Leyfi til að elska - mar 2023, Qupperneq 17

Leyfi til að elska - mar 2023, Qupperneq 17
geðheilbrigðiskerfa þegar kemur að núverandi viðleitni þeirra til að aðstoða útilokaðar fjölskyldur. Fyrir 15 árum gáfu rannsakendur til kynna að óánægja með kerfið gæti stafað af því að rannsóknir á foreldraútilokun væru takmarkaðar, og þar af leiðandi höfðu fáir innan laga- og geðheilbrigðisgeirans traustan þekkingargrunn og skilning á fyrirbærinu (Vassiliou og Cartwright, 2001). Þessi sama rannsókn setti fram íhlutunaraðferð sem felur í sér að geðheilbrigðisstarfsmenn sjá um að greina fjölskyldur sem upplifa foreldraútilokun og leggja greininguna fram við lögfræðinga sem síðan sjá um nauðsynlegar breytingar á forsjá (Vassiliou og Cartwright, 2001). Engu að síður heldur barátta fyrir víðtækum skilningi og þar með víðtækri og áhrifaríkari íhlutun vegna foreldraútilokunar áfram. Að sjálfsögðu fylgir þessu mikil áskorun fyrir fagfólk innan þessara kerfa, það er að geta skilgreint foreldraútilokun á skýran hátt og gripið inn í á sem áhrifaríkastan hátt (Fidler og Bala, 2010). Í framtíðinni verður gerð krafa um að aðilar innan kerfisins sem starfa með útsettum fjölskyldum, búi yfir og styðjist við yfirgripsmikla þekkingu. Þetta gefur tilefni til frekari rannsókna og miðlunar. Enn fremur, með hliðsjón af þeim neikvæðu áhrifum sem skilningsleysi á líðan útsetta foreldrisins veldur, þá hefði það mikinn ávinning í för með sér fyrir þennan hóp ef fagaðilar innan kerfisins sýndu skilning og stuðning. ÚTSETTIR FORELDRAR OG GEÐHEILSA Í samræmi við fyrri niðurstöður benda núverandi gögn til þess að útilokun frá barni hafi í för með sér sálrænt áfall fyrir útsetta foreldrið (Baker og Fine, 2014; Finzi-Dottan o.fl., 2012). Þessar niðurstöður eru í samræmi við fyrri rannsóknir og undirstrika enn frekar að útsettir foreldrar finna fyrir gremju, streitu og úrræðaleysi (Baker og Andre, 2008; Baker og Darnall, 2006; Baker og Fine, 2014; Schwartz, 2015; Vassiliou og Cartwright, 2001). Margir þátttakendur lýstu því hvernig missirinn af sambandinu við barnið olli þeim sorg og sumir ýjuðu að því að hafa verið í sjálfsvígshugleiðingum. Þetta er í samræmi við fyrri niðurstöður sem benda til almennrar upplifunar af missi og vanmætti (Vassiliou og Cartwright, 2001), aukinnar hættu á sjálfsvígum meðal útsettra foreldra (Kruk, 2013) og að útsettir foreldrar upplifi „langvarandi sálrænt tjón og sviptingu á foreldrahlutverkinu“ (Finzi-Dottan o.fl., 2012, bls. 322). Ljóst er að foreldraútilokun veldur talsverðum andlegum þjáningum, sem lögfræðingar og geðheilbrigðisstarfsfólk þurfa að viðurkenna og vinna að því að draga úr. Fræðin, gefa til kynna að útilokun hafi bæði skammtíma- og langtímaafleiðingar á andlega líðan útsettra barna (Ben-Ami og Baker, 2012; Godbout og Parent, 2012, Johnston o.fl., 2005). Með þessari rannsókn er það ljóst að útsettir foreldrar hafa oft þungar áhyggjur af sálfélagslegum kvillum sem barnið þeirra þjáist af eða gæti þjáðst af vegna foreldraútilokunarinnar. Helstu áhyggjuefni sneru bæði að innhverfum vandamálum, eins og lyndisröskun, og úthverfum, eins og vítaverðri hegðun og vímuefnanotkun. Þessi umhyggja fyrir andlegri velferð barnsins gæti verið það sem skilur foreldraútilokun frá fráhvarfi, þar sem útsettir foreldrar hafa áhyggjur af barninu sínu en ofbeldisfullir og hirðulausir foreldrar kunna að vera áhugalausari. Margir útsettir foreldrar reyna að átta sig á andlegu ástandi útilokunarforeldrisins á sama tíma og þeir kljást við foreldraútilokun. Það er ekki nýtt að niðurstöður sýni að útsettir foreldrar reki útilokandi hegðun til tilfinninga útilokunarforeldrisins, þá sérstaklega reiði, hefnigirni, haturs, eða einhvers konar blöndu af öllu þessu (Baker og Fine, 2014; Vassiliou og Cartwright, 2001). Í samræmi við það sem fyrir er að finna í fræðunum litu svarendur okkar á foreldraútilokun og útilokandi hegðun sem afsprengi óleystra vanda tengdum fjölskylduaðstæðum í æsku, persónuleikaraskana, hegðunarvanda vegna óuppgerðrar sorgar eða tilfinningalegs skaða tengdum sjálfhverfu (Baker, 2005; 2006; Ellis og Boyan, 2010; Kopetski, 1998; Lund, 1995; Rand, 1997). 17 GLEYMDA FORELDRIÐ: FORELDRAÚTILOKUN FRÁ SJÓNARHÓLI ÚTSETTA FORELDRISINS CLARE POUSTIE O.FL.

x

Leyfi til að elska

Direct Links

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Leyfi til að elska
https://timarit.is/publication/1787

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.