Framkvæmdafréttir Vegagerðarinnar - 31.03.2023, Blaðsíða 18

Framkvæmdafréttir Vegagerðarinnar - 31.03.2023, Blaðsíða 18
18 Framkvæmdafréttir nr. 724 2. tbl. 31. árg. Framkvæmdafréttir nr. 724 2. tbl. 31. árg. 19 Reglugerðir 1979 og 1989 Áður en reglugerðin 1979 kom út mátti sjá ný merki í notkun án þess að þau væru auglýst sérstaklega. Árið 1972 sást merkið „Brött brekka“ í fyrsta sinn í Kambabrekku og 1975 sást merki fyrir „Botngötu“ í fyrsta sinn í Kópavogi. Þá mátti einnig sjá mynd af ferköntuðu boðmerki í blaðafrétt en það hafði varið lagfært og var orðið hringlaga flötur þegar reglugerðin tók gildi 1979. Einnig sást mynd af gátskildi í dagblaði, en hann sneri reyndar öfugt. Vegnúmerakerfið, eins og við þekkjum það í dag, var fullmótað 1973 og vegakerfið var merkt með leiðamerkjum skv. því árin á eftir. Það birtist svo í reglugerðinni 1979. Breytingar sem fylgdu nýjum reglugerðum voru fyrst og fremst viðbætur, t.d. fjölgaði umferðarmerkjunum úr 42 í 126 í reglugerðinni 1979. Þá varð líka stór breyting þegar stöðvunarskyldumerkið breyttist en það var í takt við það sem var að gerast um allan heim. Önnur áberandi breyting í þessari reglugerð var merkið „Bannað að leggja ökutæki“ en það var áður P með skástriki yfir. Umferðarráð annaðist kynningu á þessum viðbótum og breytingum og tókst það vel. Fjölmiðlar fjölluðu um málið á áberandi hátt. Það er eftirsjá að Umferðarráði og Útvarpi Umferðarráðs sem var starfrækt í mörg ár. Þar var fólk sem hafði fyrst og fremst það hlutverk að uppfræða um umferðarmál og halda umræðunni opinni. Stóra breytingin í reglugerðinni 1989 eru vegvísarnir. Þar er tekinn upp danskur útlitsstaðall en þó með þeim snúningi að þar sem Danir nota rauðan lit notum við bláan og öfugt. En þar með er ekki öll sagan sögð. Eitthvað mun hafa skort á samráð því innan Vegagerðarinnar voru sumir á því að halda bæri í fyrri liti sem voru svartir stafir á gulum grunni. Niðurstaðan varð að merki með hvítum grunni voru notuð á höfuðborgarsvæðinu en gul merki á öðrum stöðum og aftur eru rökin að gult sést betur í snjó. Það var svo naglfest í reglugerð 1995. ↑ Mynd 4 Sænskar teikningar í reglugerðinni 1979. Táknmyndir ökutækjanna voru frekar klessulegar í þessari seríu. ↓ Mynd 5 Nýr vegur um Kambabrekku var tekinn í notkun síðla árs 1972 og þá sást í fyrsta sinn merki sem táknar bratta brekku. → Mynd 6 Stöðvunarskyldumerkið breyttist í reglugerðinni 1979 en það var í takt við það sem var að gerast um allan heim. Það var gagnrýnt hér innanlands að STOP væri stafsett með einu P en rökstuðningur fyrir því var að þetta væri ekki orð heldur tákn.

x

Framkvæmdafréttir Vegagerðarinnar

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Framkvæmdafréttir Vegagerðarinnar
https://timarit.is/publication/1142

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.