Fréttir - Eyjafréttir


Fréttir - Eyjafréttir - 01.06.2023, Blaðsíða 26

Fréttir - Eyjafréttir - 01.06.2023, Blaðsíða 26
26 | | 1. júní 2023 ein tvö ár eftir þennan atburð gekk mér illa að sofa til sjós. Ekki af hræðslu, heldur virtist líkami og sál bregðast ósjálfrátt við skips- halla ef hann var óvenjumikill eða snöggur.“ Mikil gæfa yfir Halkion VE Áhöfnin á Halkion VE bjargaði átta mönnum af Erlingi IV. VE 45 þegar báturinn sökk 22. mars 1963 um 30 sjómílur vestan við Vestmannaeyjar. Skipstjóri var Ásberg Lárenzíusson. Tveir úr áhöfninni, þeir Guðni Friðriksson 1. vélstjóri og Samúel Ingvason háseti fórust, en átta komust um borð í gúmmíbjörgunarbát. Halkion kom þar að skömmu síð- ar og bjargaði mönnunum. Stefán Stefánsson skipstjóri á Halkion sagði í viðtali við Morgunblaðið að hafi ekki talið vera sjóveður og ekki ætlað á sjó en fór af stað klukkutíma síðar en hann hefði annars gert. Þegar þeir voru komnir töluvert vestur fyrir Eyjar sá maðurinn við stýrið rautt ljós blikka og töldu þeir fyrst að það væri ljós á netabauju. Það reyndist vera ljós frá neyðarblysi. Eftir skamma stund sáu þeir gúmmí- bátinn. Erfiðlega gekk að ná mönnunum úr gúmmíbátnum því þeir voru allir mjög kaldir og blautir. Einn var orðinn meðvitundarlaus og líflítill. Rifjað var upp af þessu tilefni að í október 1961 fann Halkion VE bátinn Blátind þar sem hann var með bilaða vél út af Færeyjum og dró hann til hafnar. Alls hafði þá áhöfnin á Halkion VE, undir stjórn Stefáns Stefánssonar skip- stjóra, bjargað 24 sjómönnum úr sjávarháska. 1973 Fimmtíu ár voru liðin 22. febrúar síðastliðinn frá því að Gjafar VE 300 strandaði í Grindavík 1973. Það var um mánuði eftir að bátur- inn flutti yfir 400 manns, að talið er, frá Vestmannaeyjum til Þor- lákshafnar þegar Heimaeyjargosið braust út 23. janúar sama ár. Gjafar VE var á útleið frá Grindavík eftir að hafa landað loðnu og strandaði á skeri við Hópsnesið um klukkan þrjú um nóttina. Það gekk á með útsynn- ingshryðjum. Slysavarnadeildin Þorbjörn í Grindavík bjargaði áhöfninni á land í björgunarstóli við erfiðar aðstæður. Gekk sjór bæði yfir skipið og björgunar- mennina á leið þeirra á strand- staðinn, að sögn Morgunblaðsins. Allir skipbrotsmennirnir urðu bæði blautir og kaldir við björg- unina. Þeir hresstust fljótt þegar þeir komust í þurr og hlý föt og komust í hús. Miklar skemmdir urðu á bátnum og var honum ekki bjargað. Í áhöfn Gjafars voru Örn Erlingsson skipstjóri, Haraldur Benediktsson 1. stýrimaður, Hilmar Rósmundsson 2. stýrimað- ur (var í landi), Guðjón Rögn- valdsson 1. vélstjóri, Theódór Ólafsson 2. vélstjóri og hásetarnir Snorri I. Ólafsson, Jón Ásgeirs- son, Ingi Steinn Ólafsson, Samúel Friðriksson, Már Guðmundsson, Jónas Hermannsson og Ævar Karlesson. Stórt viðtal var við þá Guðjón Rögnvaldsson og Theódór Ólafsson í Eyjafréttum 20. febrúar 2013 þegar 40 ár voru liðin frá strandinu. Þar lýstu þeir baráttu áhafnarinnar upp á líf og dauða í brimgarðinum við Grindavík. Elías Steinsson VE 167 strandaði á Langarifi austan við Stokkseyri 28. mars 1973. Báturinn var á leið til Þorlákshafnar með 25 tonn af þorski af Eyjamiðum. Bjarnhéð- inn Elíasson skipstjóri ákvað að leggja sig eftir tveggja sólarhringa vöku og sagði í samtali við Morgunblaðið að illt hafi verið að vakna við strandið. Björgunar- sveitir Slysavarnafélags Íslands á Stokkseyri og Eyrarbakka komust að bátnum á slöngubátum og björguðu skipverjunum níu. Nokkur ylgja var við strand- staðinn og höfðu tveir gúmmí- björgunarbátar bátsins rifnað við síðuna. Í níu manna áhöfn bátsins voru Bjarnhéðinn Elíasson skip- stjóri og útgerðarmaður, Kristján B. Laxfoss stýrimaður, Erlingur Pétursson vélstjóri, Sæmund- ur Guðmundsson 2. vélstjóri, Elías Guðmundsson kokkur og hásetarnir Steinar Gunnarsson, Salvar Júlíusson, Guðmundur Magnússon og Örn Guðmunds- son. Frigg VE 316 fékk á sig brotsjó suður af Grindavík þann 29. mars 1973. Mikill leki kom að bátnum, vélin drap á sér og rak bátinn stjórnlaust í átt að landi. Sigurður Gísli VE 127 kom að bátnum. Áhöfnin á Frigg, fimm manns, fór í gúmmíbjörgunarbát sem var dreginn yfir í Sigurð Gísla sem bjargaði áhöfninni. Frigg rak síðan upp í Krýsuvíkurberg í sunnan roki og stórsjó og brotnaði þar. Skipstjóri á Frigg VE var Sveinbjörn Hjartarson og Friðrik Ásmundsson var skipstjóri á Sigurði Gísla VE. Að sögn Tímans var Frigg VE 17. báturinn sem fórst hér við land á þremur mánuðum frá ársbyrjun 1973 og þriðji Vestmannaeyjabát- urinn sem fórst á þeim tíma. Gjafar VE. Ljósmynd: Sigurgeir Jónsson Guðrún VE 163.

x

Fréttir - Eyjafréttir

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Fréttir - Eyjafréttir
https://timarit.is/publication/977

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.