Framkvæmdafréttir Vegagerðarinnar - 10.10.2022, Blaðsíða 19

Framkvæmdafréttir Vegagerðarinnar - 10.10.2022, Blaðsíða 19
18 Framkvæmdafréttir nr. 721 6. tbl. 30. árg. Framkvæmdafréttir nr. 721 6. tbl. 30. árg. 19 Allt frá því Siglufjarðarvegur um Almenninga var lagður árið 1967 hafa skapast töluverð vandræði vegna sigs í kringum vegstæði hans á 5-6 km löngum kafla frá Hraunum og norður að Almenningsnöf (mynd 1). Umfangsmikil kortlagning og rannsóknir hafa verið gerðar á svæðinu á undanförnum árum og áratugum til að finna umfang og orsakir sigsins. Þrjú stór og nokkur minni berghlaup hafa verið kortlögð á svæðinu. Nyrst er Tjarnardalaberghlaupið, svo Þúfnavallaberghlaupið og Hraunaberghlaupið syðst (mynd 1). Sameiginlegt með öllum þessum berghlaupum er að töluverð hreyfing er á efnismössum þeirra í dag, bæði við vegstæðið og eins utan þess. Mestar eru hreyfingarnar í Hrauna- og Tjarnardalaberghlaupunum þar sem hreyfingar nálgast um 1 m á ári samkvæmt langtímamælingum Vegagerðarinnar. Vísbendingar eru um að samband sé á milli veðurfars, þ.e. úrkomu og leysinga, og sighreyfinga í berghlaupum almennt. Hreyfing berghlaupanna við vegstæði Siglufjarðarvegar er nokkuð vel þekkt, en frá árinu 1977 hafa farið fram punktmælingar á allnokkrum stöðum við vegstæðið, fyrst með hæðarmælingum, en svo með nákvæmum landmælingum sem nota staðsetningargervihnetti (GNSS). GNSS er samheiti yfir nokkur staðsetningakerfi sem nota gervihnetti og er GPS kerfið velþekkta eitt þessara kerfa. Snjallsímar nota til að mynda GNSS kerfi til leiðsögu, en til að nægileg nákvæmni náist til að mæla hreyfingar sem nema millimetrum til sentimetrum þarf sérstök landmælingatæki. Mælingar á færslum við vegstæðið hafa verið árvissar um árabil. Lítið hefur hins vegar verið vitað um hraðabreytingar á stuttum tímaskölum (mínútur, dagar, vikur) sem og hreyfingar utan vegstæðis. Í maí á þessu ári var hrundið af stað margvíslegum rannsóknum á svæðinu á vegum Háskóla Íslands og Vegagerðarinnar. Meðal annars voru settar upp síritandi GNSS stöðvar við vegstæðið en það er í fyrsta sinn sem það er gert á þessu svæði. Einnig voru sett á laggirnar verkefni sem annars vegar snúa að greiningu hreyfinga berghlaupanna með svokallaðri feril greiningu eða „feature tracking“ aðferð og hins vegar greining sem var gerð á samspili veðurfars og sögu þekktra hreyfinga á vegstæðinu. Að auki var gert nákvæmt hæðarlíkan af svæðinu sem unnið er úr myndatökum úr flygildi. ↑ Mynd 1: Landmótunarkort í kringum vegstæði Siglufjarðarvegar um Almenninga ásamt staðsetningum GNSS stöðva (kort byggt á grunni Halldórs G. Péturssonar).

x

Framkvæmdafréttir Vegagerðarinnar

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Framkvæmdafréttir Vegagerðarinnar
https://timarit.is/publication/1142

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.