Framkvæmdafréttir Vegagerðarinnar - 10.10.2022, Blaðsíða 15
14 Framkvæmdafréttir nr. 721
6. tbl. 30. árg.
Framkvæmdafréttir nr. 721
6. tbl. 30. árg.
15
Guðjón Bachmann var til þess kjörinn af aðalhöfðingja
verklegra framkvæmda í landssjóðsþarfir, Jóni
Þorlákssyni, að mæla veginn frá Þingvöllum að
Brúarhlöðum við Hvítá. Þar að auki skyldi hann setja
upp steina við hverja 5 kílómetra. Sér til aðstoðar þurfti
hann einn mann. Var af hans hendi útvalinn Sigurður
Pálsson, höfundur sögu þessarar.
Mælt fyrir kílómetrasteinum
Árla morguns, hinn 22. dag júlímánaðar 1907, hófum
við Guðjón þessa för. Veður var hið besta. Svo gott
sem það getur verið á Íslandi, og er þá mikið sagt.
Við höfðum þrjá hesta, einn undir áhöld og annan
farangur. Voru þetta léttar klyfjar og gátum við riðið
hratt eftir vild; en sú skemmtun tók brátt enda. Þegar
að Hrafnagjá var komið byrjaði mælingin, og fórum
við þá með sæmilegum hraða yfir landið; sem ég skal
nú skýra betur. Annar okkar sté nú af baki, en hinn
tók við reiðhesti hans og klyfjahestinum. Þarnæst
tók sá fyrrnefndi mælistikuna í hönd sér og tók að
mæla. Mælistikan var þannig útbúin: að skeyttar
voru saman tvær grannar tréálmur þannig að bilið á
milli þeirra neðst var 2 metrar. Mjókkaði það stöðugt
er ofar dró, þar til það hvarf í odda þeim er þær voru
skeyttar saman í. Uppaf samskeytunum var sívöl
spýta eða handfang. Var nú stikunni snúið í hendi
sér, líkt og þegar hringmáli er snúið (cirkli). Taldi sá er
gekk metrana, þar til komnir voru 50. Lét hann þá uppi
töluna við þann er á eftir var með hestana, og færði
hann hana samstundis í bók er hann hélt á. Hann varð
því ávallt að vera á hælum þess er mældi, en aldrei
fara á undan. Er nú auðskilið að hægt hefir verið farið,
og að vinnan var fremur hæg fyrir þann er sat, og
hestana. Með þessu seinfæra ferðalagi náðum vér þó
að Snorrastöðum í Laugardal um kvöldið kl. 9. Má þó
þá leið ríða á 4 tímum. Þar þáðum vér næturgistingu.
↑ Mælt fyrir kílómetrasteinum eins og
frásögn Sigurður Pálssonar lýsir.
← Sigurður Kristmann Pálsson verkstjóri hjá
Vegagerðinni, f. 1886 í Máskeldu í Dölum. d. 1950.