Veiðimaðurinn - 01.12.2018, Blaðsíða 61
60 Veiðimaðurinn 61 Þegar góð ráð eru dýr má reyna Gammel Dansk
Eitt haustið fyrir ekki svo löngu síðan
vorum við tveir vinir staddir á bökkum
Vatnsdalsár, eins og alla jafna á þeim
sama tíma ár hvert. Fyrir mér er það nán-
ast helgur staður, og enginn kærari til að
fagna haustinu í náttúrunni. Þetta voru
stilltir dagar, bjart og kalt, og köll hundruða
álfta á Flóðinu ómuðu um dalinn kvöld
sem morgna. Það var ágæt bleikjuveiði og
fallegur birtingur að taka flugur, sem var
vitaskuld frábært, en lítil hreyfing á laxi.
Þótt hann væri blessunarlega allur enn í
ánni og gott að vita af því eins og alltaf í
haustinu; hann færi senn að hrygna.
Félagar á öðrum svæðum árinnar reyndu
vitaskuld allt hvað þeir gátu við að reisa
laxa og fá einhverja til að taka, nokkrir
stórir höfðu sést og einhverjir okkar verið
svo heppnir að fá stóra fiska á. Takan er
jú málið, að áætlunin gangi upp. Við vinur
minn höfðum fengið tvo smálaxa og haft
mikið fyrir þeim; vinur minn er frá New
York en hann treystir engum flugum betur
en Snældunum sem Grímur Jónsson heitinn
hannaði og beitti þeim í ýmsum stærðum,
ýmist með flotlínu eða sökkenda, og þær til-
færingar skiluðu honum þessum smálöxum.
Ég hafði hinsvegar einsett mér að nota
smærri flugur og veiða þær með ýmsum
hætti, grunnt sem djúpt, og mishratt, hafði
reist fiska en engum haldið. Svo komum við
undir kvöld að Vaðhvammi, einum fegursta
veiðistað landsins, hvar fyrsta laxveiði-
sagan íslenska átti sér stað gegn höfuð-
bólinu Hofi; þar sem Ingimundur gamli var
veginn vegna deilna um veiði. Þar lagði ég
til að við veiddum ekki á eyrinni, eins og
flestir gera, heldur undir skriðunni, sem
er erfiðara þar sem ekkert rými er fyrir
bakkast og þarf helst að beita spey-kasti.
Þá hafði ég í huga sögur af stórlöxum sem
höfðu árin á undan náðst með þeirri aðferð,
þar sem flugan er í raun tekin í aðra átt en
laxarnir sjá oftast.
Vinur minn tók fyrst eitt rennsli en ekkert
gerðist. Ægifagurt kvöld var að setjast að
okkur, fullt tungl að rísa í suðaustri. Logn
og hitinn ekki nema um þrjár gráður. Vatns-
hitinn eitthvað aðeins hærri. Ég sagði við
vin minn að nú þyrfti að hægja á rennslinu
eins og unnt væri, nánast stöðva það í ólg-
unni neðst í strengnum. Ég var með tví-
hendu með flotlínu, lengdi tauminn talsvert,
hnýti á hann tommulanga Black Sheep með
tungsten haus, og bætti um betur, rótaði í
túpuboxinu og fann lausa keilu sem hafði
fallið af túpu sem skemmdist, og renndi
henni á tauminn fyrir framan. Ekki var
það fallegt, eða fínlegt, en ég var bara viss
um þetta væri ráðið. Og kastaði þessum
þyngslum vonglaður á ská upp fyrir mig,
yfir strenginn, og mendaði sífellt meðan
bugurinn barst niður á við, til að hægja eins
vel á rennslinu og ég gæti. Og eftir nokkur
köst, til móts við sefið í vesturbakkanum þar
sem er klassískur tökustaður, sat allt fast.
Ég lyfti stönginni, strekkti á línunni, og eftir
smá stund fann ég örlitla hreyfinguna sem
gaf til kynna að það væri að minnsta kosti
ekki í grjóti. Svo færðist línan svolítið upp
móti straumnum.
Það fór ekki á milli mála að fiskur var á
og hann stór. Eftir að hafa togast á við
hann í nokkrar mínútur, án þess að nokkuð
gerðist, lét ég vin minn fá stöngina. Hann
hafði aldrei náð að landa laxi í yfirstærð en
misst einn slíkan í Smiðshyl árið áður. Það
var tekið vel á fiskinum sem byrjaði smám
saman að láta okkur hreyfa sig meira og
svo byrjaði hann að leita niður á við. Ég tók
aftur við stönginni og tók stíft á, án þess
að ráða að neinu marki við skepnuna. Sem
streðaði niður ána og svo varð að vera; hún
náði að bruna af stað og niður úr hylnum,
yfir breiðuna sem þar tekur við og ég elti
á hlaupum, alla leið niður í Áveituhyl þar
fyrir neðan. Og eftir talsverðan barning,
og höfðum við ekki séð fiskinn að ráði, náði
ég að stranda þar afar digurri hrygnu sem
var þrímæld við undrunarstunur okkar
vina hundrað sentímetrar slétt. Þetta var
gleðistund í húminu í Vatnsdal, áætlunin
hafði gengið upp.
Morguninn eftir náði annar vinur hundrað
og tveggja sentímetra hæng og sá tók sér-
hnýtta keilutúpu á nákvæmlega sama bletti
og hrygnan mín í Vaðhvammi. Hjónin snéru
þangað aftur til að huga að hrygningu – en
það er önnur saga.
Gleðistund í húminu í Vatnsdal
Þar lagði ég til að við veiddum ekki á eyrinni, eins og flestir
gera, heldur undir skriðunni, sem er erfiðara þar sem ekkert
rými er fyrir bakkast og þarf helst að beita spey-kasti.