist þess og forðast samskipti við það (Darnall, 2011). Hegðun af þessu tagi kallast útilokandi hegðun. Í þessari rannsókn er hugtakið „foreldraútilokun“ notað um ferli þar sem barn er útilokað frá útsetta foreldrinu í kjölfar útilokandi hegðunar þess foreldris sem barnið hefur skipað sér í lið með, þ.e. útilokunarforeldrisins. Foreldraútilokun er ólík fráhvarfi, sem á sér stað þegar barn hafnar foreldri af réttmætum ástæðum, til dæmis vegna vanrækslu (Garber, 2011). Hingað til hafa fræðin að mestu einblínt á að móta hugtök og skilgreiningar á foreldraútilokun, þ.e. rökræða hugmyndir um greinanleg einkennamynstur eða þróa líkön til að fræðast um þetta fyrirbæri frekar en að einblína á raunverulegar upplifanir þeirra sem hafa orðið fyrir foreldraútilokun (t.d., Bernet og Baker, 2013; Drozd og Olesen, 2010; Lowenstein, 2013; Meier, 2009; 2010; Pepiton o.fl., 2012; Walker og Shapiro, 2010). Rannsóknir á einstaklingsbundinni reynslu af foreldraútilokun hafa einkum beinst að hegðun útilokunarforeldrisins (t.d., Baker, 2005; 2006; Ellis og Boyan, 2010; Garber, 2011; Kopetski, 1998; Rand, 1997) og sjónarmiðum útsetta barnsins (t.d., Baker, 2005; 2006; Baker og Chambers, 2011; Ben-Ami og Baker, 2012; Godbout og Parent, 2012; Hands og Warshak, 2011; Johnston, 2003; Kelly og Johnston, 2001). Hvað varðar reynslu og áhrif á útsetta foreldra, hafa einhverjar rannsóknir leitt í ljós sameiginlegar tilfinningalegar afleiðingar hjá útsettum foreldrum, eins og streitu, gremju, missi, ótta og vanmátt (Baker og Andre, 2008; Baker og Darnall, 2006; Schwartz, 2015; Vassiliou og Cartwright, 2001). Baker og Fine (2014) lögðu fram frásagnir 11 útsettra foreldra, þar sem þeir lýstu langvarandi þjáningum yfir að missa börn sín og óvissu með framhaldið. Þessar niðurstöður eru í samræmi við niðurstöður Vassiliou og Cartwright (2001) sem könnuðu tilfinningalega líðan sex útsettra foreldra. Þessir foreldrar upplifðu vanmáttartilfinningu sem leiddi til frekari erfiðleika í samskiptum útsetta foreldrisins við barnið, til að mynda erfiðleika við að bregðast við tilfinningalegu ástandi barnsins og ögrandi hegðun. Þetta viðhélt svo aftur foreldraútilokuninni (Vassiliou og Cartwright, 2001). Enn fremur hefur óánægja útsettra foreldra með þjónustu geðheilbrigðisstarfsfólks og lögfræðinga sem koma að þessum málum verið vandlega skjalfest (t.d. Baker, 2010; Baker og Darnall, 2006, 2007; Baker og Fine, 2014; Vassiliou og Cartwright, 2001). Önnur rannsókn ( fjöldi = 10) beindist að útsettum mæðrum og undirstrikaði það áfall sem móðir verður fyrir þegar hún er útilokuð frá barninu sínu (Finzi-Dottan o.fl., 2012). Því hefur verið haldið fram að áfallið sem hlýst af útilokun geti í sjálfu sér viðhaldið útilokunarferlinu, þar sem útsetta foreldrið bregst við með aðgerðaleysi og reynir að takast á við höfnun barnsins með því að draga sig í hlé. Barnið mistúlkar síðan þessa hegðun sem áhugaleysi (Fidler og Bala, 2010; Godbout og Parent, 2012; Schwartz, 2015). Útsetta foreldrið getur einnig brugðist við með óviðunandi hætti og þar af leiðandi litið út fyrir að vera jafn sekt og útilokunarforeldrið (Fidler og Bala, 2010; Schwartz, 2015). Ýmsar rannsóknir hafa sýnt fram á sameiginleg hegðunareinkenni hjá útsettum foreldrum, þar á meðal óþolinmæði, ósveigjanleika, tilfinningalegt afskiptaleysi, skort á hæfni, sjálfshverfa, reiði og forðun (t.d. Baker og Andre, 2008; Friedlander og Walters, 2010; Godbout og Parent, 2012; Johnston, 2003; Kelly og Johnston, 2001; Lamminen, 2013). Baker og Andre (2008) undirstrikuðu mikilvægi þess að viðurkenna sársauka og missi útsetta foreldrisins án þess að kenna foreldrinu sjálfu um aðstæðurnar, og á sama tíma að benda foreldrinu á leiðir til að bæta sig í foreldrahlutverkinu. 6 GLEYMDA FORELDRIÐ: FORELDRAÚTILOKUN FRÁ SJÓNARHÓLI ÚTSETTA FORELDRISINS CLARE POUSTIE O.FL.

x

Leyfi til að elska

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Leyfi til að elska
https://timarit.is/publication/1787

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.