Fréttir - Eyjafréttir - 01.06.2023, Blaðsíða 22
22 | | 1. júní 2023
þeir síðan stærra skip með sama
nafni og gerðu það út þar til þeir
seldu skipið árið 1987 og hættu
útgerð. Ráku þau síðan fyrir-
tækið Bessa og stunduðu meðal
annars fasteignaviðskipti í nafni
félagsins. Samstarf þeirra var alla
tíð gott og farsælt og ríkti traust
og góð vinátta þeirra á milli allt til
hinsta dags.
Öryggi sjómanna í öndvegi
Öryggismál sjómanna voru þeim
Einari og Ágústi alla tíð hugleik-
in og kom Bessi að hönnun og
uppsetningu á öryggisloka fyrir
spilbúnað árið 1972. Sigmund
Jóhannsson hannaði öryggisloka á
línu- og netaspil að beiðni Einars
og Ágústs útgerðarmannanna á
Kap VE 4. Þeir höfðu þá orðið
fyrir því að maður fór í netaspilið
og slasaðist. Öryggislokinn var
smíðaður í Vélsmiðjunni Þór og
var hann settur um borð í Kap.
Öryggið virkar þannig að ef mað-
ur festist í spilinu er ekki hjá því
komist að snerta arm sem stöðvar
spilið samstundis.
Rannsóknarnefnd sjóslysa sá
fljótlega það öryggi sem lokinn
skapaði og var hann kynntur í
skýrslu nefndarinnar sama ár.
Nefndir, sjómenn og sjómanna-
samtök reyndu síðan að beita sér
fyrir því að þessi loki yrði lög-
leiddur og en sú barátta tók átta
ár. Það var ekki fyrr en 1980 sem
settar voru reglur um öryggisbún-
að við línu og netaspil. En þar var
átt við ný fiskiskip og ef spil var
endurnýjað.
Farsælt samstarf
með Sigmund
Þeir unnu einnig að því með
Sigmund að koma upp fyrsta
sleppibúnaði fyrir björgunarbáta
sem var bylting í öryggismál-
um og bjargað hefur mörgum
sjómanninum úr háska. Fyrsti
Sigmundsgálginn var settur upp
á Kap II. VE 4. Uppsetningu og
allan kostnað af honum greiddu
útgerðarmennirnir.
Gálginn er þannig gerður að
þegar togað er í handfang inni í
brú eða annars staðar þar sem því
er komið fyrir, blæs upp belgur,
sem fellir gálgann, gúmmíbátur-
inn fellur i sjóinn og blæs strax
upp. Kap VE og búnaðurinn var
hluti af sýningu á ýmsum uppfinn-
ingum Sigmunds Jóhannssonar
sem fór fram í Vestmannaeyjum
20. maí 1981.
Að sýningu þessari stóðu sjó-
slysanefnd og nokkrir áhugasamir
Vestmannaeyingar um öryggismál
sjómanna. Eyjamenn fjölmenntu
á Básaskersbryggju til að fylgjast
með sýningunni en talið er að um
600 manns hafi mætt. Sigmund
sagði í samtali við blaðamann af
því tilefni að allur þessi útbúnaður
væri hannaður af honum án þess
að hann tæki greiðslu fyrir, var
það að hans sögn gjöf til íslenskra
sjómanna.
Talaði fyrir ábyrgri
stjórnun veiða
Einar lét sig varða fiskverndun
og skynsamlega stýringu veiða.
Hann áttaði sig snemma á því
hvert stefndi en hann ræddi
málið meðal annars í viðtali við
Morgunblaðið í júlí 1977. „Það
hefur orðið mikil breyting á sjó-
sókn hjá mér í gegnum árin. Með
stækkandi bátum hefur orðið að
sækja á fjarlægari mið. Sjósóknin
er almennt svipuð en minni afli.
Það er alltaf erfiðara að fiska
lítið en mikið, erfiðara andlega
og meiri úthaldstími á aflann. Nú
er farið að stunda kantana miklu
meira á netunum en áður var gert,
allt niður á 200 til 300 faðma.
Fyrir 10 árum vorum við lítið úti
á þessum köntum, það var ekki
litið á þá og varla farið á dýpra en
100 faðma. Þótt maður hafi ávallt
stundað veiðiskap við Suður-
land þá hefur það einnig breyst
á undanförnum árum að maður
er meira að heiman, útivistin á
sjónum er talsvert lengri.“
Stjórnlaust og ekki
nokkur hæfa
Þegar Einar var spurður að því
hvort hann telji að fiskimið fyrir
sunnan land hafi verið ofsótt þá
sagði hann svo vera. „Ég vil
meina að það sé ofsótt á Suður-
landsmiðin. Þangað koma bátar
alls staðar af á landinu og ef ein-
hvers staðar fréttist af fiski er öll
gomman komin á staðinn. Báta-
floti landsmanna sækir þannig
sérstaklega á Suðurlandsmið.
Í sumum landshlutum hefur
reyndin orðið sú að viðkomandi
menn á næstu stöðum við miðin
fá að njóta veiðiréttarins og má
í því sambandi nefna rækju- og
skelfiskveiðar. Það væri ef til
vill best að hver fengi að sitja
að sínu á afmörkuðu veiðisvæði,
en hræddur er ég um að það yrði
erfitt við að eiga í framkvæmd
og reynd. Skynsamlegra er að
mínu mati að taka upp ákveðnari
stjórnun. Það liggur fyrir að um
ofveiði er að ræða en samt er t.d.
alltaf verið að veita fleiri skut-
togaraleyfi. Þetta er algjörlega
stjórnlaust og ekki nokkur hæfa
í þessu á meðan svona er ástatt á
fiskimiðum okkar. Á undanförn-
um árum hefur það stöðugt orðið
erfiðara og erfiðara fyrir frystihús
að halda uppi stöðugri vinnu
nema þar sem skuttogararnir eru
með í dæminu, því það liggur ljóst
fyrir að þar hafa skuttogararnir
leyst ákveðinn vanda sem minni
bátarnir ráða ekki við. Það getur
hins vegar engan veginn verið
skynsamlegt til lengdar að leyfa
ofveiði, hvorki hjá skuttogurum
eða öðrum veiðiskipum.“
Verðum sjálfir að taka ábyrgð
Einar var á þessum tíma ekki í
nokkrum vafa hvar lausnina væri
að finna. „Við verum sjálfir að
taka á okkur töluverða ábyrgð að
eyða ekki sjálfir þessum fiski sem
lifir við landið. Við getum ekki
lengur afsakað okkur með veiðum
útlendinga og verðum sjálfir að
sýna fram á að við séum menn til
þess að stjórna þessu.
Allt snýst þetta því um skynsam-
legri stjórnun og nýtingu veiðiflot-
ans og þar verður að halda fast
og ákveðið um stjórnvölinn
jafnframt því að leggja kapp á að
nýta aflann til fulls, til manneldis.
Sjómenn verða þó fyrst og fremst
sjálfir að finna til ábyrgðar í þess-
um efnum, því allt annað er mjög
erfitt. Það verður einnig að vera
samræmi í stjórnunaraðgerðum.
Fáránlegt er að bítast á báða bóga
um það að úr því að hrygningar-
fiskurinn sé drepinn þá sé allt i
lagi að drepa smáfiskinn og svo
framvegis. Það á t.d. ekki fremur
að banna smáfiskadrápið en leyfa
allsherjardráp á hrygningarfiski.“
Einar talaði einnig fyrir því að
vísindin yrðu höfð meira til marks
í framtíðarákvörðunum en þá var.
„Þáttur fiskifræðinganna í þessu
hlýtur að eiga eftir að aukast
mikið og sú starfsemi verður að
vaxa. Ég er t.d. viss um það að ef
fiskifræðingar gætu fylgst meira
með spærlingnum væri ávallt
hægt að hafa opin veiðisvæði
án þess að eiga á hættu að drepa
smáfisk, humar, síld eða annan
nytjafisk sem þarf að hlífa, en
þessu þarf að stjórna eins og öðru
i fiskveiðum.“
Geta ráðið úrslitum
um sjálfstæði Íslands
„Það er miklu meira farið að
hugsa um það en áður að fiskurinn
er langmikilvægasta fjárfesting
Íslands sem skilar arði og ef til
vill fer fólk almennt að sjá að
skynsamleg vinnubrögð í þessum
efnum geta ráðið úrslitum um
sjálfstæði Íslands í framtíðinni.
Menn eiga að hefja sig upp fyrir
það að vera að bítast um stað-
reyndir í þessum efnum. Allir sem
drepa fisk leggja hönd á plóginn
við eyðingu á fiskinum.
En veiðimennska er eðlileg,
sjálfsögð og bráðnauðsynleg svo
fremi að ekki sé gengið of langt.
Ákveðin stjórn í þessum mál-
um af ábyrgum mönnum er það
sem beinast liggur við og ábyrg
Ágústa Ágústsdóttir, Einar Ólafsson, Ása Sigurjónsdóttir og Ágúst Guðmunds-
son, eigendur að Kap II. Myndin er tekin 11. apríl 1987.
Ljósmynd: Sigurgeir Jónsson
Sigmund Jóhannsson og Einar Ólafsson Tekin í brúnni á Kap II VE.
Ljósmynd: Sigurgeir Jónsson